131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:32]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem, eins og komið hefur fram, stýrði iðnaðarnefnd á síðasta þingi þegar við vorum að vinna að frumvarpinu. Ég vil þakka fyrir það sem hann sagði vegna þess að það er efnislega að mestu leyti það sama og ég var að tala um í ræðu minni og að því leyti erum við algjörlega sammála. Það var ekki markmiðið með breytingunni sem hér hefur verið lýst og m.a. nú síðast af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, landsbyggðarþingmanni úr Norðvesturkjördæmi, og fyrir það vil ég auðvitað þakka.

Ég vil aðeins leggja eina spurningu fyrir hv. þingmann til að fá það alveg klárt hér fram, sem er mjög mikilvægt líka vegna þess að mikilvægt er að fá aðra framsóknarmenn til að segja okkur þingmönnum hvort þeir séu sáttir við þetta: Er það ásættanlegt markmið, virðulegi forseti, að breytingin sem nú hefur verið boðuð hafi þau áhrif, eftir lagfæringar iðnaðarráðherra, sem hv. þingmaður er nú jafnvel að andmæla að hluta til, að raforkuverð hækki um 5–8% í þéttbýli og 10% í strjálbýli? Er ásættanlegt að gera þá breytingu sem hér er verið að tala um, sem mun fyrst og fremst íþyngja eldra fólki í landsbyggðarkjördæmum okkar vegna þess að það er það fólk sem býr í stóru húsnæði og notar sennilega mest af þessu, upp í um 50 þúsund kwst. sem nú eru til umræðu?