131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:22]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Samkvæmt Kyoto-bókuninni og útfærslu hennar gagnvart Íslandi eru útstreymisheimildir landsins tvíþættar. Í fyrsta lagi skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, þ.e. vera innan við 3.600 þús. tonn koltvíoxíðs-ígilda árlega að meðaltali á árunum 2008–2012.

Í öðru lagi hefur Ísland heimild til þess að auka losun á koltvíoxíði um 1.600 þús. tonn á ári að meðaltali á árunum 2008–2012 vegna nýrrar stóriðju eftir 1990 sem notar endurnýjanlega orku. Það ákvæði um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar sem stundum er vísað til sem „íslenska ákvæðisins“ gerir ráð fyrir að koltvíoxíðslosun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meira en 5% aukningar á losun á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar, þ.e. 2008–2012, verði þá haldið utan við losunarskuldbindingar bókunarinnar eftir að losunarheimildir viðkomandi lands hafa verið fullnýttar.

Ákvæðið nær aðeins til þeirra ríkja sem losuðu minna en 0,05% af heildarkoltvíoxíðslosun iðnríkjanna 1990. Þessi heimild er háð því að framleiðendur noti endurnýjanlega orku og að notkun hennar leiði til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, enn fremur að besta fáanlega tækni sé notuð og að bestu umhverfisvenjur séu viðhafðar við framleiðsluna.

Samkvæmt nýlegum útreikningum iðnaðarráðuneytisins eykst árleg losun koltvíoxíðs síðan 1990 frá nýrri stóriðju líklega um 1.183 þús. tonn sé tillit tekið til aukningar sem orðið hefur á stóriðju og er væntanleg fram að skuldbindingartímabilinu 2008–2012. Aukningin er svohljóðandi eftir fyrirtækjum í þúsundum tonna koltvísýrings:

Alcan 130, Járnblendiverksmiðjan 175, Norðurál 392, Fjarðaál 486. Samtals eru þetta 1.183 þús. tonn. Þetta þýðir að Íslendingar hafa líklega um 417 þús. tonn af koltvísýringi á ári til ráðstöfunar í samræmi við íslenska ákvæðið fram að og með fyrsta skuldbindingartímabilinu á árunum 2008–2012. Ef ekki kemur til annarra framkvæmda sem gætu fallið undir íslenska ákvæðið á skuldbindingartímabilinu er lítil hætta á að farið verði fram úr þeim heimildum sem það veitir. Ef íslenska ákvæðið væri fullnýtt og eitthvert fyrirtæki færi fram úr þeim heimildum sem því eru veittar innan þess ramma, yrði það fyrirtæki að afla sér heimilda svo sem með því að kaupa þær eða að stuðla að bindingu kolefnis sem svaraði til umframlosunar þess.

Ég vil taka það skýrt fram af þessu tilefni að núna í vetur erum við að fara yfir öll þessi mál í umhverfisráðuneytinu og við eigum að skila skýrslu til loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna núna í árslok þar sem við þurfum að sýna fram á með ótvíræðum hætti að við stöndum við skuldbindingar okkar. Og ég vil líka taka það fram af þessu tilefni að það er ekkert sem bendir til annars en það verði unnt.