131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[15:43]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég velti því oft fyrir mér þegar hv. þm., vinur minn Kristján L. Möller, kemur í ræðustól, hvort það verði ekki hreinlega til þess að eitt fyrirtæki flytji af landsbyggðinni eftir ræðu hans því að slík er neikvæðni þessa hv. þingmanns, umræða um að allt sé vonlaust.

Nú liggur fyrir í umræðunni að fyrirtækin á landsbyggðinni muni hagnast á þessari breytingu strax. (KLM: Fiskeldisfyrirtækin.) Fiskeldisfyrirtækin, það er í vinnslu eins og ég hef rakið. Það þarf 45 millj. til að koma til móts við þau. Landsvirkjun telur sig geta það og ef Landsvirkjun vill gera það þá má hún það fyrir mér (Gripið fram í: Eigum við þá að lækka raf ...) en ég er í fullu samstarfi við fiskeldið og veit af þessum umræðum og þetta er uppi á mínu borði.

Hvað varðar garðyrkjuna hef ég sagt hv. þingmanni að til þess að þeir standi jöfnum fótum eftir breytinguna — því það fellur niður heill taxti — ja, það var unnið mjög faglega af landbúnaðarráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu og bændunum í samstarfi við hlutlaust fyrirtæki úti í bæ. Þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu — já, hv. þingmaður, Bændablaðið er flott. (JBjarn: Já, þú ættir að lesa það.) — þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þarf 50–60 millj. og ríkisstjórnin hefur tekið því vel þegar ég hef sagt þeim að aðlögunarsamningurinn um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjubænda og sá góði árangur sem náðist af þeim aðlögunarsamningi bæði um lækkað verð á þeim hollustuvörum, að auki á ávöxtum og fleiru, að því var vel tekið að fylgja þeim samningi eftir og gefa garðyrkjunni áfram tækifæri til að keppa á heimsmarkaði, því það ákváðum við með gjörðinni. Það er því góður vilji alveg eins og í hinum málunum til að leysa öll þau vandamál sem upp hafa komið. Atvinnulíf á landsbyggðinni er ekki síst í hættu vegna neikvæðrar umræðu og rangra upplýsinga sem þingmenn stjórnarandstöðunnar flytja dag eftir dag úr þessum stól.