131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[11:54]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég er að leita eftir er hvort hv. þingmaður og Samfylkingin aðhyllast þjóðnýtingarstefnu eða ekki. Miðað við ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar heyrist mér að svo sé, að það (Gripið fram í.) sé þjóðnýtingin sem er uppi (MÁ: Á hvaða ...) en hins vegar styðji þeir ekki einkaréttinn. Mér finnst bara mjög mikilvægt að fá úr þessu skorið (Gripið fram í.) nú á dögum þegar við erum að færa okkur til meira frjálsræðis eins og aðrar þjóðir Evrópu, að þá sé enn þá uppi þessi þjóðnýtingarstefna hjá Samfylkingunni.

Þetta frumvarp er fyrst og fremst formbreyting eins og ég talaði um áðan. Það er verið að færa frumvarpið, lögin, frá því að hafa jákvæða nálgun yfir í það að hafa þessa neikvæðu nálgun. Hér er því fyrst og fremst um formbreytingu að ræða og ef Samfylkingin ætlar að vera á móti þessu máli á þeim grundvelli að skilgreiningin sé þessi þá finnst mér það mjög athyglisvert. Ég held að það sé eftirtektarvert fyrir þjóðina að átta sig á því að þessi mikli nútímaflokkur er enn þá í þjóðnýtingarstefnunni.