131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[16:59]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að mínu viti er alveg hægt að hugsa sér að ríkið losi sig út úr eignarhaldi á einhverju af þessum fyrirtækjum og með þeim hætti verði þá staðið að málum frekar en að sameina þessar eignir sínar í eitt fyrirtæki. Það eru margar leiðir til að gera þetta og auðvitað engin ein leið hér, a.m.k. ekki sem tillaga frá minni hendi, en ég tel að það eigi að skoða mjög vandlega hvort þetta sé ekki skynsamlegri nálgun en sú að búa til þetta gríðarlega stóra fyrirtæki. Ég hef bent á að sveitarfélögin t.d. gætu komið að þessu borði og ég hef bent á að það þurfi að mínu viti að velja um það hvort t.d. lífeyrissjóðirnir gætu hugsanlega orðið eignaraðilar að Landsvirkjun, flutningsfyrirtækinu eða einhverjum af þessum fyrirtækjum. Þarna verða menn auðvitað að velja á milli því að það gengur ekki að sömu eigendurnir séu allan hringinn í kringum borðið. En ríkisvaldið hefur þessi spil á hendi sinni og það skiptir miklu máli hvernig úr þeim verður spilað. Ég hef fyrir fram miklar efasemdir um að það verði merkileg samkeppni á markaði sem verður til eftir að ríkisvaldið hefur tekið þá ákvörðun að sameina langstærstan hluta af allri orkuframleiðslunni og sölunni undir einn hatt.