131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:14]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég varð ekki var við að þetta mál væri komið á dagskrá fyrr en ég opnaði fyrir sjónvarpið á skrifstofu minni í morgun, kom reyndar seint heim, var á fundi vestur á Snæfellsnesi og gáði ekkert í tölvuna í morgun áður ég lagði af stað né heldur í nótt þegar ég kom heim. Þetta kom mér að óvörum. Auðvitað vissi ég af þessu vatnalagafrumvarpi og hafði reyndar aðeins litið í það en það er með hærra númer en 400 og maður gerði svo sem ráð fyrir því að það yrði látið vita þegar kæmi að umræðunni.

Ég er í iðnaðarnefnd og meðgeng það hér með að ég er ekki tilbúinn með mína ræðu. Ég hef sett mig á mælendaskrá til að segja fáein orð um þetta mál ef í þann harðbakka slær. Ef hæstv. forseti hefur hins vegar tekið þá ákvörðun að fresta umræðunni vil ég náðarsamlegast fara fram á það að fá að geyma ræðu mína þannig að það verði kannski pínulítið meira vit í henni en ef ég héldi hana núna.

Vegna þess tilefnis sem þessi umræða gefur og þess sem sagt var hér af hv. þingmanni sem talaði á undan mér vil ég líka benda hæstv. forseta á það, sem ég hef reyndar oft bent á í sölum Alþingis, að það þarf að gera breytingar á þinghaldinu með þeim hætti að mál verði ekki drepin á hverju vori. Það mundi gjörbreyta möguleikum Alþingis til að afgreiða mál ef þau fengju að lifa hér tvö þing. Þá hefðu nefndirnar tök á því að klára vinnu við mál og þau væru þá tilbúin til framhaldsvinnu á því hausti sem kæmi en nefndir sætu ekki verklausar öll haust vegna þess að það er byrjað upp á nýtt með öll mál og nefndirnar byrja ekki að taka á málunum fyrr en búið er að fara með þau í gegnum 1. umr. í þinginu. Þetta eru sömu málin upp aftur og aftur.

Ef menn gerðu þessa einföldu breytingu á lögum um þingsköp sem gerði það að verkum að mál lifðu tvö þing væri hægt að koma miklu meiru í verk og nefndir þingsins hefðu starfsmöguleika á haustin sem þær hafa ekki. Ég geri ráð fyrir því að allir þingmenn hér hafi upplifað það að fá æðimörg spjöld frá formönnum nefnda þar sem fundarfall hefur orðið þetta haustið.