131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:31]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert með okkur Íslendinga, að við höfum jafnan ákaflega mikinn áhuga á því sem skilað getur okkur árangri í þessum efnum eftir svo sem 50 ár. Við ræðum mikið um alls kyns tæknilausnir, vetni og annað þar fram eftir götunum. Við getum eytt í það heilu dögunum, ráðstefnunum og umtalsverðum fjármunum en á hinum pólitíska vettvangi virðast stjórnvöld engan áhuga hafa á því sem hægt er að gera í dag. Það kemur glögglega fram í svari eða svarleysi hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurninni. Það eru engin greinargóð áform um aðgerðir til að draga úr þessari mengun í dag.

Ég hvet nýjan umhverfisráðherra til að taka á í þessu efni. Skýrsla heimskautaráðsins og sú skýrsla sem kynnt var í gær, um þær miklu ógnir sem steðja að okkur vegna hinnar gríðarlegu mengunar sem sannarlega er um að ræða, hlýtur að brýna okkur til þess að grípa til aðgerða í dag. Þótt við á Íslandi munum ekki ráða úrslitum um mengunina í heiminum þá er það grundvallaratriði fyrir okkur að ganga á undan með góðu fordæmi þannig að tekið verði eftir orðum okkar og hvatningu á alþjóðavettvangi.