131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:50]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið ákveðið að fresta þessari umræðu þannig að ég ætla ekki að lengja hana í sjálfu sér. En ég ætla að koma með smávegis viðbrögð við því sem hér kom fram hjá hv. þingmanni. Þegar hann talar um að ríkisstjórnin leggi mikla áherslu á að einkarétturinn skuli í hávegum hafður þá vil ég minna á þjóðlendumálin þar sem ríkisstjórninni er legið á hálsi fyrir að virða ekki eignarréttinn. Hún hefur þar átt í deilum við bændur út af því máli og ekki síst á Suðurlandi. Þar talar Samfylkingin allt öðrum rómi en á hv. Alþingi. Samfylkingin á Suðurlandi og varaformaður Samfylkingarinnar standa 100% með bændum í þeim deilum sem bændur á Suðurlandi hafa átt við ríkisvaldið. Sá tónn sem hér heyrist sannfærir mig því um að í þessu máli eins og flestöllum öðrum er Samfylkingin með tvær skoðanir. Nú talar gamla Alþýðubandalagið á hv. Alþingi um það að ríkisstjórnin sé að leggja of mikla áherslu á einkaréttinn. Svo er annað upp á teningum í hinu tilfellinu eins og ég fór yfir áðan þannig að ég veit aldrei á hverju ég á von þegar ég kem fram á Alþingi með mín mál og þetta var uppi núna.

Talað er um að þetta mál ætti að vera umhverfismál og að umhverfisráðherra ætti að flytja það og það ætti að heyra undir stofnanir umhverfisráðuneytisins. Þetta frumvarp snýr ekki að þeim lögum sem eru t.d. náttúruverndarlög og lúta að umhverfisvernd. Þetta eru lög sem varða vatnsnýtingu í landinu og hv. þingmaður sagði áðan að hann væri ekki á móti nýtingu. Við eigum gnægð vatns og getum verið ákaflega stolt og þakklát fyrir það. En við viljum nýta það og mér virðist hv. þingmaður í lok ræðu sinnar vera mér sammála um það.