131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:17]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það má svo sem gefa þessu verkefni það nafn að þetta sé verkefni en verkefnið er náttúrlega vegna þess að það er búið að búa til vandamál og vandamálið er það sem fylgir þessum lögum.

Bara svona rétt til að skerpa á minni hæstv. ráðherra þá sagði hún, með leyfi forseta, í svari á Alþingi:

„Auk þessa er meiri jöfnun í kerfinu en var áður sem getur þýtt örlitla hækkun á þessu svæði. En ég held að það sé ekki erfiðara en svo að það sé teljandi í einhverjum hundraðköllum á ári.“ — Orðrétt eftir hæstv. ráðherra.

Í annan stað sagði hæstv. ráðherra 10. desember:

„Ég er alltaf með það í huga að landsbyggðin komi ekki illa út úr breytingum sem ég ber ábyrgð á.“

Þetta var viljinn. Við getum ekki dregið það í efa að þetta hafi verið vilji ráðherrans og hver er þá niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að ráðherrann og ráðgjafar hennar í iðnaðarráðuneytinu vissu ekki nokkurn skapaðan hlut hvað þeir voru að gera. Það getur ekki verið að menn hafi gert þetta viljandi, enda er ekki hægt að lesa það út úr orðum ráðherrans. Niðurstaðan er sú að menn vissu þetta ekki. Samt segir hæstv. ráðherra 10. desember, með leyfi forseta:

„Um þetta vil ég segja að undirbúningur að setningu reglugerða vegna opnunar raforkumarkaðarins hófst í júní síðastliðnum. Raforkufyrirtækin áttu fulltrúa í starfshópum sem fjölluðu um reglugerðardrögin. Auk þess hafa hagsmunaaðilar fengið drögin til umsagnar í tvígang á mismunandi stigum undirbúnings. Því er langur vegur frá því að raforkufyrirtækin hafi ekki upplýsingar um það hvað taki við um áramót. “

Ef þau hafa haft það hafa þau ekki komið því til ráðherrans því þá hefði ráðherrann ekki farið með þau orð sem hún fór með í desember. Þetta er greinilega eitthvað málum blandið.