131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Kyoto-bókunin.

274. mál
[14:34]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður og þær sýna sannarlega að þingmenn eru mjög áfram um að við Íslendingar stöndum okkur vel hvað þessi mál varðar. Ég tel að við verðum að skoða stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi. Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir þá er staða okkar auðvitað allt önnur að því leyti að nánast öll raforkunotkun okkar kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Heildarorkunotkun á Íslandi er 70% frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hins vegar er það rétt að við þurfum að taka á bílaumferðinni og flota okkar, bæði fiskiskipum og kaupskipum. Við bindum auðvitað miklar vonir við nýja tækni eins og aðrar þjóðir. Það er t.d. mjög mikill þrýstingur á bílaframleiðendur með að koma til móts við kröfur um að framleiða bíla með nýjum vélum. Slíkir bílar eru þegar komnir í umferð hér á landi, t.d. hybrid-bílar sem nota bæði bensín og rafmagnsvél. Við þekkjum öll merkilegt verkefni hjá Strætó í Reykjavík þar sem verið er að gera tilraun með vetni. Ég er sannfærð um að í framtíðinni muni þetta skila mjög miklum árangri sem við munum að sjálfsögðu njóta góðs af.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert í þessum efnum? Hún hefur m.a. brugðist við með því að lækka vörugjöld á bíla með þessari nýju tækni.