131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Innanlandsmarkaður með losunarefni.

367. mál
[14:42]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég lýsi vonbrigðum með svar hæstv. umhverfisráðherra að þessu leyti einnig, eins og með fyrra svar hennar varðandi Kyoto-bókunina. Ég held að ráðlegt sé að hæstv. umhverfisráðherra sofi ekki of lengi á verðinum og láti ekki of lengi undir höfuð leggjast að búa til einhvers konar markað með losunarheimildir á Íslandi. Ég veit ekki betur en að á teikniborðinu sé rafskautaverksmiðja sem hér á að byggja uppi í Hvalfirði innan örfárra ára. Ég sé ekki betur en að í matsskýrslu sem liggur til grundvallar þeirri verksmiðju eigi sú verksmiðja að brenna þúsundum tonna af olíu. Ég held að hæstv. umhverfisráðherra verði ekki glaður með að bæta þeirri losun við almennar heimildir okkar, sem verða á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar 3.200. þús. tonn. Ég sé ekki annað en að í það stefni á allra næstu árum að almennar losunarheimildir okkar spryngi. Hversu lengi ætlar hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. ríkisstjórn að sofa á verðinum?