131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[10:43]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mér ekki mikið gleðiefni að þurfa að stíga í stól á hinu háa Alþingi og flytja ræður mínar um frumvarp til vatnalaga hafandi fengið að vita það seint í gær að málið yrði tekið á dagskrá. Ég verð að byrja á því að gagnrýna stjórn þingsins fyrir að taka svo stórt og viðamikið mál á dagskrá fyrirvaralaust. Ég fullyrði að fjöldi þingmanna hefur ekki vitað af því að málið yrði sett á dagskrá kl. hálfellefu í dag fyrr en í morgun þegar fólk mætti til vinnu. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð, hæstv. forseti, og eiga ekki að leyfast.

Við höfum haft vikuplan, dagskrá vikunnar, til hliðsjónar frá því fyrir helgi. Þannig hafa allir undirbúið sig fyrir ákveðin mál í dag. Þótt það komi upp veikindaforföll eins og ég veit að gerðist í þessu tilfelli, að hæstv. fjármálaráðherra gat ekki verið hér viðstaddur til að mæla fyrir skýrslu um skattsvik, þá tel ég alvarleg afglöp af stjórn Alþingis að setja svona mál á dagskrá fyrirvaralaust. Hér hefði verið hægt að nýta tímann í þingmannamál sem nóg er af og þingmenn hafa beðið mánuðum og vikum saman eftir að kæmu á dagskrá. Ég gagnrýni alvarlega stjórn þingsins fyrir að standa svona að málum.

Einnig er gagnrýnivert að hæstv. iðnaðarráðherra, sem hefur kannski verið jafnilla búin undir að flytja ræðu sína og við erum til þess að fjalla um málin, þá má gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir það að hún skuli (Gripið fram í.) leyfa sér að orða það ekki einu orði í ræðu sinni hversu viðamikið mál er á ferðinni hvað varðar umhverfisvernd og náttúruvernd. Enn eina ferðina flytur hæstv. iðnaðarráðherra mál sem er á sviði umhverfisnefndar og vísar því eingöngu til iðnaðarnefndar.

Við áttum hörð orðaskipti fyrir jólin, þingmenn og hæstv. iðnaðarráðherra, vegna annars máls af svipuðum toga, þ.e. frumvarps til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum þar sem hæstv. iðnaðarráðherra var gagnrýnd harðlega fyrir að ætla sér að gína yfir málaflokkum á sviði umhverfismála og umhverfisnefndar þar af leiðandi. Ég gagnrýni hæstv. iðnaðarráðherra á nákvæmlega sömu nótum og ég gerði þá í því lagafrumvarpi sem nú er rætt, vatnalög.

Þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum kvartaði ég undan því að ekki lægi fyrir þá þegar fyrirhugað frumvarp til vatnalaga og var svarað með skætingi og hofmóðugheitum. Núna stend ég frammi fyrir því að þurfa að ræða um margumtalað frumvarp til vatnalaga án þess að hafa fengið að undirbúa mig á mannsæmandi hátt fyrir þá umræðu. Engu að síður skal ég taka til við að flytja þá ræðu sem ég hafði tök á að koma saman seint í gærkvöldi því að allur morgunninn hefur farið í að sitja á allsherjarnefndarfundi eins og stjórn þingsins vissi auðvitað, að nefndarfundir fyrir þingfundi eru á fimmtudagsmorgnum.

Virðulegi forseti. Í mars árið 2000 var haldin viðamikil alþjóðleg ráðstefna um vatn og vatnsbúskap í heiminum. Ljóst er að í veröldinni vofir yfir kreppa í þessum málum. Það er yfirvofandi skortur á vatni í tugum landa á jarðarkringlunni og um helmingur stórfljóta og stöðuvatna heimsins er mengaður. Meginverkefni þeirra sem starfa að þessum málum í veröldinni er auðvitað að finna lausn á fersksvatnsvanda heimsins.

Þá má nefna að ríflega 1 milljarður manna hefur ekki aðgang að hreinu vatni. Sömuleiðis að nærri 3 milljarðar búa ekki við viðunandi hreinlæti af þessum sökum. Þetta hefur í för með sér að um 7 millj. manna deyja árlega af völdum sjúkdóma sem tengjast vatni. Ef jarðarbúar verða 8 milljarðar árið 2025 eins og gert er ráð fyrir mun vatnsnotkun aukast um 40% í veröldinni.

Sums staðar er yfirvofandi stríð í veröldinni vegna vatnsskorts, stríð um vatn eru næstu styrjaldir sem menn gera ráð fyrir að verði háðar í heiminum og aðeins má segja að tvo stórfljót í veröldinni séu talin óspillt svo nokkru nemi hvað varðar mannsæmdina eða mengun og þau eru í Suður-Ameríku og í Afríku.

Hlutir á borð við þessa, þær staðreyndir sem ég hef talið upp, komu fram í máli dr. Ismails Serageldins, varaforseta Alþjóðabankans og formanns Alþjóðavatnsnefndarinnar, voru það a.m.k. þegar téð vatnsráðstefna var haldin fyrir tæpum fimm árum þó vera kunni að eitthvað hafi breyst í þeim efnum. En það er afar mikilvægt að við skoðum þetta samhengi hlutanna þegar við fjöllum um vatn á Íslandi þó ekki sé yfirvofandi vatnsskortur eða hætta á slíku hér á landi.

Hæstv. forseti. Ég fullyrði að ekkert af þessu virðist ríkisstjórn Íslands bera fyrir brjósti þegar hún leggur fram frumvarp til vatnalaga, ekkert af þeim áhersluatriðum sem samfélag þjóðanna hefur sent út hvatningu um að þjóðir heims aðgæti þegar vatn er annars vegar fær náð fyrir augum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hér skal bara böðlast áfram sem aldrei fyrr og látið í veðri vaka þegar endurnýja á löggjöf okkar um vatn að þá sé eingöngu þess virði að líta til vatnsnýtingar og eignarréttar, punktur, basta. Ekki snefill af tilfinningu fyrir því um hversu gríðarlega verðmæta auðlind er að tefla.

Reyndar kemur í ljós þegar greinargerð með frumvarpinu er lesin gaumgæfilega að í II. kafla hennar er getið um þá þætti sem meðvitað eru undanskildir við samningu frumvarpsins en það eru þeir þættir sem lúta að umhverfisrétti, vatnsveitum sveitarfélaga og holræsum. Í þeim kafla er einnig getið um evrópsku vatnatilskipunina og tekið fram að EFTA-löndin hafi gert kröfu um að einungis hluti hennar verði tekin upp í EES-samninginn.

Það kemur kannski ekki á óvart, hæstv. forseti, hvaða þætti íslenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að undanskilja varðandi innleiðingu tilskipunar um vatnsvernd en það eru einmitt þeir þættir sem lúta að náttúruvernd, dýravernd og auðlindastjórnun. Þeir þættir eru undanskildir hjá EES-ríkjunum, látnir mæta afgangi. Frumvarp um þá þætti er boðað síðar. Það virðist ekki hafa komið til álita að láta frumvarpið sem við fjöllum um hér, vatnanýtingarfrumvarp hæstv. iðnaðarráðherra, bíða eftir verndarfrumvarpinu. Ónei, forgangsröðunin í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur er alveg skýr hvað þetta varðar: Nýtingin skal koma fyrst og verndin svo.

Hver í þessum sal man ekki eftir örlögum rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um vatnsföll og jarðvarma, það plagg sem 70 málsmetandi einstaklingar, fræðimenn, vísindamenn og sérfræðingar unnu fyrir ríkisstjórnina? Það liggur nú í skúffu iðnaðarráðherra og fær að rykfalla þar án þess að eiga von um að fá nokkra formlega stöðu í stjórnsýslunni. Ríkisstjórnin vill hafa öll spil á eigin hendi og helst sem flest á hendi stóriðjuráðherrans.

Ég spyr: Hvernig stendur á því að sjónarmið stjórnvalda varðandi vatnatilskipun ESB er ekki rökstudd að neinu leyti í greinargerð frumvarpsins? Ég krefst þess að hæstv. iðnaðarráðherra svari þeim spurningum sem lagðar verða fyrir hana í umræðunni en sniðgangi þær ekki eins og hún reyndi að gera í umræðunni um frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum þar sem engum spurningum var svarað til fulls í 1. umr. og fylgdu allar málinu í umfjöllun hv. iðnaðarnefndar, því að sjálfsögðu fékk umhverfisnefnd það mál ekki til umfjöllunar frekar en ætlunin er að umhverfisnefnd fái þetta mál til umfjöllunar.

Hæstv. forseti. Ég spyr líka: Hvers vegna eru vatnsvernd og sjónarmið sjálfbærrar þróunar sett skör lægra en nýtingar- og eignarréttarhagsmunir? Hvers vegna býr hæstv. iðnaðarráðherra enn einu sinni svo um hnútana? Ég legg til að hæstv. iðnaðarráðherra geri okkur í þessari umræðu grein fyrir því hverju þetta sætir. Ég vil fá svör við því hvaða skilning hæstv. iðnaðarráðherra leggur í markmiðsgrein frumvarpsins.

Hvað þýðir eftirfarandi setning í 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Hvaða skilning leggur hæstv. iðnaðarráðherra í þessa grein? Hvaða skilning leggur núverandi ríkisstjórn í hugtakið „sjálfbær þróun“? Það er ástæða fyrir því að spyrja núverandi ríkisstjórn þeirrar spurningar vegna þess að hér böðlast ríkisstjórnin um landið með áform um virkjanir þar sem stórvirkjanir eru settar í framkvæmd sem eru ekki sjálfbærar að nokkru leyti, þar sem jökulsár eru virkjaðar með aurugum uppistöðulónum sem fyllast á nokkrum tugum eða hundruðum ára. Þar af leiðandi eru virkjanirnar ekki sjálfbærar. Þó slær núverandi ríkisstjórn ævinlega ryki í augu fólks með því að slá um sig með hugtakinu „sjálfbær þróun“. Hæstv. forseti, hvað á það að þýða? Það er kominn tími til þess að hæstv. iðnaðarráðherra skýri fyrir þjóð og þingi hvaða skilning hún leggur í hugtakið „sjálfbær þróun“ og hvað það hugtak á að þýða í frumvarpinu og hvernig hún ætlar að sjá til þess að því verði framfylgt að hér fari vatnsnýting fram eftir hugmyndafræði sjálfbærrar nýtingar.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að hún er heldur ósannfærandi setningin í II. kafla greinargerðarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp það sem hér er lagt fram á í engu að skarast við væntanlegt frumvarp um stjórn vatnsverndar.“

Ég spyr: Hvernig getum við verið viss um það þar sem ekkert verndarfrumvarp liggur fyrir? Ég spyr og krefst svara frá hæstv. ráðherra hér og nú við 1. umr.: Hvers vegna eru frumvörpin ekki lögð fram á sama tíma svo tryggja megi samræmi og samhljóm þeirra á milli? Skynsemin segir mér að slíkt hefði verið hin eina rétta leið en það er eins og að þegar umhverfisvernd og sjálfbær þróun er annars vegar fái ríkisstjórnin andarteppu og hjartastopp, hún getur ekki með nokkru móti viðurkennt þann sess sem hún þó í orði kveðnu heldur fram að umhverfisrétturinn hafi öðlast.

Í greinargerð frumvarps þessa stendur að taka þurfi mið af Ríó-sáttmálanum — sennilega átt við Ríó-yfirlýsinguna — og samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika er sérstaklega tilgreindur, en hvergi er gerð tilraun til að styðja það með rökum að ákvæði frumvarpsins standist þá samninga. Meðan svo er ekki gert áskil ég mér fullan rétt til að tortryggja ákvæði frumvarpsins að þessu leyti. Þetta atriði er raunar eitt af þeim veigameiri sem ég tel að þurfi að skoða gaumgæfilega í nefndum þingsins og þá ekki bara í iðnaðarnefnd því auðvitað eru þetta þættir sem heyra undir umhverfisnefndina. Það verður ekki hjá því komist að skoða þessa þætti og jafnvel málið í heild sinni í fleiri en einni nefnd.

Ef við horfum á sérstöðu Íslands í hnattrænu samhengi hljótum við öll að vera sammála um að ein dýrmætasta auðlind sem þjóðinni hefur verið falin er fólgin í vatni, hvort sem um er að ræða silfurtærar uppsprettur lindarvatns eða beljandi jökulfljót, óteljandi stöðuvötn full af silungi eða laxveiðiárnar okkar sem fóstra dýrmætan villtan Norður-Atlantshafslaxinn. Árbakkar og mýrarflákar, votlendi og vinjar í hálendiseyðimörkum, þessi er sérstaða Íslands, virðulegi forseti.

Vatnið er eitt af þeim atriðum sem erlendir ferðamenn nefna sem mikilvægan þátt í vinsældum landsins sem ferðamannalands. Gleymum því ekki að ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vex hraðast á Íslandi um þessar mundir. Gleymum því ekki að atvinnuhagsmunir okkar skarast í þessum efnum og hagsmunir hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum eru ekki hinir einu réttu.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég sakna þess sáran að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki vera hjá okkur í þessari umræðu og satt að segja hefði verið fullt tilefni fyrir hæstv. samgönguráðherra að sitja hér líka því að hér eru hagsmunir sem skarast verulega við valdsvið þeirra ráðherra, samgönguráðherra sem sér um ferðamálin og umhverfisráðherra sem sér um umhverfismálin.

Auðvitað er sárgrætilegt að hæstv. umhverfisráðherra virðist vera múlbundin nú þegar, nýtekin við embætti. Í viðtali við Ríkisútvarpið í vikunni klifar hún á þeirri setningu sem hæstv. forsætisráðherra hefur auðvitað kennt henni, Halldór Ásgrímsson, að vernd og nýting geti farið saman. Það er boðskapur hæstv. umhverfisráðherra til þjóðarinnar á þeim tímum sem við nú lifum, að vernd og nýting geti farið saman.

Ég spyr: Hvers vegna er ekki hæstv. umhverfisráðherra hér til þess að fjalla um þessi mál með okkur? Það er full ástæða til þess, hæstv. forseti, að ég biðji um að umhverfisráðherra sé viðstödd og tjái hug sinn um þetta mikilvæga frumvarp.

Já, hæstv. forseti, ábyrgð þeirra sem eiga að annast þessi mál, þessa auðlind okkar er gífurlega mikil. Norðmenn eru fyrir skemmstu búnir að endurnýja vatnalög sín. Ég hef undir höndum plagg frá norska Stórþinginu, sem ber yfirskriftina á norsku því ég hafði ekki tíma til að þýða: Innstilling frå energi- og miljøkomiteen om lov om vassdrag og grunnvann, þ.e. tillaga að lagasetningu sem varðar vatnsföll og grunnvatn, Vannressursloven.

Þessu lagafrumvarpi sem Norðmenn settu í gegnum Stórþingið, að ég held árið 2000, fylgir verulega ítarleg greinargerð sem ég held að full ástæða væri til að skoða mjög gaumgæfilega þegar þetta mál fer inn í nefndir þingsins. Við þurfum að fá ítarlegan samanburð á ætlunarverki hæstv. iðnaðarráðherra hér sem kemur fram í frumvarpi okkar til vatnalaga og þeirri leið sem Norðmenn fóru á sinni tíð.

Eftir því sem ég hef getað kynnt mér það mál sýnist mér að þau lög hafi verið sett að mjög vel yfirlögðu ráði. Norðmenn voru með vatnalögin sín til endurskoðunar í eina þrjá mannsaldra. Þau voru alltaf uppi á borðum þingnefnda, ævinlega til skoðunar áður en nýju lögin voru sett, og megininntak norsku laganna er auðlindastjórnun. Inn í þau er fléttað, að því er mér virðist, mjög mikilvægum þáttum á borð við líffræðilegan fjölbreytileika, sjálfbæra þróun og síðan eitt hugtak sem ég sakna úr okkar frumvarpi og það er landslagsvernd. Norðmenn gera sér auðvitað grein fyrir því á hvern hátt vatn hefur mótað landslagið, og landslagið í Noregi er auðlind, ekki síður en á Íslandi. Vatnið sem hefur mótað landslag okkar hlýtur að kalla á það að landslagið sé nefnt í lögum um vatn.

Hæstv. forseti. Hjá Norðmönnum eru þessir þættir í forgrunni, auðvitað til að hægt sé að tryggja viðunandi meðferð þessara mála, ekki hvað síst þá mengunarvarnir. Norðmenn hafa í lagabálki sínum ákveðinn kafla um mengunarvarnir og þýðingu þess að halda vatninu í Noregi hreinu. Grunnvatnið hefur líka afar mikla þýðingu í lögunum norsku og hið sama má segja um varðveislu menningarminja sem tengjast vatni, þær menningarminjar sem liggja nálægt vötnum og ám.

Eins og ég segi er afar þýðingarmikið í þessu sambandi að ítarlega sé borin saman markmiðssetning íslenskra frumvarpsins og markmiðssetningin í norsku lögunum. Ég sé ekki betur en að þar megi ydda verulega og breyta eða bæta markmiðssetningunni í 1. gr. hjá okkur í okkar frumvarpi.

Aðeins um stjórnsýsluna til viðbótar, ég sé að það er farið að líða á tíma minn og ekki mikið eftir. Mér sýnist að frumvarp þetta sé allt hugsað út frá forsendum nýtingar og ég fullyrði að það er þvert á nýjar hugmyndir manna um vatnsvernd í heiminum. Auðvitað eru vatnalögin orðin gömul, frá 1923, og þarfnast endurskoðunar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum sýnt það í verki með því að a.m.k. einu sinni á síðasta kjörtímabili lagði sú sem hér talar ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fram frumvarp til laga um breytingu á vatnalögunum. Það frumvarp var lagt fram á 127. löggjafarþingi og ég kem til með að vitna frekar í það í síðari ræðu minni þar sem ég sé að tími minn er brátt á þrotum. Auðvitað viðurkenni ég að það er þörf á að endurskoða vatnalögin en þá með tilliti til þeirra atriða sem ég hef talið upp og þá með það í forgrunni hversu mikilvæg auðlind vatnið er í dag.

Hæstv. forseti. Þar sem tími minn er uppurinn tel ég eðlilegt að ég bíði með frekari röksemdafærslu og ávirðingar í þessu máli þar til ég fæ tækifæri til að koma í seinni ræðu.