131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:39]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram að sumu leyti ágæt umræða um raforkulögin og afleiðingar þeirra. Ég vil fyrst taka það fram að síðastliðinn vetur átti ég sæti í iðnaðarnefnd og þar fór fram prýðileg vinna um frumvarpið og ég studdi kerfisbreytinguna eins og hún leit út þá og málum var stillt upp á þeim tíma.

En niðurstaða umræðunnar í dag er sú að markmið laganna hafa í stórum dráttum alls ekki náð fram að ganga. Stórfelldar hækkanir á raforkuverði á landsbyggðinni eru mjög alvarlegt mál og stjórnarliðar hafa ekki komið fram með sannfærandi málflutning, þ.e. hæstv. ráðherra, landbúnaðar og iðnaðar, um hvernig eigi að bregðast við því máli, þvert á móti. Og það hafa ekki komið fram sannfærandi rök fyrir því að bæta eigi garðyrkjunni skaðann og lægja það uppnám sem fram hefur komið í fréttum í ýmsum blöðum að sé hjá garðyrkjuframleiðendum vegna þeirra hækkana sem blasa við greininni og er grafalvarlegt mál. Og það hafa ekki komið fram sannfærandi rök af hálfu stjórnarliða um að svo eigi að vera, heldur einhver gífuryrði um það að stjórnarandstæðingar sem hafa bent á galla laganna séu að skruma. Þetta verður að teljast ákaflega ódýr og máttlaus málflutningur því hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem er auðvelt að fullyrða að sé á margan hátt aðför að lífskjörum á landsbyggðinni og er nú ekki á það bætandi á mörgum svæðum úti á landi þar sem fólk þarf t.d. að kosta upphitun húsa sinna með rafmagni.

Í dreifbýlinu er þetta mjög alvarlegt mál og það hafa engin boðleg rök verið færð fyrir því hvernig til frambúðar eigi að koma til móts við þær miklu hækkanir sem blasa við. Eins og hv. þm. sem mælti á undan mér, Kristinn H. Gunnarsson sagði, þá var fullyrt að pólitískt markmið þessara laga, tilgangur kerfisbreytinganna, tilgangur markaðsvæðingar raforkugeirans væri að raforkuverð til neytenda mundi almennt lækka og verða hagstæðara bæði fyrir fólk og fyrirtæki, hvar sem væri á landinu, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Það er að koma í ljós að það er þvert á móti. Það sem blasir við okkur er að hér er um að ræða alvarlega stöðu fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni og fyrir þá íbúa þeirra svæða landsbyggðarinnar sem standa hvað höllustum fæti; þar sem launin eru lægst, þar sem atvinnustigið er lægst og þar sem erfiðleikarnir eru mestir. Þessu fólki er stefnt í miklar hækkanir og mikinn vanda og hæstv. ráðherra og stjórnarliðar þurfa að hafa hér uppi miklu einbeittari málflutning til að sannfæra fólk um að komið verði til móts við þetta með viðeigandi hætti.

Umræðan í dag hefur nánast eingöngu snúist um afleiðingar laganna á gjaldskrá einstakra svæða. Það er ekki undarlegt þar sem afleiðingarnar eru það miklar og hækkanirnar svo alvarlegar og háar sem raun ber vitni. En það hefði verið fróðlegt að ná aðeins að kafa undir yfirborðið á því máli og ræða hinar stóru línur sem undir liggja, t.d. hver langtímamarkmiðin með lagabreytingunum eru, hver langtímamarkmiðin með markaðsvæðingu raforkumarkaðarins eru, af því að það skiptir í sjálfu sér mjög miklu máli til lengri tíma litið hvert stefnt er.

Ég hefði viljað sjá og heyra hæstv. ráðherra draga þær línur fyrir þingheim og þjóð hvernig hún sjái þróun raforkumarkaðarins á allra næstu árum. Sér hæstv. ráðherra það t.d. þannig fyrir sér að Landsvirkjun, Rarik og jafnvel Orkubú Vestfjarða sameinist og á móti sameinist Orkuveitan í Reykjavík og Orkuveita Suðurnesja og til verði tvö stór fyrirtæki sem síðan fari á markað? Hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Hún kom hvergi fram heldur höfum við einungis verið að hlusta á veikar réttlætingar á þeirri holskeflu hækkana sem hafa dunið yfir fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni.

Ég kalla eftir því við hæstv. ráðherra að hún reifi framtíðarsýn sína, pólitík sína í þessu máli. Hvernig sér ríkisstjórnin fyrir sér að raforkumarkaðurinn muni þróast á allra næstu árum? Er það t.d. langtímamarkmið að þær sameiningar raforkufyrirtækjanna sem ég nefndi áðan eigi sér stað og síðan verði til að mynda hafin sala á hluta Landsvirkjunar eða fyrirtækinu öllu á lengri tíma? Hver eru framtíðarmarkmiðin? Er það í farvatninu á næstu missirum og árum að hluti Landsvirkjunar verði til að mynda seldur? Þær raddir hafa heyrst að yrði sú leið farin væri eðlilegt að salan á fyrirtækinu yrði skilyrt við lífeyrissjóðina í landinu, það væri mjög heppileg fjárfesting fyrir lífeyrissjóðina að kaupa hlut í Landsvirkjun og eignast þetta þjóðarfyrirtæki að lokum, uppsprettu raforkuframleiðslunnar og auðlindanotandann sjálfan.

Ég held að það væri mjög spennandi leið að fara ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það beri að selja Landsvirkjun, sem að sjálfsögðu getur vel verið sá kostur, þ.e. að selja fyrirtækið að hluta eða öllu leyti. En þá skiptir öllu máli hverjir fá að kaupa. Að mínu mati á að skilyrða það við lífeyrissjóðina í landinu. Þetta mál þarf að ræða. Þó að það sé ekki uppi á borðum akkúrat núna þá kalla ég eftir því við hæstv. ráðherra að hún reifi þetta mál, reifi framtíðarsýn sína við frekari þróun raforkumarkaðarins. Tekið var stórt skref í fyrra þegar þessi lög voru samþykkt með meirihlutastuðningi á Alþingi og okkar í Samfylkingunni. Við sem sátum í iðnaðarnefnd á þeim tíma studdum þetta mál eftir mikla vinnu í nefndinni og ýmsar jákvæðar breytingar á frumvarpinu sem þá var. En hins vegar var það að sjálfsögðu gert á þeim grunni að landsbyggðin yrði ekki svikin, ekki yrði komið aftan að fólkinu og fyrirtækjunum á landsbyggðinni með þeim hætti sem við horfum á núna, að garðyrkjubændurnir væru ekki skildir eftir í uppnámi með ákaflega veik loforð frá ráðamönnum um að til móts við þessar hækkanir verði komið til skamms tíma. Ég kalla eftir miklu skýrari svörum, miklu skýrari yfirlýsingum frá ráðherrum landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytis um hvernig á að mæta vanda á hækkunum á raforku til landsbyggðar og garðyrkjubænda. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ekki enn þá talað í dag nema í stuttu andsvari þannig að hann á ræður sínar báðar eftir og hlýtur að nota það tækifæri til að skýra það út fyrir þingheimi hver sjónarmið hans eru í málinu.

Ég vil aftur ítreka það við hæstv. iðnaðarráðherra að ég vildi fá að heyra markmið hennar af því að það skiptir öllu máli til lengri tíma litið. Hver eru næstu stóru skrefin á raforkumarkaðnum? Á að sameina fyrirtækin? Á að selja Landsvirkjun og hverjir eiga þá að kaupa?