131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[14:45]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér raforkumál. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði við höfum alltaf litið svo á að raforkukerfi landsins væri hluti af sameiginlegri almannaþjónustu landsmanna, að starfsemin snerist um að veita almenningi og venjulegu atvinnulífi sem besta þjónustu fyrir sem lægst verð án þess að hagkvæmnin verði á kostnað umhverfisins eða náttúruverðmæta. Það er okkar sýn á raforkumálin í heild og við höfum lagt á það áherslu í þessu sambandi, rétt eins og með aðra almannaþjónustu, að allir landsmenn búi við sem jafnastar aðstæður í þessum efnum.

Orkuauðlindin er sameign okkar allra en það hefur vissulega ekki verið raunin. Í raforkukerfi okkar hefur verið ein risavaxin skekkja um áratuga skeið. Hún hefur farið vaxandi og virðist stefna stjórnvalda að auka hana sem mest þau mega í fyrirsjáanlegri framtíð. Þessi risavaxna skekkja liggur sem kunnugt er í því að langstærstur hluti allrar raforku sem framleidd er í landinu er bundinn í málmbræðslu til langs tíma á útsöluverði. Þess vegna hafa allir almennir raforkunotendur, heimilin og venjuleg atvinnustarfsemi, þurft að niðurgreiða orkusölu til stóriðjuvera og mega raunar búast við að verða kyrrsettir í því hlutverki um langa framtíð.

Næsta afrek hæstv. ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þessum efnum eru svo auðvitað lögin um gjaldskrár og tekjumörk orkufyrirtækja, sem var nýársgjöf hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, til landsmanna allra, sérstaklega til þeirra sem búa í dreifbýli. Hvernig eru þau lög til komin? Jú, þau eru fyrsta lota afleiðinganna af þeim afkáralega gjörningi að innleiða hér á landi raforkutilskipun Evrópusambandsins í allri sinni dýrð.

Það má rifja það upp stuttlega að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðu við því þegar árið 2000 að innleiðing þeirrar tilskipunar mundi valda umtalsverðum vandræðum í raforkumálum á Íslandi og passaði engan veginn. Við hvöttum til þess að ráðamenn leituðu eftir undanþágu frá tilskipuninni. Við töluðum fyrir daufum eyrum þá og það var ekki fyrr en allt var um seinan að einstöku stjórnarliðar meira að segja misstu út úr sér að þetta fyrirkomulag, sem sniðið er að meginlandi Evrópu, ætti kannski ekki sérstaklega vel við íslenskar aðstæður. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur hins vegar aldrei misst trúna á því ferli, þessu einkavæðingarferli sem hún hefur lagt upp með í orkubúskap landsmanna.

Við horfum fram á stóraukið misrétti atvinnugreina í landinu. Grænmetisframleiðendur og fiskeldisfyrirtæki verða verr sett en áður í samkeppni sinni við niðurgreidda starfsemi í öðrum löndum. Formaður Sambands garðyrkjubænda sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 14. janúar að 5–10% hækkun á raforkuverði mundi gera út af við heils árs framleiðslu í gróðurhúsum hér á landi, viðbótarkostnaðinum verði ekki velt út í verðlagið. Hæstv. ráðherra kom ekki hér inn á neinar aðgerðir sem væru boðaðar gagnvart þessum aðilum að ég tæki eftir.

Hið sama gildir um fiskeldið, herra forseti. Hvernig verður staða þeirrar atvinnugreinar, sem á gríðarlega mikið undir því að raforka fáist á viðráðanlegu verði? Ég er hræddur um að þar geti orðið mjög erfið staða ef fram heldur sem horfir. Ekki heyrði ég nefndar sérstakar aðgerðir af hálfu hæstv. ráðherra til að mæta þeim vanda. Nýju lögin banna allar niðurgreiðslur í gegnum mismunandi taxta og gjaldskrá þannig að framvegis mega menn búast við því að við gerð fjárlaga á hverju ári verði framlögin sundurliðuð og teknar sérstakar ákvarðanir um niðurgreiðslur beint úr ríkissjóði, eigi að draga úr verðhækkunum eða jafna verð á raforku út um land.

Neytendur verða því gjörsamlega háðir árlegum ákvörðunum fjárveitingavaldsins, Alþingis, um hvers konar raforkuverð þeir munu búa við. Það er ekkert innbyggt stöðugt kerfi sem þar er í hendi.

Það var dapurlegt að hæstv. ríkisstjórn skyldi vera það svo gríðarlegt kappsmál að innleiða gervisamkeppni í raforkumálum. Þess vegna þurfti t.d. að sundurlima orkufyrirtæki og skipta upp í þrjár greinar: framleiðslu, flutning og sölu, með tilheyrandi kostnaði. Fyrirtækin skyldu auk þess taka sér arð úr rekstrinum.

Hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fullyrti og fullyrðir enn hvað eftir annað á Alþingi að engar teljandi hækkanir á raforkuverði eigi að koma til vegna þessarar lagasetningar. Sama platan er spiluð aftur og aftur. Hún sagði t.d. í fréttum 12. janúar, með leyfi forseta:

„Aðalatriðið er að það verði ekki til nýr kostnaður í þessu kerfi. Hins vegar þá er þessu bara raðað öðruvísi upp og þeir sem hafa notið sérréttinda þeir njóta þeirra ekki lengur.“

Þar hefur reyndar stóriðjan gleymst. Enginn fær meiri sérréttindi en stóriðjan, sem ætti þó að vera bannað samkvæmt þeim lögum sem hæstv. ráðherra vitnaði til.

Herra forseti. Menn sjá nú að það fyrirkomulag sem ríkisstjórnarflokkarnir greiddu atkvæði sitt með 10. desember og allir hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem viðstaddir voru þá nema einn, var ekki svo sniðugt sem menn héldu þá. Þeir hafa reyndar margir fengið bakþanka síðan eins og við heyrðum hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni. Nú er það pólitískt verkefni að takast á við þá galla sem voru löngu fyrirsjáanlegir í þessu kerfi. Já, við skulum vona að hv. þingmenn og ríkisstjórn hafi pólitískt þrek til að taka á þeim göllum og gera þetta að almannaþjónustu, í staðinn fyrir samkeppnisrekstur sem á að skila arði til eigenda fyrirtækjanna.

Hvernig datt mönnum í hug að það yrði enginn teljandi aukakostnaður af því að fyrirtækjunum væri skipt upp í þrjá hluta, sem síðan yrðu að versla hver við annan? Hvernig mátti það vera að engin veruleg hækkun yrði á rafmagnsreikningum landsmanna þótt fyrirtækin færu að reikna sér arð af starfsemi sem þau ekki þurftu að gera áður? Arðurinn rennur til eigandans, sem er ríkið, því ríkið á reyndar sem betur fer þessi fyrirtæki enn. Í stað þess að arðurinn af slíkri starfsemi skili sér til neytenda í formi lægra orkuverðs á hann að skila sér í vasa fyrirtækjanna og eigenda þeirra.

Herra forseti. Nú erum við að sjá ákveðinn raunveruleika. Hér hefur verið rakið hvernig verð fyrir orku til notenda breytist, hækkar í mörgum tilvikum en lækkar í einstaka tilvikum. Það á að stofna Landsnet sem átti að megninu að taka að sér flutning á öllu rafmagni til dreifiveitnanna. Ég lagði reyndar til í raforkunefnd að Landsnet yrði í eigu ríkisins og sveitarfélaganna en ekki í eigu þeirra fyrirtækja sem líka framleiða rafmagn. Það hefði verið miklu réttara. Ég tel enn að stefna ætti að því.

Stjórnvöld ákváðu að hafa ólíka gjaldskrá í þéttbýli og dreifbýli. Við lögðum til að svo yrði ekki og hér yrði um fullkominn jöfnuð að ræða, en ríkisstjórn og Alþingi féllust ekki á þá skoðun okkar. Vissulega fá fyrirtæki í þéttbýli örlitla lækkun sums staðar ef notkunin fer yfir ákveðið magn, en því sama hefur ekki verið að heilsa í dreifbýlinu.

Það er að vísu fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli tilkynna að ríkisstjórnin sé með tillögur á borði sínu um að koma til móts við þá gríðarlegu mismunun og hækkun sem ella yrði til neytenda, sérstaklega í dreifbýlinu. En þetta eru enn tillögur. Það á ekki einu sinni að taka á allri þeirri hækkun, heldur bara að hluta til, að hrækja aðeins í vandann.

Herra forseti. Við höfum hér heyrt því lýst hvernig hitunarkostnaður hefur hækkað og mun hækka að óbreyttu um allt að 50%. Hæstv. ráðherra nefndi að hann hefði heyrt enn þá hærri tölur. Minnumst þess líka að stór hluti dreifbýlisins býr bara við einfasa rafmagn, býr í raun ekki við fullkomna raforkuþjónustu. Sá hluti á líka áfram að borga hæsta raforkuverðið. Hæsta raforkuverð til hitunar. Hæsta verð til heimilisnota. Hæsta verðið til atvinnustarfseminnar. Ég vil fá yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra um að gefin verði út pólitísk yfirlýsing, eins og hv. þingmaður Einar K. Guðfinnsson nefndi, um að ríkisstjórn og Alþingi taki á þessum málum með þeim hætti að fullkominn jöfnuður ríki hér á landi hvað raforkuverðið varðar, allra síst verði dreifbýlið látið bera skarðastan hlut frá borði. Komið með einarða ákveðna yfirlýsingu um að á þessu verði tekið, en ekki hafa þetta 10%, 5%, 8% á móti þeim mun og því misrétti sem nú er verið að leiða inn meðal landsmanna, skipta þjóðinni upp í tvennt eða þrennt hvað verð og aðgang að raforku varðar.