131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[10:33]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til vatnalaga sem er 413. mál þingsins. Gildandi vatnalög, nr. 15/1923, eru mikill lagabálkur sem hefur að mörgu leyti staðist tímans tönn. Lögin voru sett eftir áralöng átök milli sameignar- og séreignarsinna. Segja má að stefna sameignarsinna hafi orðið ofan á að formi til en séreignarsinna að efni til. Aðdragandi setningar vatnalaga, nr. 15/1923, sem var að mörgu leyti merkileg verður þó ekki rakin nánar hér.

Gildandi vatnalög taka fyrst og fremst mið af þörfum landbúnaðarsamfélagsins sem ríkti er lögin voru samin. Þótti því rétt að huga að endurskoðun vatnalaga og hefur hún staðið yfir frá árinu 2002. Helstu breytingar sem lagðar eru til eru að fallið verði frá hinni jákvæðu skilgreiningu eignarréttar á vatni sem núgildandi lög byggja á. Má til einföldunar segja að núgildandi lög heimili fasteignareiganda aðeins þá hagnýtingu vatns sem sérstaklega er leyfð. Í þessu frumvarpi er aftur á móti lagt til að hin neikvæða skilgreining eignarréttar verði lögð til grundvallar. Þannig segir í 4. gr. frumvarpsins:

„Fasteign hverri … fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Þannig má segja að fasteignareiganda sé heimil öll hagnýting vatns sem ekki er sérstaklega takmörkuð.

Ætla mætti að á þessu tvennu sé reginmunur. Staðreyndin er hins vegar sú að í vatnalögum, nr. 15/1923, eru talin upp öll þekkt not sem hægt var að hafa af vatni. Sú breyting sem hér er lögð til er því formbreyting en ekki efnisbreyting. Túlkun vatnalaga allar götur frá setningu þeirra og dómafordæmi Hæstaréttar staðfesta þetta.

Þá er og til þess að líta að eignarréttur allra annarra gæða sem fylgja fasteignum er skilgreindur með neikvæðum hætti, eins og hér er lagt til að gert verði með vatn. Hér er því ekki um að ræða efnislega breytingu á inntaki eignarráða fasteignareiganda yfir vatni.

Hafa verður í huga að samkvæmt ákvæðum annarra laga eru aðrar auðlindir sem tilheyra fasteignareiganda skilgreindar á neikvæðan hátt samanber t.d. 3. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Vert er að benda á að þessi nálgun gerir það að verkum að framsetning lagareglna um vatn og hagnýtingu þess verður einfaldari, knappari og skýrari. Eðli málsins samkvæmt leiðir það til mikillar einföldunar að telja ekki lengur upp með jákvæðum og næsta tæmandi hætti sérhverja heimild til vatnsnota sem fyrir hendi er heldur ganga einfaldlega út frá því að öll nýting vatns sé heimil svo fremi sem ekki séu settar við henni sérstakar skorður.

Með frumvarpi þessu er lagt til að undir vatnalög heyri vatn í öllum sínum myndum og birtingarformum, samanber nánari skilgreiningu 2. gr. frumvarpsins. Gildandi vatnalög taka fyrst og fremst til kyrrstæðs og rennandi yfirborðsvatns en um grunnvatn og jarðhita er fjallað í lögum nr. 57/1998, um rannsókn og nýtingu á auðlindum í jörðu. Á þessu verður breyting samkvæmt frumvarpinu og munu þessar auðlindir falla undir hin nýju vatnalög.

Meðal annarra breytinga skal þess getið að í gjörbreyttu samfélagi er ekki lengur talin þörf á þeim niðurnjörvuðu reglum um rétthæð einstakra vatnsnota sem fyrirfinnast í gildandi lögum. Allt að einu er þó hnykkt á því að vatnsnot til heimilisþarfa og hefðbundinna búsþarfa gangi fyrir öðrum vatnsnotum. Að þeim notum slepptum er ekki ráðgert að lögð séu sérstök bönd á fasteignareiganda hvað varðar nýtingu og ráðstöfun vatnsréttinda. Þannig er ekki lengur gert upp á milli þess hvernig fasteignareigandi kýs að nýta það vatn sem á fasteign hans er.

Ákvæði um vatnsveitur og áveitur eru einfölduð til muna. Vatnsveituþörf er nú að langmestu leyti uppfyllt á grundvelli laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nú lögum nr. 32/2004, og engin þörf er lengur talin á því að halda inni í lögum umfangsmiklu regluverki um áveitur sem munu næsta fátíðar hér á landi. Ákvæði um vatnsnot til iðnaðar og iðju án orkunýtingar falla út í heild sinni, enda þykja þau óþörf í nútímasamfélagi.

Ákvæði um vatnsmiðlanir, mannvirkjagerð, ráðstafanir gegn landbroti og ágangi vatns og almenn ákvæði um vatnsvirki eru einfölduð verulega frá gildandi lögum og tekin saman í einn kafla.

Ákvæði um óhreinkun vatns og holræsi eru felld brott í heild sinni enda er nú um þau mál fjallað í annarri löggjöf.

Þá eru reglur um vatnafélög einfaldaðar til muna og nú er ekki lengur gert ráð fyrir skylduaðild að slíkum félögum enda verður að telja að slíkt brjóti að óbreyttu í bága við fyrirmælin í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lagagildi hefur hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, nema í þeim undantekningartilvikum sem ráðgerð eru í 2. mgr. 74. gr. og telja verður til að mynda að nái óhjákvæmilega til veiðifélaga samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Ekki verður séð í ljósi reynslunnar að slík knýjandi nauðsyn útheimti heimild til skylduaðildar að öðrum þeim félögum sem stofnuð eru um einstök vatnsnot, enda önnur úrræði þá tiltæk til verndar einstaklings- og almannahagsmunum.

Loks er öll stjórnsýsla samkvæmt lögunum einfölduð til muna en hún verður hér eftir á höndum Orkustofnunar og iðnaðarráðherra.

Samkvæmt 34. gr. frumvarpsins fer iðnaðarráðherra með yfirstjórn mála. Hlutverk Orkustofnunar innan ramma vatnalaga byggist svo aftur á því að hún er stofnun sem heyrir undir iðnaðarráðherra og starfar í umboði hans með jarðrænar auðlindir og náttúrulegar forsendur þeirra, í þessu tilviki vatnsauðlindina og vatnafar. Þetta hlutverk lýtur því annars vegar að stýringu á nýtingu vatnsauðlindarinnar og hins vegar að stýringu á vatnafarslegum aðgerðum í samræmi við markmið laganna. Þessu fylgir annars vegar upplýsingaskylda nýtenda um nýtingu og fyrirhugaðar vatnaframkvæmdir og hins vegar eftirlit með aðgerðum gagnvart vatni sem breytt geta vatnafari og nýtingu vatnsauðlindarinnar, fyrst og fremst gerð mannvirkja og vatnaveitingar. Gert er ráð fyrir að Orkustofnun geti sett skilyrði um framkvæmd eða starfsemi í vötnum af tæknilegum ástæðum eða til að tryggja nýtingu í samræmi við markmið laganna, eða til að þau samræmist skilyrðum laganna, reglugerðum eða öðrum heimildum.

Hér er reyndar farin nýstárleg leið. Í stað þess að sótt sé um leyfi til Orkustofnunar þarf sá er hyggur á framkvæmdir í, á eða við vatn að tilkynna stofnuninni um það. Orkustofnun þarf innan fjögurra vikna að greina framkvæmdaraðila frá því hvort stofnunin hyggist setja skilyrði fyrir framkvæmdinni. Hafi Orkustofnun ekki tilkynnt um skilyrði innan þess tíma er framkvæmdaraðila rétt að líta svo á að framkvæmdin sé heimil án skilyrða hvað varðar gildissvið nýrra vatnalaga. Er þetta gert til þess að einfalda stjórnsýslu laganna en jafnframt er þess gætt að vitneskja sé til staðar hjá Orkustofnun um þær framkvæmdir er kunna að snerta vatnafar auk þess sem hægt er að setja skilyrði, sé þess þörf.

Reglur um eignarnám eru færðar til þess horfs sem almennt þekkist nú á dögum. Reglur gildandi vatnalaga eru ekki í samræmi við það sem þekkist í slíkum málum og þótti því eðlilegt að færa reglurnar til nútímahorfs. Ekki þykir ástæða til þess að rekja í smáatriðum þær breytingar sem í því felast en þær lúta fyrst og fremst að því að afnema þær sérreglur sem gilt hafa um eignarnám samkvæmt vatnalögum, t.d. um kostnað af mati, ákvörðun um hve víðtækt eignarnám skuli vera og um umráðatöku.

Lagt er til að ýmis ákvæði verði færð úr vatnalögum. Má þar nefna ákvæði um frjálsa för um vötn sem talið var að ætti betur heima í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Helgast þetta af því að í lögum um náttúruvernd eru reglur almannaréttar sem kveða á um með hvaða hætti almenningi er heimil för um eignarlönd annars fólks. Ekki þykir lengur eðlilegt að slíkar reglur séu í vatnalögum heldur beri að skipa þeim í þann lagabálk er almennt fjallar um málefnið. Einnig hefur verið hugað að lagaskilum við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja nánar efni frumvarpsins og vænti þess að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og iðnaðarnefndar.