131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:31]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að það færist nú ört í vöxt að erlendar starfsmannaleigur bjóði vinnuafl á kjörum sem eru undir því sem við Íslendingar teljum boðlegt. Þannig hefur Morgunblaðið upplýst að hér á landi sé nú nægilegt framboð af ódýru og ólöglegu vinnuafli. Það kemur líka fram í úttekt blaðsins að það séu sjaldnast greiddir skattar eða launatengd gjöld af slíku vinnuafli. Það búi líka við verulega skert öryggi og fái t.d. ekki það sem við teljum sjálfsagt eins og veikindarétt. Ástæðan að mínu mati er ekki síst sú að íslensk stjórnvöld hafa sofið á verðinum. Þau hafa ekki sinnt ítrekuðum kröfum stjórnarandstöðu og verkalýðshreyfingar um að setja lög og reglur um starfsmannaleigur. Þau hafa ekki tryggt með raunhæfum hætti að hægt sé að beita fyrirtæki nægilega ströngum viðurlögum ef þau brjóta lögin, kjarasamninga, eða það sem færist líka í vöxt virða ekki starfsréttindi. Stjórnvöld hafa heldur ekki tryggt að lögum um iðnréttindi sé framfylgt við Kárahnjúka þar sem ófaglærðir starfsmenn ganga í störf iðnaðarmanna svo hundruðum hefur skipt á síðustu árum og missirum. Síðast en ekki síst er ekki enn búið að tryggja að skattskylda sé hér á landi, þ.e. að skattar séu greiddir á Íslandi þegar starfsmenn koma hingað í gegnum erlendar starfsmannaleigur.

Það eru þessi lausatök sem hafa skapað aðstæðurnar sem eru orðnar að gróðrarstíu fyrir ófyrirleitnar starfsmannaleigur og nú einskorðast félagsleg undirboð ekki lengur við verktakabransann heldur hafa þau sáð sér eins og samfélagslegur sjúkdómur út í atvinnulífið alveg eins og við í stjórnarandstöðunni vöruðum við að mundi gerast ef stjórnvöld gripu ekki strax í taumana við Kárahnjúka. En á meðan þetta gerist heyrist varla bofs frá stjórnvöldum. Hæstv. ráðherra sefur værum svefni Þyrnirósar og hann virðist ekki hafa hugmynd um hvað er í gangi. Og meðan ráðherrann sefur gagnrýna ábyrgir forustumenn eins og formaður Samiðnar stjórnvöld harkalega fyrir slælegt eftirlit með ólögmætu vinnuafli og meðan ráðherrann sefur upplýsir Morgunblaðið um það að heilar íbúðablokkir séu byggðar með vinnuafli af þessu tagi, og meðan ráðherrann sefur eru ófyrirleitnir verktakar að greiða allt niður í 400 kr. á tímann sem er einungis fimmtungur af eðlilegum kostnaði. Undirboð af þessu tagi valda ferns konar miska fyrir samfélagið og einstaklingana. Þau fela í sér brot á mannréttindum og misnotkun á erlendu verkafólki sem vegna félagslegra aðstæðna verður að sætta sig við kjör sem við Íslendingar mundum aldrei fallast á fyrir okkur sjálf. Og þau rýra samkeppnishæfi innlends verkafólks sem getur að lokum leitt til lægri launa og skerðingar á félagslegum réttindum. Þau rýra líka samkeppnishæfi þeirra fyrirtækja sem hvorki vilja af siðferðilegum ástæðum né geta notað svona aðferðir. Að lokum leiðir þetta til þess að samfélagið tapar í vaxandi mæli skatttekjum og getur ekki staðið undir því velferðarkerfi sem við höfum saman byggt upp. Þetta, virðulegi forseti, eru ástæðurnar fyrir því að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll verður að vakna, verður að taka höndum saman með okkur hinum öllum til þess að sporna við og vinda ofan af þessari þróun. Hún grefur nefnilega undan þeirri samfélagsgerð sem við höfum byggt og er undirstaða hins rómaða velferðarkerfis okkar hér á landi.

Herra forseti. Félagsleg undirboð á vinnumarkaði gerast einkum með þrenns konar hætti. Í fyrsta lagi gegnum erlendar starfsmannaleigur sem verktakinn greiðir þá fastar greiðslur en hefur hins vegar engar sérstakar skyldur gagnvart starfsmanninum sem er oft meira og minna réttlaus og greiðslurnar fyrir vinnuafl hans undir raunverulegum kostnaði.

Í öðru lagi koma starfsmenn án atvinnuleyfis inn á markaðinn en í gegnum umboðsaðila hér á landi, íslenska eða erlenda. Þeir greiða oft enga skatta, njóta engra réttinda, búa oft við ákaflega erfið og þröng kjör, jafnvel í gámum eða fokheldu húsnæði eins og við höfum séð fréttir um nýlega.

Í þriðja lagi færist svo í vöxt að fyrirtæki, sér í lagi fyrirtæki í byggingariðnaði, flytji inn fólk í skjóli þjónustusamninga sem eru á kjörum sem eru óboðleg. Félagslegu undirboðin eru ekki heldur lengur bundin við stóra verktaka í byggingariðnaði. Þau eru að færast í vöxt í öðrum greinum eins og landbúnaði, málmiðnaði og þjónustugreinum. Það sem menn komast upp með við Kárahnjúka taka menn upp annars staðar ef þeir geta grætt á því og ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hvað hyggst hann gera til þess að vinda ofan af þessari uggvænlegu þróun og vernda í senn erlent og innlent vinnuafl og líka okkar ágætu fyrirtæki gegn þessum félagslegu undirboðum?