131. löggjafarþing — 61. fundur,  26. jan. 2005.

Vegagerð og veggjöld.

43. mál
[15:44]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að hér sé um afar áhugavert mál að ræða og tek undir efni þess að það sem hér er ályktað um verði framkvæmt og gerð verði úttekt á kostum í vegagerð sem unnt yrði að fjármagna með vegtollum, í því skyni að auka fjárfestingar í vegagerð. Ekki er vanþörf á. Nógur er áhuginn hér á landi að laga vegakerfið og takast á við það að bæta samgöngur. Þar eru mikil verkefni fram undan.

Það fer ekki á milli mála að það sem ég hef oft leyft mér í þessum ræðustól að kalla varanlegar samgöngulausnir eru einhverjar arðbærustu framkvæmdir sem hægt er að fara í hér á landi og hafa margs konar áhrif, m.a. til að efla búsetu og ferðamennsku og yfirleitt að gera það mögulegt að samgöngur í landinu geti gengið betur en stundum er þegar veður er með þeim hætti sem Íslendingar þekkja, sérstaklega að vetrarlagi.

Það kemur fram í því þingmáli sem við erum að ræða að tvisvar áður hefur verið ályktað um sams konar mál og ályktanir verið samþykktar í þessa veru, árið 1993 og 1998, þ.e. annars vegar á 116. þingi og hins vegar á 123. þingi.

Nú verð ég að upplýsa og það er kannski fáfræði mín að ég veit ekki nákvæmlega hver afraksturinn varð af þeim tillögum sem þá voru samþykktar og hv. framsögumaður Einar K. Guðfinnsson gat um, en þær voru eftir því sem ég sé í textanum báðar samþykktar. Ég hefði gjarnan viljað heyra það hjá hv. þingmanni hvort það sem þar var lagt til og samþykkt af Alþingi var framkvæmt, í hvaða veru þær upplýsingar eru ef hann hefur tiltækt í minni sínu stutt yfirlit yfir það.

Ég ætla hins vegar ekki að lengja þetta mál mikið en ég tel að við Íslendingar séum almennt á nokkrum tímamótum og verðum að fara að gera okkur grein fyrir því og takast á við það að leysa samgöngumál varanlega hér á landi. Það eru margar ástæður til þess. Við höfum m.a. upplifað það að skipaflutningar hafa verið að leggjast af vítt og breitt um landið þó að við njótum þess enn þá, Vestfirðingar, að fá flutning inn á Vestfjarðasvæðið með einu skipi. Þá er alveg ljóst að álag á vegina er að aukast og einnig er ljóst að veðurfar hin síðari ár hefur nokkuð breyst. Ég held að mönnum beri saman um að svellalög t.d. á fjallvegum, sumum hverjum, eru í meira mæli en menn hafa séð og oft og tíðum afar erfitt að ferðast um bratta fjallvegi, ég tala nú ekki um þar sem vegurinn liggur í miklum beygjum, við þær aðstæður sem verið hafa og raunar nánast heppni að við skulum ekki hafa orðið fyrir meiri slysum í þeim illviðrakafla sem varað hefur undanfarið og á þeim svellalögum sem víða eru á þjóðvegum en þó hefur orðið raunin.

Ég hef áður flutt hér mál um það sem ég hef kallað varanlegar lausnir í vegagerð, annars vegar með þverun fjarða sem ég hef horft á sem styttingu vegalengda og hins vegar það sem ég hef kallað að koma íslenska vegakerfinu, meginvegakerfinu á láglendisvegi með jarðgangagerð í staðinn fyrir fjallaklifur og hlíðaklifur. Ég er alltaf að sannfærast betur og betur um að það eru þær aðferðir sem við eigum að taka upp í miklu meira mæli og setja okkur áætlun um hvernig standa eigi að.

Þess vegna er það mjög áhugavert sem fjallað er um í þessari tillögu og að spyrja um og velta upp þeim áföngum í vegagerð sem hugsanlega væri hægt að fjármagna með öðrum kostum en af beinu vegafé og þá kemur auðvitað upp að meta hvar það væri líklegt og eðlilegt og hvaða kröfur við gerum til þess að slík gjaldtaka megi eiga sér stað. Í fyrsta lagi held ég að menn mundu staldra við það þegar menn veltu því fyrir sér hvort önnur leið væri fær samhliða þeim áföngum, oft dýru áföngum sem að mínu viti verða mjög ódýrir þegar fram í sækir þegar búið er að koma þeim í notkun og nota þá í nokkra áratugi því við erum jú að tala um varanlegar lausnir, jarðgöng til kannski hundruða ára o.s.frv. Þá kemur auðvitað spurningin: Er til önnur leið eða yrði fjármögnunin með þeim hætti að ekki væri beinlínis verið að útvega nýtt fé heldur kannski verið að taka lán tímabundið sem borgaðist svo upp með öðrum fjárveitingum, eins og menn hafa t.d. verið að ræða í sambandi við hugsanleg Vestmannaeyjagöng og lagt þá að jöfnu það sem verið er að verja í samgöngur til Vestmannaeyja með Herjólfi, ferjusiglingar, og kostnaði þar að lútandi?

Síðan hafa menn auðvitað nefnt jarðgöng undir Vaðlaheiði. Þar er jú ágætur vegur um Víkurskarð en hann er því marki brenndur að veðurfar á þeirri leið getur verið slæmt og þess vegna er eðlilega mikill áhugi hjá mönnum norðan lands að komast undir Vaðlaheiðina og ekki nema eðlilegt að það sé skoðað, en jafnframt stendur til boða önnur leið þó að hún geti verið ófær stöku sinnum líkt og ýmsir aðrir vegir á landi hér. Þetta eru mál sem menn þyrftu að skoða.

Hins vegar er athyglisvert ef við skoðum það að frátöldum þeim göngum sem ég nefndi að sennilega þarf þá ekki að gera jarðgöng á Íslandi til að koma öllu vegakerfinu á láglendisveg nema á um svona 80 km sem er svipað og göngin fyrir vatn austur á landi. Ef við erum að tala um 80 km sinnum 700 millj. á kílómetrann geta allir reiknað hvað það kostar og þá þarf auðvitað að búa til áætlun í samræmi við það.