131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:19]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Kyoto-bókun loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna gengur í gildi 16. febrúar næstkomandi. Fullgilding Rússlands að bókuninni gerði gæfumuninn, ef svo má segja, en lengi horfði illa með framkvæmd bókunarinnar, ekki síst vegna tregðu Bandaríkjastjórnar til þess að leggja sitt af mörkum til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.

Það þarf varla að minna þingheim á nýútkomna skýrslu Norðurskautsráðsins um loftslagsbreytingar af manna völdum á norðurslóðum, fyrstu rannsókn sinnar tegundar í heiminum. Niðurstöður hennar einar ættu að sjá til þess að ríkisstjórnir um allan heim taki við sér og grípi til raunhæfra aðgerða sem geta dregið úr loftslagsbreytingum á þessari öld.

Ráðfrú umhverfismála, Sigríður Anna Þórðardóttir, sagði m.a. í ræðu sinni á 10. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í Rio de Janero að nauðsynlegt væri að auka þekkingu á nýtingu jarðhita víða um heim og ætlar Ísland að aðstoða smá eyríki sérstaklega í þessu efni og er það vel, herra forseti. En í máli hennar kom ekki fram, að því ég fæ best séð, hvaða ráðagerðir stjórnvöld hefðu uppi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hér á landi. Fyrir liggur að til að ná tökum á viðfangsefninu þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum öllum um 50–60% á þessari öld, herra forseti.

Í þriggja ára gamalli stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á sviði loftslagsmála frá því í mars 2002 er lögð áhersla á sjö atriði sérstaklega. Þeirra á meðal eru:

Fyrsta atriðið að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum. Einnig má nefna að áhersla er lögð á auknar rannsóknir á þáttum sem hafa áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Þá má nefna að í áætluninni er gert ráð fyrir að efld verði fræðsla og upplýsingagjöf til almennings.

En hvað hefur verið gert, herra forseti? Jú, olíugjaldið var sett á í stað þungaskatts og tekur gildi um mitt þetta ár, en minna hefur borið á öðrum atriðum, m.a. fræðslunni til almennings og rannsóknunum.

Árið 2000 voru bílar orðnir 180 þúsund hér á landi og hafði fjölgað um 80% frá 1980, en á sama tíma fjölgaði þjóðinni um 24%. Við höfum horft upp á jeppavæðingu höfuðborgarsvæðisins á undanförunum árum sem m.a. hefur orðið til vegna aðgerða stjórnvalda, breytinga á vörugjöldum á bifreiðum. Orð forsætisráðherra um nauðsyn frekari undanþágna eru okkur öllum í fersku minni.

Því vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra:

Hvernig hyggst hún sjá til þess og með hvaða áætlunum ætlar ríkisstjórn Íslands að tryggja að Kyoto-bókuninni verði fullnægt hér á landi á fyrsta skuldbindingartímabili hennar 2008–2012?