131. löggjafarþing — 61. fundur,  26. jan. 2005.

Vegagerð og veggjöld.

43. mál
[15:32]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á vegagerð og veggjöldum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Halldór Blöndal, Drífa Hjartardóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Þetta mál var flutt á 130. þingi, en varð þá ekki útrætt og er þess vegna flutt að nýju.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna að úttekt á kostum í vegagerð sem unnt yrði að fjármagna með veggjöldum, í því skyni auka fjárfestingar í vegagerð og stuðla að uppbyggingu nýrra samgöngumannvirkja.“

Ljóst er að Íslendingar verja miklu fé til vegagerðar í landinu og fyrir því er auðvitað mjög brýn ástæða. Sennilega er það þannig að við verjum hærri hundraðshluta af landsframleiðslu okkar til vegamála og samgöngumála en flestar aðrar þjóðir og það eru augljósar ástæður fyrir því. Við höfum verið langt á eftir. Vegagerð í landinu, innviðir samfélagsins, var lengst af töluvert á eftir og bundið slitlag á vegum er tiltölulega nýlegt fyrirbæri hér á landi, a.m.k. úti um landsins byggðir. Við vitum að land okkar er dreifbýlt og fámennt og það gefur þess vegna augaleið að fjármunir sem við þurfum að leggja til þessa málaflokks eru meiri en víða annars staðar. Vegakerfi okkar er líka þannig oft á tíðum að það er mjög erfitt. Mikið er um fjalllendi og víða eru langir firðir og við þurfum stundum að fara jafnvel tvær leiðir inn á einstök landsvæði sem gerir það að verkum að við þurfum að verja heilmiklu fjármagni til þess arna.

Einnig höfum við verið að verja auknu fjármagni af hálfu ríkisins til uppbyggingar á vegakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Þó að menn kvarti nú mjög undan því að ekki sé nægilega gert í þeim efnum er það engu að síður svo að á síðustu árum hefur verið varið til þessa landshluta meiri fjármunum í vegamálum en jafnan áður. Hins vegar er vegagerð í þéttbýlinu mjög kostnaðarsöm. Vegagerð á hvern kílómetra getur kostað um milljarð á höfuðborgarsvæðinu sem þætti ekkert smávegis í vegagerð á landsbyggðinni.

Þetta allt gerir það að verkum að þó að við séum að leggja heilmikið fé til vegamála í landinu finnst okkur oft miða hægt og nútímalífshættir kalla á það að mikið sé gert í þessum efnum. Við sættum okkur einfaldlega ekki við þær aðstæður sem menn bjuggu við árum saman. Þess vegna er svo mikilvægt að reyna að leita leiða til að létta undir í samgöngumálunum. Í því sambandi hefur þessari tillögu verið fleytt áfram. Hugmyndin á bak við hana er einfaldlega sú að kannaðar verði leiðir í þessum efnum. Við gerum okkur vissulega grein fyrir að þetta á alls ekki við alls staðar. Sums staðar fer vegagerðin fram á þeim stöðum þar sem umferð er lítil og bæri að sjálfsögðu enga vegtolla miðað við núverandi tækniþróun. Þó fleygir tækninni sífellt fram og möguleikar manna til að beita vegtollum við minni umferð er stöðugt að aukast. Enginn vafi er á því að þegar fram í sækir mun núverandi fjáröflun til vegagerðar verða öðruvísi. Við munum væntanlega nýta nútímatækni eða framtíðartækni til að innheimta gjöld af bílum eftir því sem þeir nýta vegina. Það hefur verið kannað mjög, m.a. innan Evrópu, að gera það með þeim hætti að hafa mismunandi vegtolla til að stýra umferðinni, draga úr henni á einhverjum tímum og á einhverjum svæðum og þar fram eftir götunum, allt í því skyni að reyna að tryggja að umferð verði minni til að geta síðan nýtt samgöngumannvirki.

Við höfum eingöngu verið að nota vegtolla á einum stað á landinu, þ.e. við Hvalfjarðargöngin. Enginn vafi er á því að á þeim tíma var það algjör forsenda fyrir gerð Hvalfjarðarganganna að við fórum í þá vegtollainnheimtu. Við þekkjum það frá umræðum á þeim tíma að heilmikil andstaða var við þá vegagerð eða gangagerð undir Hvalfjörðinn. Við þekkjum það úr þessum sal að mjög var varað við því, m.a. af tæknilegum ástæðum, alls konar heimsendaspádómamenn héldu því fram að göngin mundu leka, við mundum ekki komast hálfa leiðina yfir eða undir Hvalfjörðinn, síðan mundi þetta allt saman hrynja í höndunum á okkur. Þetta reyndust sem betur fer algjörar hrakspár sem ekkert var að marka. Hvalfjarðargöngin hafa sannað gildi sitt og margsannað gildi sitt með vaxandi umferð og því að byggðin handan Hvalfjarðar hefur verið að eflast gríðarlega mikið. Og það hefur verið forsendan fyrir því sem við höfum verið að sjá gerast í Hvalfirðinum, það sem þar hefur átt sér stað. Það er enginn vafi á því að sú framkvæmd hefur sannað sig. Við þurfum ekkert að fara í neinar grafgötur um það, það er bara þannig.

Hins vegar er það svo að þeir vegtollar eru núna farnir að hamla á margan hátt vextinum á svæðinu í kringum Akranes og Borgarfjörð vegna þess einfaldlega að þetta er eini staðurinn á landinu þar sem við beitum vegtollum og íbúar staða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins búa betur, margir hverjir, þar sem þeir búa ekki við vegtolla. Auðvitað er þetta á vissan hátt mjög ósanngjarnt. Þess vegna er nauðsynlegt að unnið verði að því að lækka og leita allra leiða til að lækka vegtolla í Hvalfjarðargöngunum og ég veit að til þess er fullur vilji. Það er vissulega ekki einfalt mál, það skal ég fúslega viðurkenna, en þetta er hins vega eitt af því sem þarf að skoða og vinna að.

Það er á margan hátt ósanngjarnt að eini staðurinn þar sem vegtollum hefur verið beitt sé núna í Hvalfirðinum. Þess vegna er ástæða til að skoða hvort ekki megi koma þessu fyrir annars staðar þar sem umferðin gefur fullt tilefni til þess.

Ég árétta það að hugsunin á bak við þetta er sú að reyna að auka vegagerð, koma henni áfram þar sem hún er ekki til staðar í dag, m.a. að létta á, við getum sagt samkeppninni um hið takmarkaða fjármagn sem við leggjum til vegamála. Í því sambandi væri freistandi að nefna einhver dæmi en ég læt það ógert. Tilgangur þessarar tillögu er auðvitað sá að gera úttekt á þeim kostum sem hægt væri að fjármagna með vegtollum, þess vegna væri það kannski að fara aðeins fram úr sjálfum sér, fram úr tillögunni sem ég stend hér að, að fara í það að nefna þá kosti þó ég hafi ýmsar hugmyndir um það í sjálfu sér og gæti nefnt þá. Aðalatriðið finnst mér vera það að við skoðum þessa möguleika.

Í þessu sambandi vil ég líka nefna að mjög vaxandi áhugi er á þessum málum úti um landið. Lítið fyrirtæki í eigu eins manns eða sem einn maður hefur fyrst og fremst knúið áfram, Leið ehf. í Bolungarvík, hefur verið að skoða þessi mál og beitt sér m.a. fyrir skoðanakönnunum þar sem spurt hefur verið eftir þessum málum meðal almennings. Það er mjög athyglisvert að fólk segist vera tilbúið til að leggja á sig einhver veggjöld ef það mætti verða til þess að flýta fyrir framkvæmdum. Fólk skynjar með öðrum orðum mikilvægi þess að fara í fjárfestingar í þessum efnum, frekari fjárfestingar, og er þess vegna tilbúið að leggja á sig ýmislegt í þeim efnum. Þetta á bæði við um skoðanakannanir sem hafa verið gerðar á Vestfjörðum og líka á Austfjörðum. Þetta er auðvitað athyglisvert að í ljósi þess að við erum að fara í og hyggjum á miklar framkvæmdir á báðum þessum stöðum í samgöngumannvirkjum.

En aðalatriðið finnst mér vera það að með þessari tillögu er verið að reyna að kortleggja þá kosti sem kunna að vera til staðar til að örva þessar framkvæmdir. Við gerum okkur grein fyrir því og sjáum að miklar samgöngubætur, eins og Hvalfjarðargöngin, hafa mjög jákvæð áhrif á byggðaþróunina, það fer ekkert á milli mála, það er ómótmælanlegt. Þess vegna hlýtur það að vera mjög uppörvandi fyrir okkur að skoða aðra kosti í þessu sambandi. Það er auðvitað mjög ósanngjarnt eins og ég nefndi áðan að það skuli vera eini staðurinn á landinu þar sem við beitum vegtollum í því skyni að fara af stað með vegaframkvæmdir. Þess vegna eru það sanngirnisrök líka að við nýtum þetta annars staðar og það séu fleiri sem nýta umferðina sem borga fyrir hana með beinum hætti heldur en bara þeir sem nota Hvalfjarðargöngin.

Ég vil í þessu sambandi einnig nefna að mál af þessu tagi hafa oft komið til umræðu á Alþingi. Ég nefni í greinargerðinni tvö dæmi, annars vegar tillögu sem hv. þm. og hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, var 1. flutningsmaður að, sem gekk út á það að samgönguráðherra skipaði nefnd sem skyldi kanna kannski skylda hluti þeim sem hér er verið að fjalla um. Meðflutningsmenn ásamt honum voru hv. þingmenn Árni Ragnar Árnason, heitinn, og sá sem hér stendur. Síðan flutti sá sem hér stendur sem 1. flutningsmaður aðra tillögu um að skipa nefnd sem skyldi kanna hvort unnt væri að beita vegtollum til þess að draga úr þörf á gerð samgöngumannvirkja, stuðla að minni mengun og afla fjár til vegagerðar. Hún er í þeim anda sem ég nefndi hérna áðan fyrst í ræðu minni og menn hafa verið að gera, t.d. krataleiðtogi einn frá Lundúnum, Kenneth Livingstone, sem hefur verið að beita svona vegtollum til að draga úr umferð einkabíla inn til Lundúna og hefur tekist ágætlega í þeim efnum. Hann hefur safnað peningum í sjóði borgarinnar og dregið úr umferðinni og það hefur síðan orðið til þess að menn hafa ekki tafist jafnlengi í ferðum sínum til og frá Lundúnum eða innan Lundúna, sem er auðvitað þjóðhagslega mjög arðbært því það kostar vissulega heilmikið fyrir þjóðfélagið þegar menn standa fastir í umferð, geta hvorki komist lönd né strönd. Þess vegna, virðulegi forseti, er þetta þáttur sem þarf líka að skoða í þessu sambandi, hvort hægt sé að nota þetta t.d. til að stýra umferð. Við sjáum það á höfuðborgarsvæðinu að þessir meintu umferðarhnútar eru fyrirbrigði sem standa nokkrar mínútur að morgni og að kvöldi en kalla á miklar kröfur um auknar fjárfestingar í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu sem ég ætla að væri á margan hátt hægt að leysa með hagrænum aðgerðum sem ég hygg að nútíma- og framtíðartækni muni auðvelda okkur mjög að gera.

Virðulegi forseti. Ekki er ástæða til að fara löngum eða mörgum orðum um þetta. Hér er um að ræða mál sem er angi gríðarlegrar fjárfestingar í efnahagskerfi okkar, þ.e. fjárfestingum í vegagerð. Ég nefni það að samkvæmt samgönguáætlun sem nú gildir, langtímaáætlun, verður 72 milljörðum kr. varið til stofnframkvæmda í grunnnetinu. Þetta eru heilmiklar tölur og það skiptir miklu máli hvernig þeim er varið. En engu að síður kallar þörfin á alls staðar og okkur er öllum ljóst sem hér erum að mikil þörf er fyrir það að gera enn þá meira. Um það vitna óskir, kröfur og beiðnir víðs vegar að af landinu og við þingmenn erum svo sem ólatir við að taka undir þær og jafnvel stofna til þeirra. Okkur er því alveg ljóst að jafnvel 72 milljarðar á ekki lengri tíma til vegagerðar í landinu er of lág upphæð. Þess vegna er það mjög freistandi að nýta okkur þann vilja sem greinilega hefur komið fram hjá mörgum til að beita vegtollum þar sem það á við. Það er hins vegar ekki auðvelt mál og í því sambandi vil ég leggja áherslu á sanngirnisrökin sem mér finnst að hafi skýrlega komið fram, t.d. hjá íbúum Akraness og Borgarfjarðar og ýmsum öðrum sem nýta Hvalfjarðargöngin. Því er eðlilegt í þessu sambandi að skoðaðir séu kostir annars staðar og þessi mál séu skoðuð í heillegu samhengi til þess að örva framkvæmdir og gæta sanngirni við innheimtu vegtolla í framtíðinni.