131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:36]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að það er áhyggjuefni ef það reynist rétt að starfandi útlendingum hér á landi séu ekki greidd laun í samræmi við kjarasamninga. Ég ætla ekki að endurtaka ræðu mína frá því í október sl. þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beindi til mín fyrirspurn um sama efni. Ég vil engu að síður ítreka að það er enginn vafi í mínum huga að lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, eiga að tryggja að kjarasamningar sem samtök aðila vinnumarkaðarins hafa gert gildi sem lágmarkskjör fyrir launamenn hér á landi. Þetta ákvæði gildir óháð þjóðerni manna.

Einnig er ég þeirrar skoðunar að við eigum að virða það vinnumarkaðskerfi sem við höfum verið að byggja upp á síðustu áratugum í náinni samvinnu stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þannig má segja að kerfið okkar grundvallist á samningum milli aðilanna sjálfra.

Það hefur lengi verið sátt um það að samtök aðila vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði. Hið sama hefur gilt um eftirlit með að kjarasamningar skuli haldnir. Hefur þetta ekki síst þótt eðlilegt í ljósi þess að um frjálsa samninga er að ræða milli aðila.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir þá sátt sem ríkt hefur um kerfið fram til þessa er það ekki nýtt að menn hafi tekist á um túlkun kjarasamninga. Lögð hefur verið áhersla á að aðilar komi sér upp samráðsnefndum á grundvelli kjarasamninga til lausnar deilum sínum með friðsamlegum hætti. Það kerfi var styrkt í sessi hér í þessum þingsal fyrir fáeinum vikum þegar þingið samþykkti lög nr. 145/2004 er fólu í sér breytingu á fyrrnefndum lögum nr. 55/1980. Þar var samningum aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, m.a. vegna starfskjara erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði, fengið sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör hafa.

Í tilvikum þegar menn eru ófáanlegir að samningaborðinu eða lausn ekki í sjónmáli er heimilt að stefna aðilum fyrir félagsdóm. Um starfsemi hans gilda lög frá árinu 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en hlutverk hans er m.a. að dæma í málum sem rísa út af ákærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Komist félagsdómur að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum kjarasamnings er heimilt að knýja samningsaðila til efnda með vinnustöðvun hvort sem kjarasamningur er í gildi eður ei, sbr. 17. gr. laganna frá 1938. Er þarna um að ræða undanþágu frá friðarskyldu aðila á vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Ég spyr: Vilja menn varpa þessu kerfi fyrir róða vegna grunsemda um ætluð brot einstakra fyrirtækja á starfsmönnum sínum? Er ekki ráð að láta reyna á málin til þrautar innan þess kerfis sem við þegar höfum? Það að ætla að koma á opinberu eftirliti með launakjörum eins og ég hef sífellt oftar heyrt nefnt í umræðunni þýðir líka, hæstv. forseti, að opinberir eftirlitsmenn fari að túlka kjarasamninga í störfum sínum. Ég leyfi mér að stórefast um að það sé það sem menn vilji.

Með þessum orðum mínum er ég ekki að segja að ekkert þurfi að aðhafast. Alþýðusambandið afhenti mér á dögunum greinargerð sína er fjallaði m.a. um veitingu atvinnuleyfa til þriðja ríkis borgara. Ég tók málið alvarlega að sjálfsögðu og það var rætt í ríkisstjórn. Ljóst var að nokkur álitamál voru uppi í framkvæmdinni og voru menn sammála um að finna þyrfti raunhæfa lausn á tilteknum atriðum varðandi útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa. Kynnti ég fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins afrakstur þeirrar vinnu á þriðjudag eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.

Hæstv. forseti. Starfshópur er hefur það hlutverk að fjalla um stöðu starfsmannaleigna á innlendum vinnumarkaði er enn að störfum enda viðfangsefnið umfangsmikið. Hefur hópurinn m.a. litið til framkvæmda annarra Evrópuríkja í þessu efni og hefur hann undir höndum þau svör er ég fékk við fyrirspurn minni til samstarfsráðherra minna á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins um þetta efni.

Ég hef sömuleiðis haft frumkvæði að því bæði á vettvangi evrópskra ráðherra sem um þessi mál fjalla og á vettvangi Norðurlandasamstarfsins að málefni starfsmannaleigna og félagslegra undirboða verði tekin til umfjöllunar. Þar á meðal ræddi ég þessi mál sérstaklega við hollenska vinnumálaráðherrann er Holland var í formennsku Evrópusambandsins á síðasta ári.

Ég get jafnframt upplýst um það að þessi mál eru þegar á borði einstakra nefnda innan Norðurlandasamstarfsins. Meðal annars er að finna verkefni innan nýrrar norrænnar samstarfsáætlunar á sviði vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismála sem ætlað er að fjalla sérstaklega um mismunun á vinnumarkaði og félagsleg undirboð sem og ný ráðningarform, þar á meðal vandamál er tengjast vinnumiðlunum. Þessi samstarfsáætlun tekur til áranna 2005–2008.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef margoft sagt legg ég á það áherslu að viðhalda því vinnumarkaðskerfi sem við þekkjum svo vel. Ég trúi því að þetta kerfi sé ekki úrelt enda þótt einhverjir vaxtarverkir geti að sjálfsögðu fylgt þeirri alþjóðavæðingu sem á sér stað. Þess vegna mæli ég með því að menn stígi varlega til jarðar í fullyrðingum sínum og velti betur fyrir sér því kerfi sem við þegar höfum þróað. Ég fagna því tækifæri sem hér gefst til að fara enn og aftur yfir þessi mál og hvet til þess að fram fari málefnalegar umræður um hvaða leiðir eru færar til að aðlaga okkar kerfi að því breytta umhverfi sem við erum vitni að. Ég er hins vegar ekki tilbúinn til að mæla því bót að því kerfi verði kollvarpað sem reynst hefur okkur ágætlega gegnum tíðina án þess að fyrst sé á það reynt til þrautar.