131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:16]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni þegar hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, boðar það hér að iðnaðarnefnd muni fara alveg sérstaklega vel yfir þetta mál. Það er full ástæða til eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns. Það var þó eitt hugtak sem hv. þingmaður notaði sem ég held að sé algjörlega nauðsynlegt að hann skýri nánar fyrir þingheimi vegna þess að í því fólust ákveðnar ásakanir í garð þeirra sem komu til fundar við nefndina. Hv. þingmaður fullyrti að nefndin hefði fengið misvísandi upplýsingar. Ég get tekið undir það með honum að ýmsar upplýsingar voru mjög misvísandi því það var m.a. fullyrt við nefndina að það sem komið hefur í ljós varðandi þær hækkanir sem menn hafa hér verið að ræða mundi ekki eiga sér stað. Því er nauðsynlegt að hv. þingmaður útskýri nánar hvað hann eigi við með misvísandi upplýsingum og hverjir það voru sem gáfu hinar misvísandi upplýsingar. Voru það fulltrúar raforkufyrirtækjanna? Voru það fulltrúar Orkustofnunar? Voru það fulltrúar iðnaðarráðuneytisins?

Frú forseti. Ég held að sé alveg nauðsynlegt að hv. þingmaður upplýsi okkur um það hverjir gáfu þessar misvísandi upplýsingar.