131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:19]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var mjög mikilvægt að það kom fram í hvaða ræðu hv. þingmenn voru að vitna þegar þeir voru að tala um hundraðkallana því það er verið að tala um jöfnunina. Ég var að tala um að við værum að stækka flutningskerfið sem þýðir meiri jöfnun í landinu og ég er að tala um að það geti kostað einhverja hundraðkalla fyrir þá sem búa hér á þessu svæði, suðvestan… (GAK: Var það þá með vilja?) Já, það var með vilja gert, (Gripið fram í.) við erum að stækka jöfnunarkerfið. (GAK: ... með fullum vilja.) Við erum að stækka jöfnunarkerfið, ég ætla að biðja hv. þingmenn að reyna að átta sig á hvernig þetta kerfi er uppbyggt. (GAK: Þannig að við þurfum ekki frekar vitnanna við?) Það skiptir miklu máli að hv. þingmenn séu með það á hreinu ef þeir ætla að vera alveg klárir á að vera í þessari umræðu.

Hvað er ég að tala um þegar ég segi að við gátum ekki séð þetta fyrir? Það er vegna þess að við urðum að sjá gjaldskrárnar fyrst og þær lágu ekki fyrir fyrr en um áramót. Það var bara þannig. Ég er ekkert að álasa fyrirtækjunum vegna þessa heldur var þetta bara allt seint á ferðinni. Þetta er gríðarleg vinna. Við erum að umbylta þessu kerfi algerlega en ég hef trú á því, eins og ég er búin að margláta koma fram úr þessum ræðustóli, að þegar á allt er litið og þegar þetta verður komið í framkvæmd sé þetta mjög til bóta fyrir samfélag okkar. Við erum að markaðsvæða raforkukerfið. Það er nú ekkert annað. Og ég veit ekki betur en að hv. þingmaður sem hér talaði hafi verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í áraraðir. Hann er sjálfsagt á móti markaðsvæðingu miðað við þetta. En svona er þetta.

Ég er alltaf að hugsa um landsbyggðina. Það er rétt. Þess vegna stend ég í þessum stóli í dag og tilkynni miklar viðbótarniðurgreiðslur vegna húshitunar á landsbyggðinni.