131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:37]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins bæta við svar mitt við fyrri spurningunni. Ég er sammála því að ekki sé eðlilegt að velta mestum hækkunum á notendur í dreifbýli sem búa í stórum húsum og eru í stétt sem hefur lágar tekjur. Það er einfaldlega ekki ásættanleg pólitík að mínu viti. Ég tel að þarna eigi að jafna kostnaðinn í raforkukerfinu eins og við gerum í símkerfinu. Það er ekkert að því að jafna kostnaðinn frá þéttbýli yfir í dreifbýli, alveg eins og Hitaveita Suðurnesja er nú í taxtabreytingum sínum að jafna frá þéttbýlinu á Suðurnesjum yfir á þéttbýlið á Suðurlandi. Ekki meira um það.

Varðandi hugsanlega skipulagsbreytingu í raforkukerfinu þá er það rétt að ríkið á Orkubúið að öllu leyti og Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun að hálfu leyti. Framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi hafa markað sér stefnu í þeim efnum, hún kom mjög skýrt fram á kjördæmaþingi í nóvember síðastliðnum. Það er stefna okkar að standa vörð um Orkubú Vestfjarða, styrkja það og bæta jafnvel við það þeim hluta Rafmagnsveitna ríkisins sem er í Norðausturkjördæmi og búa til úr því öflugt fyrirtæki sem þá gæti einbeitt sér að því að veita góða þjónustu og hefði bolmagn til að veita rafmagn til nýrra fyrirtækja.