131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:37]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti hefur ákveðið að hún vilji hlýða á hina verri ræðu mína með því að fallast ekki á að fresta umræðunni með mælendaskrána óbreytta. Sú ræða mun ekki fjalla um efni þessa frumvarps nema að litlu leyti, einfaldlega vegna þess að það þarf ég að skoða betur. Ég tel hins vegar að fleiri en ég eigi að gefa sér lengri tíma til að skoða það.

Lögin sem eru í gildi um þessi efni eru frá 1923. Það vill svo einkennilega til að þegar þau voru sett hefur þeim sem þá voru í þessum sölum tekist alveg sérstaklega vel til sem allir hljóta að sjá af því að á þessi lög hefur sjaldan reynt. Þau hafa sem sagt staðist tímans tönn og það er auðvitað ekki rétt að á þeim hafi ekki verið gerðar breytingar, fjölmargar breytingar hafa orðið á þeim á þessum tíma.

Hitt vil ég endurtaka að ég hef heimildir fyrir því að mjög sjaldan hafi reynt á þessi lög í málatilbúnaði lögmanna og fyrir dómstólum. Þess vegna held ég að menn hafi ágætistíma til að fara vandlega í gegnum þær hugmyndir um breytingar sem hér eru á ferðinni. Ég ætla svo sem ekki fyrir fram að vera með þær skoðanir uppi að ekki megi endurskoða núgildandi lög og að ýmislegt í frumvarpinu geti ekki verið skynsamlegt. Ég er alveg til í að skoða það allt saman.

Mér finnst menn stofna til þessarar umræðu með meiri hraða en ástæða er til. Ég tel að bæði þetta frumvarp og önnur sem hafa orðið til í tengslum við þá vinnu sem ráðherra iðnaðarmála og fleiri ráðherrar hafa staðið fyrir um breytingar á bæði þessum lögum og öðrum séu það stór mál að langur tími eigi að fara í að skoða þau. Ég held að úr því sem komið er sé í sjálfu sér ekkert athugavert við að menn klári þessa umræðu, þegar þingmönnum hefur gefist ráðrúm til að undirbúa sig fyrir hana, og að málið fari til nefndar og umsagna, eins og gert hefur verið með lögin um jarðrænar auðlindir. En ég hef þann stóra fyrirvara við þetta allt saman að menn taki sér þann tíma sem þarf.

Hér er ekki verið að fara í eitthvert smáverkefni. Hér eru á ferðinni gríðarlega miklir hagsmunir fólks í landinu, almennings, fyrirtækjanna, ríkisins, og það er ekki sama hvernig menn skipa þessum málum til framtíðar. Hér á að fara að hrófla við fornum hefðum, afstöðu manna til eignarréttar af ýmsu tagi í gegnum langa tíð. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að fara með einhverjum ofsa eða hraða í slíkar breytingar. Engar ástæður til slíks eru sjáanlegar hvað varðar þessi vatnalög þannig að uppi séu stór vandamál. Stór vandamál sem varða eignarrétt og nýtingarrétt í landinu birtast ævinlega í málatilbúnaði fyrir dómstólum og þar geta menn séð hvort mikil vandamál eru á ferðinni í einstökum greinum. Þó svo að hægt sé að finna í þessum vatnalögum ýmislegt sem virðist ekki eiga beint við í dag, samkvæmt orðanna hljóðan o.s.frv., ætti það ekki að gera það að verkum að menn þurfi að flýta sér um of í endurskoðun laganna.

Við ræddum frumvarpið um jarðrænar auðlindir fyrir áramótin og það mál er komið í farveg til vinnslu í iðnaðarnefndinni. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að hluti af þessari umræðu hljóti að vera hverjir eigi að fara með forræðið í þessum málum öllum saman. Ég tek undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Merði Árnasyni, að það er ekki sjálfsagt mál að ráðherra iðnaðarmála fari með þau mál sem hér eru á ferðinni. Ég held að taka ætti það til mjög gaumgæfilegrar skoðunar hvar sá málaflokkur eigi að liggja.

Ráðherra iðnaðar og viðskipta hefur — kannski að sumu leyti af eðlilegum ástæðum — talið sig vera ráðherra atvinnumála og viðskiptanna í landinu en ekki umhverfisins eða þess að þess sé vandlega gætt hvað við skiljum eftir handa afkomendum okkar í framtíðinni af þeim verðmætum sem landið hefur upp á að bjóða. Það er og ætti auðvitað að vera mál númer eitt hvað varðar málefni eins og vatn og meðferð þess. Þar með er ég ekki að gera lítið úr þeim hagsmunum sem tengjast nýtingu vatns og vatnsréttinda en ég er hins vegar á þeirri skoðun að menn megi ekki verða of uppteknir af því hlutverki að hugsa um hagsmuni fyrirtækja og nýtingarréttinn sjálfan.

Svo ætla ég að endurtaka það að breytingar á nýtingarrétti og réttindum manna, samfélagsins og fyrirtækjanna, er gríðarlega vandmeðfarið mál og hefur, eins og menn þekkja, vakið meiri deilur með þjóðinni en dæmi eru til um varðandi önnur málefni í þessu landi og þá vísa ég til nýtingarréttar á auðæfunum í hafinu.

Sú ríkisstjórn sem núna situr hefur sýnt sig í því að vilja hrófla mikið við eignarrétti og nýtingarrétti og allt út frá þeirri sömu skoðun að eignarréttur og nýtingarréttur eigi að vera einkaeign fyrirtækja eða einstaklinga en ekki almennings. Hún hefur umgengist jafnvel sín eigin lög með fullkominni fyrirlitningu. Þá vísa ég til 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Ég vísa líka til þeirra laga sem voru sett um samningsveð í sölum Alþingis og verða Alþingi ævinlega til skammar og ætti aldrei að gleymast þeim sem hér ganga um sali að lesa þau vandlega yfir. Ég beini því til nýrra og ungra þingmanna að kynna sér þau lög, þá dellu sem þar var samþykkt.

Þetta var kannski svolítill útúrdúr vegna þess að mér hefur illa líkað hvernig sú ríkisstjórn sem nú situr hefur gengið fram í efnum af þessu tagi. Alltaf skal maður þó halda í von og allir skulu hafa rétt til að bæta sitt ráð. Ríkisstjórnin sem nú situr og hefur sett það í sinn stjórnarsáttmála að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni í hafinu verði til framtíðar og að sá eignarréttur verði settur í stjórnarskrá. Ég ætla að trúa því þangað til ég tek á öðru að það verði alvöru eignarréttur, sameiginlegur eignarréttur, en ekki bara í plati eins og í lögunum um samningsveð sem þessi ríkisstjórn stóð fyrir að setja. Það verður fróðlegt að sjá hvernig menn ætla að ganga frá því máli.

Undirliggjandi í þessum málum öllum er það að ríkisstjórnarflokkarnir vilja breyta eignarrétti hvað varðar auðlindir. Það hefur komið fram bæði í þessu frumvarpi og líka í frumvarpinu um jarðrænar auðlindir sem ég nefndi áðan.

Hæstv. forseti. Ég tel að það hefði verið betra að þingmenn hefðu fengið að vita af því fyrr en raun bar vitni að þessi umræða ætti að fara fram. Ég hefði að minnsta kosti þurft á því að halda til að geta farið ofan í einstakar greinar og til að spyrja hæstv. ráðherra um meiningarnar sem eru á bak við einstakar niðurstöður hér. En auðvitað átta þingmenn sig á aðalatriðinu sem er hér á ferðinni sem er sú breyting að eignarrétturinn verði gerður sterkari hjá einstaklingum og fyrirtækjum á kostnað sameiginlegs eignarréttar á þessum auðlindum.

Ég er alveg sannfærður um að fjölmargt þarf að skoða hér mjög vandlega en endurtek að lokum, því ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri, að til þess er nægur tími. Ég minni á færeyska máltækið að það kemur alltaf meiri tími.