131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:08]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka undir óskir hv. þm. Marðar Árnasonar. Það er afar óeðlilegt að svo stóru og viðamiklu máli skuli vera nær því laumað á dagskrá með engum fyrirvara. Það kom ekki fram á vikudagskrá, það kom ekki fram á fundum formanna þingflokka með forsetum á mánudag og það var ekki rætt sérstaklega við þingflokksformenn í gær þegar verið var að breyta dagskrá. Það er rétt auðvitað sem við höfum vitað sem kom fram hjá frú forseta að veikindi hjá ráðherrum hafa valdið breytingum á dagskrá. Við höfum verið að fá tilkynningar um breytingar þar sem þetta er ekki tilgreint sérstaklega þannig að það er afar sérstakt að þetta mál skuli vera sett á dagskrá með þessum hætti.

Það er einnig eðlilegt að benda á það að gert er ráð fyrir því að annað frumvarp komi sem mun tengjast þessu máli mjög verulega. Því væri eðlilegt að þau yrðu rædd samhliða. Ég verð því að fara fram á það við virðulegan forseta að ef forseti treystir sér ekki til að fresta umræðunni nú verði a.m.k. gefin yfirlýsing um það að umræðunni verði ekki lokið, að 1. umr. verði ekki lokið. Þó að henni verði eitthvað fram haldið núna verði möguleiki skapaður á því að henni megi halda áfram síðar. Það er t.d. afar óeðlilegt, eins og kom fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar, að hér erum við aðeins tveir úr hv. iðnaðarnefnd staddir í þingsalnum. Það er afar óeðlilegt t.d. að þeirri lágmarkskröfu sé ekki fullnægt að formaður nefndarinnar sé viðstaddur umræðuna. Auðvitað getur formaður verið forfallaður en þá er auðvitað lágmark að einhver annar stjórnarliði sé viðstaddur umræðuna. Við höfum yfirleitt ekki verið mjög frek til þess að óska eftir því að allir stjórnarliðar úr nefndum séu mættir en það er afar fátítt að það sé enginn stjórnarliði úr nefnd þegar svo stórt mál er rætt, og jafnvel þótt smærra væri.

Ég vil ítreka, frú forseti, þá ósk sem fram hefur komið að umræðunni verði frestað. Ef ekki er hægt að verða við því nú þegar verði gefin yfirlýsing um það að umræðunni verði ekki lokið.