131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:21]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra, og tekst henni að muna sumt og fara rétt með, að þegar ég starfaði í Sjálfstæðisflokknum var ég iðulega á móti ýmsu sem hefði þær afleiðingar að veikja búsetuskilyrði á landsbyggðinni og ég er það enn. Það er ekki við það unandi að við séum að vinna hér verk sem við vitum ekki til hvers leiðir. Þess vegna var það auðvitað þannig, hæstv. forseti, að þegar ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fluttum frestunartillöguna var það eingöngu til þess að gefa yfirvöldum tækifæri á því að átta sig á hvaða afleiðingar fylgdu þessu máli þannig að menn þyrftu ekki að gera sérstakar greiðslutilraunir á landsmönnum heldur hefðu tækifæri til að skoða málið í heild sinni undir þeim lögum sem við samþykktum í desember. Ekki má gleyma að frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra sem kom hér inn í desember var öllu gersnúið við í iðnaðarnefndinni. Ég held að ekki hafi verið nema ein grein í því frumvarpi sem var eins og þegar það kom inn heldur þurfti iðnaðarnefnd að fara yfir málið algerlega upp á nýtt. (Iðnrh.: Í samstarfi við okkur.) Ég ætla að vona að hún hafi gert það.

Það liggur algerlega ljóst fyrir að það sem sett var í lög og það sem lögin báru með sér hefur komið öðruvísi út en menn áttu von á. Sú yfirlýsing liggur þó algerlega kýrskýr fyrir og verið er að tala um að bregðast við því.

Það sem mér finnst undarlegt við þetta mál er að fólk fullyrðir að það viti hvernig þetta er í pottinn búið, að fyrirtækin séu margbúin að skoða reglugerðir og annan kostnað en svo kemur það alltaf á óvart sem gengur eftir.