131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[14:56]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Nú erum við að ræða vandamál sem kom upp vegna breytts skipulags á raforkumálum. Við stæðum ekki í þessum sporum í dag ef frumvarp Frjálslynda flokksins og Vinstri grænna hefði verið samþykkt. Það gekk út á að fresta gildistöku laganna um eitt ár. Þá hefðum við haft tíma til að sjá fyrir vandamálin í staðinn fyrir að þurfa að kljást við þau í dag, eða eins og hæstv. iðnaðarráðherra, að vera jafnvel í þeim sporum að forðast það að svara í síma og eitt og annað. Ég hefði talið miklu eðlilegra að finna lausnir á fyrirsjáanlegum vandamálum frekar en að þurfa að vinna úr þeim eftir á.

Hið alvarlega í þessu máli er villandi og röng upplýsingagjöf hæstv. ráðherra. Það er eins og hæstv. ráðherra hafi farið í smiðju til formanns flokksins og litið til ummæla hans um Íraksstríðið sem forskriftar að villandi upplýsingagjöf. Hér í umræðunni var talað um 100 kr. hækkun en hver er raunin? Það er ekki 100 kr. hækkun og ekki 1.000 kr. hækkun heldur er þetta tugþúsunda kr. hækkun. Það er náttúrlega óþolandi að eiga orðastað á hinu háa Alþingi við fólk sem er alltaf að bulla og gefur rangar upplýsingar. Það er talað um 100 kr. en síðan reynist upphæðin tíföld ef ekki hundraðföld.

Þetta er ekki eina málið sem svo háttar til um. Við höfum m.a. rætt um hækkun á sementsverði. Það er ekki ár síðan. Þá var frumvarp sett fram með þeim hætti að um óverulega hækkun væri að ræða, óverulega hækkun. En hver var raunin? Á Sauðárkróki varð 25% hækkun á sementi. Hækkunin varð jafnvel 72% eða meiri. Það kom fram í svörum hæstv. ráðherra. Það er náttúrlega óþolandi að lögð skuli fram frumvörp með villandi málflutningi hvað eftir annað.

Það má tiltaka fleiri hv. þingmenn Framsóknarflokksins og jafnvel ráðherra sem eru á vafasömum brautum með málflutning sinn. Af því hæstv. landbúnaðarráðherra var hér í salnum má rifja það upp að hann stóð að mjög undarlegu verki, að svipta fólk starfsleyfi í Búðardal en vill síðan ekki upplýsa hver stjórnsýslan var á bak við það. Það mál er núna fyrir nefnd um upplýsingamál. Þetta er náttúrlega óþolandi.

Menn verða að gjöra svo vel að leggja fram haldbærar upplýsingar í staðinn fyrir að koma hér með hvert þvaðrið á fætur öðru, t.d. um 100 kr. hækkun. Sú hækkun var ekki tíföld heldur hundraðföld.

Síðan heldur ballið áfram og þá reynir maður að kynna sér hver hækkunin verður í raun og veru. Fyrst með því að hringja í Orkustofnun og víðar, en þá rekur á fjörur manns Bændablaðið. Þar er talað um 15--20% hækkun. Nú sitjum við uppi með að á Vestfjörðunum er talað um 45% hækkun á húshitunarkostnaði, en ég hef heimildir fyrir að hækkunin geti orðið allt að 75%. Ekki nóg með það því þegar rætt er um atvinnurekstur eða sumarhúsabyggð á Vestfjörðum eru menn ekki að tala um 75% hækkun, 25% hækkun eða 72% hækkun heldur 250% hækkun á árunum 2002–2005. Það er náttúrlega ekki hægt að bjóða nokkrum atvinnurekstri upp á þvílíkt öldurót og menn verða að fara að hugsa fyrir og skoða með opnum huga góðar tillögur sem koma frá stjórnarandstöðunni svo sem frá Frjálslynda flokknum og Vinstri grænum um að fresta gildistöku laganna og reyna að sjá fyrir vandamálið í staðinn fyrir að standa hér og vita ekkert hvað þeir eru að segja.

En hvað sem því líður ætla ég að minna hæstv. iðnaðarráðherra á að hún er ráðherra byggðamála og það er mjög undarleg aðgerð að vera að hækka húshitunarkostnað. Í áætlunum með meginþætti byggðaáætlunar stendur, í a-lið á bls. 1, að verið sé að draga úr mismunun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga. Er þetta liður í því? Ég tel ekki svo vera. Mér finnst vera kominn tími til að ríkisstjórnin fari að sýna þessum málaflokki meiri virðingu en raun ber vitni.

Virðingarleysið gagnvart byggðamálum kom augljóslega í ljós nú í haust þegar skýrsla um framvindu byggðamála var rædd hér, en það er eitt það aumasta plagg sem ég hef rennt yfir. En hvað sem því líður er ágætt að fara aðeins yfir þetta skipulag og þessa samkeppni. Í hvaða samkeppni og breytt raforkuumhverfi erum við að fara? Við erum að fara í samkeppnisumhverfi opinberra fyrirtækja. Þarna eru opinberir forstjórar að fara í samkeppni sín á milli.

Allur þessi samkeppnisleikur er náttúrlega alveg með eindæmum, auðvitað sjá þessir opinberu forstjórar ekki neina leið til að lækka verðið. Þeir sjá bara margar leiðir til að hækka það. Og ekki var hægt að hækka verðið í Reykjavík. Nei, það var mjög mikil umræða um það hér í haust og þá er bara að demba hækkuninni á landsbyggðina og þá sem hafa hæstu raforkureikningana, þeir eru látnir greiða enn meira. Auðvitað er þetta ein dauðans della.

En ætti ekki rafmagnið að lækka, væri það ekki eðlileg staða? Við erum alltaf að fá stærri, hagkvæmari og öflugri virkjanir og þá mætti ætla að tæknin og tækninýjungar færu að skila einhverju þannig að við værum í rauninni að fá hagkvæmara kerfi og öflugra og þess vegna ættu neytendur að fara að sjá lækkun en ekki hækkun upp á tugi prósenta. Það er komið að því að hæstv. iðnaðarráðherra svari því: Er ekki kominn tími til að ræða lækkun á rafmagnsverði frekar en hækkun, sérstaklega í ljósi þess að hér er einungis verið að tala um samkeppni á litlum hluta markaðarins? Lítill hluti á að fara í samkeppni en meginhlutinn af allri orkunni er seldur á föstu verði til stóriðju. Maður hefði haldið að þessi litli hluti ætti að fara að njóta ávinnings af öllum þessum hagstæðu orkusamningum til stóriðju. Nei, það er verið að hækka rafmagnið í staðinn fyrir að lækka það.

Ég vil að fólk sem fær hækkaðan rafmagnsreikning um næstu mánaðamót íhugi það vel: Hvaðan kemur sú hækkun? Það á í rauninni ekki að sætta sig við þetta. Umræðan um samkeppni á raforkumarkaði er á algjörum villigötum. Landsbyggðin á einfaldlega að afþakka þessa hækkun sem er alveg með ólíkindum.

Ég hef lokið mál mínu að sinni.