131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:15]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að heyra tón hv. þingmanns nú. Það má ætla að einhver nauðung hafi rekið Framsóknarflokkinn til þessara verka og þeir hafi verið tilneyddir. En hér fyrir áramótin þá var fögnuður og hæstv. iðnaðarráðherra sá mikla ástæðu til að fagna yfir þessu. En nú eru áramótin liðin og þegar menn lenda í þessum vandamálum þá er bara nauðung.

Þegar upp komu vandamál varðandi hækkunina á sementsverði þá hefur ekkert gerst. Maður óttast að Framsóknarflokkurinn svíki þetta einnig nú, að það sé bara verið að breiða yfir þetta og að það eigi ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í: Í hverju?) Varðandi það að taka á þessu hækkaða raforkuverði. (Gripið fram í: Það er verið að því.) Ég á eftir að sjá efndir hvað það varðar vegna þess að framsóknarmenn hafa ekki staðið við ýmis önnur loforð í byggðamálum og er svikalistinn orðinn æðilangur.