131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:32]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta er það misskilningur að ég hafi átt sæti í 19 manna nefndinni. Svo var ekki en Samfylkingin átti þar fulltrúa, Svanfríði Jónasdóttur, en það er nú smáatriði.

Ég get tekið undir viðfangsefnið, það er ágætt. Ég get líka lýst því yfir, eins og ég tel mig hafa gert í fyrri ræðu minni, að ég er stuðningsmaður þess viðfangsefnis að ná í meiri peninga í ríkissjóð vegna þess að ég tel að á hinu háa Alþingi hafi líka verið pólitískur samhugur um að peninga til niðurgreiðslna ætti ekki að ná í til allra orkunotenda, að sérstakir peningar kæmu út úr ríkissjóði líkt og hefur verið í fjölmörg ár en málið er að það vantar í þann sjóð.

Ég hef ekki trú á því að það sparist mikið við það og má kannski setja það fram í spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra: Hvað er talið að það sparist margar milljónir kr. úr niðurgreiðslusjóðunum við að lækka þakið á 50 þús. kwst. niður í 35 þús. eða hvað það er? Ég hef ekki trú á því að það skapist svo miklir peningar við það. Það getur vel verið að það skapist peningar í niðurgreiðslusjóðnum fyrir árið 2005, m.a. vegna þess að um áramótin stóð ekki eftir út af niðurgreiðslum vegna nóvember og desember eins og gerst hefur undanfarin ár og kemur m.a. fram í svari til mín, þannig að vonandi er það þannig.

En grundvallaratriðið er þetta: Getum við ekki orðið sammála um, ég, hæstv. iðnaðarráðherra og aðrir, að viðfangsefnið sé ekki að draga úr hækkuninni heldur að láta hana hverfa út?