131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[14:35]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú raforkumál í ljósi þeirra miklu skipulagsbreytinga sem hafa tekið gildi og við sjáum auðvitað afleiðingar þeirra á margan hátt. Það er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hver staða þessara mála er almennt, en auðvitað hljótum við í ljósi stöðunnar núna fyrst og fremst að fjalla um þau áhrif sem þegar eru komin fram og hafa verið að birtast okkur í ýmsum efnum, sérstaklega varðandi húshitunarmálið. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur aðeins á stöðu þess máls, ástæðurnar fyrir því að hún er eins og raun ber vitni. Ég vil byrja á að þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir ágætis og greinargóða yfirferð um þessi mál, því það er ljóst að þær breytingar sem voru samþykktar á Alþingi og við fjölluðum um á síðasta þingi eru gríðarlega miklar og augljóst að þær koma til með að hafa heilmikil áhrif.

Eins og hæstv. ráðherra rakti var til staðar í orkukerfi okkar heilmikil innri niðurgreiðsla og tilfærslur sem áttu sér stað á milli einstakra orkunotenda sem núna er verið að hverfa frá. Í fyrsta lagi vorum við með ýmsum hætti að reyna að stuðla að því að húshitunarkostnaðurinn lækkaði og það var pólitískt markmið sem menn unnu að, bæði á Alþingi og eins á umræddum vettvangi. Það er ljóst að heilmikil tilfærsla var frá fyrirtækjunum til heimilanna og að tilfærsla var frá þéttbýli til dreifbýlis. Þannig var verið að reyna að létta undir og draga úr kostnaði í dreifbýli.

Enn fremur er ljóst að tilfærsla var innan fyrirtækjanna, innan raforkukerfisins frá almennum notendum til einstakra atvinnugreina. Það er því augljóst að þegar þetta allt saman hverfur út og þegar lagaumhverfið kallar á það að þessir hlutir skuli vera uppi á borðinu og vilji menn fara í einhverjar niðurgreiðslur þurfi þær að vera gagnsæjar þá gefur það auðvitað augaleið að það hefur heilmiklar afleiðingar. Hluti af þeim afleiðingum er núna að koma í ljós. Þetta hefur haft þau áhrif að við sjáum lækkanir í einstökum tilvikum eins og varðandi fiskvinnslufyrirtæki, einstök fyrirtæki. Mér er sagt iðnfyrirtæki, verslanir, svo dæmi sé tekið. Auðvitað er ástæða til að fagna því. En það sem hins vegar stendur upp úr og er alvara málsins og er tilefni þess að við ræðum þessi mál hér, er áhrifin á húshitunarkostnaðinum úti um landsins byggðir.

Það er ekki að undra að við fjöllum um þessi mál. Ef eitthvert mál hefur tekið tíma okkar í byggðarlegri umræðu á undanförnum árum, þá er það húshitunarmálið. Alveg frá árinu 1991 hefur verið unnið mjög skipulega að því að reyna að lækka húshitunarkostnaðinn í landinu. Þetta hefur tekist á margan hátt mjög vel. Árangur okkar er heilmikill. Við sjáum það á þeirri pólitísku umræðu sem verið hefur um þessi mál í gegnum tíðina, hún fer núna fram með allt öðrum hætti en áður. Það er vegna þess að þetta mál hefur ekki brunnið eins heitt á mönnum og það gerði áður af því að við höfum sem betur fer verið að ná árangri. Um það hefur verið ágætissátt. Það hefur verið prýðileg sátt um að reyna að lækka húshitunarkostnaðinn þar sem hann hefur verið hæstur fyrir. Sem betur fer hefur heilmikið náðst í þeim efnum. Þetta skiptir miklu máli, einfaldlega vegna þess að við vitum að víða í strjálbýlinu, víða úti á landsbyggðinni hefur húshitunarkostnaður sem hlutfall af heildarútgjöldum heimilanna verið mjög mikill. Þess vegna hefur það skipt miklu máli fyrir lífskjör fólks á landsbyggðinni að við höfum verið að lækka húshitunarkostnaðinn. Það er því ekki að undra að margir hafi hrokkið við, bæði við þingmenn og margir aðrir, þegar fréttir bárust núna eftir áramótin af hækkun og orkufyrirtækin birtu gjaldskrár sínar og í ljós kom allt að 45% hækkun, eins og t.d. í dreifbýli víða úti um land. Þetta er auðvitað ástand sem allir sjá að við getum ekki unað við. Við hljótum að reyna að bregðast við því með ýmsum hætti.

Virðulegi forseti. Menn segja: Þið áttuð að sjá þetta fyrir. Það er auðvitað enginn vandi að vera vitur eftir á og segja eitthvað slíkt. Ég lýsti og rakti áðan í máli mínu hvernig þessi mál voru hérna áður fyrr. Við vorum að breyta lögunum, við vorum að breyta skipulagi. Auðvitað sáu menn ekki alla skapaða hluti fyrir. Nú hins vegar stöndum við frammi fyrir pólitísku verkefni. Ef það er hin pólitíska niðurstaða að við viljum lækka húshitunarkostnaðinn á landsbyggðinni, eins og við höfum verið að vinna að undanfarin ár, þá er það auðvitað pólitískt verkefni dagsins í dag að snúa okkur að því. Það sem hæstv. iðnaðarráðherra var hér að kunngera, lýsti yfir, áréttaði og undirstrikaði, var að það væri pólitískur vilji til þess að snúa þessari óheillaþróun sem glitti í fyrri hluta þessa mánaðar með tillögunum og tilkynningunum um húshitunarkostnaðarhækkanirnar, að snúa þessari þróun við.

Ég hef ekki haft aðstæður til þess að fara nákvæmlega ofan í þessar tölur, enda sagði hæstv. ráðherra að hér væri um að ræða hugmyndir sem enn væri verið að ræða og útfæra nokkru betur. En eins og ég las í það sem hér sagði virtist mér að a.m.k. í veigamiklum atriðum væri búið að snúa til baka með þeim aðgerðum sem hæstv. ráðherra lagði til, að búið væri að snúa til baka þessum miklu kostnaðarhækkunum, útgjaldahækkunum, sem húshitunarkostnaðurinn hefði ella verið fyrir fólkið í landinu.

Ég vil hins vegar segja að við verðum í þessu sambandi sérstaklega að skoða þá hugmynd sem hæstv. ráðherra impraði á, sem var að lækka hið svokallaða þak í niðurgreiðslunum. Það er atriði sem við verðum að hafa aðstöðu til að fara aðeins ofan í, því það er mjög viðkvæmt mál, við gerum okkur grein fyrir því. Þegar við höfum í gegnum tíðina reynt að lækka húshitunarkostnaðinn höfum við m.a. verið að gera það á þann hátt að hækka þakið, þakið var í 30 þús. kílóvattstundum eða þar um bil, eitthvað aðeins meira minnir mig. Við fórum með það upp í 40 og síðan upp í 50 kílóvattstundir. Það hafði þau áhrif að stærri húsin á landsbyggðinni fóru að njóta niðurgreiðslnanna. Við þurfum að skoða þessa hluti í samhengi, þannig að það sé alveg ljóst mál að ekki sé einhver dulinn, óvæntur kostnaður sem skyndilega skýtur upp kollinum sem við ekki sjáum fyrir. Þetta er hluti af því pólitíska verkefni sem við einfaldlega höfum.

Mér finnst ekki að menn eigi að rjúka upp til handa og fóta og segja himinn og jörð séu að farast þegar svona mál koma upp. Við eigum fyrst og fremst að segja: Við ætlum að taka á þessum efnum vegna þess að það er vilji okkar til að gera það. Mér hefur heyrst svona í meginatriðum að ágætissátt væri um húshitunarmál hér í þinginu þegar fram hafa liðið stundir. Auðvitað var þetta gríðarlega hörð barátta sem menn háðu fyrir því að reyna að lækka húshitunarkostnaðinn, það þekkjum við. Það kostar heilmikið að tosa út úr ríkissjóði 900 millj. kr. til að lækka húshitunarkostnað. Hæstv. ráðherra greindi frá því, sem við þekkjum náttúrlega öll úr fjárlögunum sem við samþykktum fyrir jólin, að það er sú tala sem notuð er til þessara niðurgreiðsluþátta. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir að það verður ekki baráttulaust að ná þessum fjármunum til þess arna.

Þess vegna er það mikið fagnaðarefni ef það gerist nú líka til viðbótar því sem hæstv. ráðherra sagði að lagðar verði til tillögur um breytingar sem geri það að verkum að við fáum frekara fjármagn til að lækka þennan húshitunarkostnað því við megum einfaldlega ekkert við því að hann hækki frá því sem núna er.

Virðulegi forseti. Þegar kerfisbreytingar af þessu tagi hafa átt sér stað hefur sitt sýnst hverjum og það er eins og gengur í þessum efnum. Það er hins vegar niðurstaðan að verið er að hverfa frá, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þessum miklu millifærslum sem ríktu innan kerfisins. Hæstv. ráðherra taldi hins vegar að það væri til svigrúm í þessum efnum innan kerfisins. Ég kann auðvitað ekki skil á því og það er sjálfsagður hlutur að menn fari ofan í það. Það er líka eðlilegt, eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Jóhann Ársælsson, og hæstv. ráðherra sögðu hér áðan að það hlýtur auðvitað að gerast í tímans ráð þegar menn fara að slípa þetta kerfi og menn fara að vinna innan þess, þá fara auðvitað notendur að gera kröfur um tiltekna gjaldskrá. Það er auðvitað ljóst mál að hinn stóri kaupendahópur, hópurinn sem kaupir rafmagn til húshitunar hlýtur að koma fram núna með auknum krafti gagnvart orkuseljendunum og æskja þess að fá sanngjarnari taxta. Það er ekki óeðlilegt að það gerist. Þannig virkar samkeppnisumhverfið. Við höfum verið að telja okkur trú um að við höfum verið að reyna að leggja drög að einhvers konar samkeppnisumhverfi í þessum efnum. Það auðvitað á eftir að koma á daginn hvort það virkar eður ei.

Aðalatriðið finnst mér þó vera það á þessari stundu að við erum núna í þeirri stöðu að vera með nýja löggjöf. Við höfum verið að hverfa frá gríðarlega miklum millifærslum sem eru innan kerfisins. Það hefur síðan þær afleiðingar að þegar orkufyrirtækin, orkuseljendurnir, eru að birta gjaldskrár sínar, þá birtist það okkur sem erum að kaupa rafmagn til húshitunar í því að það hækkar um 10–12% í þéttbýli, eins og til að mynda á Vestfjörðum þar sem ég þekki til og borga húshitunarreikninga og upp í 45% eins og er í dreifbýlinu. Það sjá allir, virðulegi forseti, að þetta gengur ekki. Það sjá auðvitað allir, virðulegi forseti, að við getum ekki samþykkt það. Við hljótum að bregðast við þessum hrikalegu staðreyndum og skelfilegu hækkunum. Við látum auðvitað ekki þessa holskeflu ríða yfir okkur. Það var það sem hæstv. ráðherra boðaði okkur hérna áðan að það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar, ásetningur ríkisstjórnarinnar að reyna að bregðast við þessu og reyna að snúa þeirri þróun við þannig að við fáum ekki yfir okkur þessar miklu hækkanir sem eru alveg úr takti við aðrar verðhækkanir í landinu. Við erum að tala um 2% verðbólgu eða þar um bil á þessu ári.

Það gefur augaleið að menn geta ekki látið það yfir sig ganga að fá 45% verðhækkanir, jafnvel á svæðum þar sem tekjurnar eru lægstar. Ég fagna þess vegna yfirlýsingu hæstv. ráðherra og trúi því, virðulegi forseti, að við munum leysa hið pólitíska verkefni okkar að komast til botns í þessu þannig að við þurfum ekki að búa við þennan kalda veruleika til framtíðar. Mér heyrast yfirlýsingar ráðherra gefa okkur fullt tilefni til bjartsýni í þeim efnum.