131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði.

[13:52]

Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Með þessari utandagskrárumræðu er vakin athygli á mjög mikilvægu máli og tímabært að færa umræðuna um félagsleg undirboð inn á hv. Alþingi. Félagsleg undirboð hafa þekkst hér á landi en aldrei í þeim mæli að verkalýðshreyfingin hafi ekki haft nokkuð gott yfirlit yfir umfang þeirra og tök á að taka fyrir slíkt athæfi.

Með virkjanaframkvæmdunum við Kárahnjúka og þeirri ákvörðun Landsvirkjunar að taka tilboði Impregilo sem byggðist m.a. á undirboði á launaþætti framkvæmdanna var stigið óheillavænlegt spor í þá átt að halda niðri launatöxtum og koma á óheyrilega löngum vöktum og ómanneskjulegu úthaldi á reginfjöllum. Á þetta var þegar bent og gagnrýnt harðlega að slíku tilboði skyldi vera tekið.

Launakjör og félagsleg réttindi flestra starfsmanna Impregilo svo og framkoma forsvarsmanna þess fyrirtækis við starfsmenn og trúnaðarmenn verkalýðshreyfingarinnar er óásættanleg og það sama má segja um talsmenn ríkisstjórnarinnar í þessu stóra máli. Með því að vísa öllum deilumálum um laun og kjör milli verktaka og trúnaðarmanna verkalýðsfélaganna yfir á verkalýðshreyfinguna er öðrum verktökum gefinn tónninn: Hið opinbera mun ekki skipta sér af kjarasamningum, ekki heldur aðstoða við að upplýsa launakjör erlendra starfsmanna, sjá takmarkað um aðbúnað og starfsréttindi og sveitarfélögin munu alfarið þurfa að sjá um sína lögbundnu þjónustu án frekari stuðnings frá hinu opinbera í svo stóru máli sem þetta er á íslenskan mælikvarða. Þar fyrir utan er þjónusta hins opinbera og eftirlit, svo sem á hollustháttum, löggæslu og heilbrigðisþjónustu í engu samræmi við umfang framkvæmdanna.

Hvaða skilaboð eru þetta út á vinnumarkaðinn? Jú, verktökum er heimilt að stunda félagsleg undirboð, ráða hingað til lands erlenda verkamenn og helst frá þeim hluta heims sem býður fram verkafólk á mjög lágum launum. Opnað hefur verið fyrir félagslegt undirboð hjá (Forseti hringir.) starfsmannaleigum og er það þegar farið af stað.