131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Innanlandsmarkaður með losunarefni.

367. mál
[14:46]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka umræðuna og fyrri ræðumönnum. Ég hygg að síðasti hv. ræðumaður hafi komist að kjarna málsins. Ég er satt að segja undrandi og hlessa á svörum umhverfisráðherrans vegna þess að ég taldi að hugsanlega væri kannski lítið byrjað að gera í þessu máli og þetta gæti þá orðið hvatning til þess að því yrði hraðað. En ég hafði ekki hugmyndaflug í það að umhverfisráðherrann hæstv. og hæstv. ríkisstjórn ætluðu sér ekki að gera neitt.

Mig langar að vitna í skýrslu Auðar H. Ingólfsdóttur, vegna þess að ég sé að hún hefur ekki náð eyrum eða augum þeirra sem stjórna í Stjórnarráðinu, bara í tvo staði, með leyfi forseta:

„Í Kyoto-bókuninni eru engar kvaðir um að ríkið þurfi að innleiða innanlandsmarkað fyrir losunarheimildir. Engu að síður er ljóst að slíkur markaður eða a.m.k. einhvers konar takmarkanir á losun er forsenda þess að einkageirinn sjái sér hag í að nýta sveigjanleikaákvæðin. Ef hið opinbera setur engar takmarkanir á einstök fyrirtæki um losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið er enginn hvati til staðar fyrir fyrirtækin að draga úr losun eða að afla sér losunarheimilda annars staðar frá.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Þó möguleikar Íslands til að selja losunarheimildir séu takmarkaðir útilokar það ekki landið frá þátttöku í sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar. Ef stjórnvöld setja engin takmörk á losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði vantar þó hvata fyrir íslensk fyrirtæki til að sjá sér hag í að nýta sér ákvæðin og spurning hversu lengi sú stefna dugi að leyfa nýjan iðnað án þess að nokkrar kröfur séu gerðar um mótvægisaðgerðir vegna aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda.“

Ég trúi því ekki enn og vona að sú vantrú verði staðfest í næstu ræðu að umhverfisráðherra sé þeirrar skoðunar að það eigi ekkert með þetta að gera, að umhverfisráðherra álíti að við munum hafa hérna heimild langt fram í alla framtíð til þess að menga andrúmsloftið (Forseti hringir.) meira en aðrar þjóðir. Það er misskilningur, forseti, að ástandið sé þannig og að vandinn sem við blasir (Forseti hringir.) verði leystur undir þeim gunnfánum.