131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:28]

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur hér áðan þar sem hún getur um að þjóðinni hafi fjölgað um 20% og bifreiðaeign eða ökutæki landsmanna hafi aukist um 80% frá 1980, þá held ég að rétt sé að fara yfir það vegna þess að þar hefur orðið mjög jákvæð þróun. Hvað er svona jákvætt? Jú, að við höfum þörf fyrir fleiri ökutæki hvers konar, m.a. vegna mun meiri umsvifa í þjóðfélaginu, bæði framkvæmda og stóraukinnar ferðamannaþjónustu, sem bæði byggir á hópbílum og bílaleigubílum. Þetta er staðreynd.

Það er einnig mjög ánægjulegt að þær nýju bílvélar sem nú fluttar eru til landsins menga mun minna en þær vélar sem voru í eldri flota landsmanna. Þær eyða jafnframt mun minna eldsneyti, bæði bensínvélarnar en þó sérstaklega dísilvélarnar. Þetta er því gríðarlega gjaldeyrissparandi fyrir þjóðina.

Ég álít það því einungis mjög jákvætt að ökutækjum af nýjustu gerðum hafi fjölgað í landinu (Forseti hringir.) og eins og við vitum tekur olíugjaldið gildi 1. júlí.