131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:04]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er aðeins út af þessum fiskeldisfyrirtækjum. Nú hef ég heyrt að Landsvirkjun þjarki um það við einhver fá fiskeldisfyrirtæki að þau fái áfram afsláttarkjör hjá þeim. En það er þannig með umhverfið sem þar er verið að búa til að í framtíðinni eiga stjórnmálamenn ekki að hafa möguleika á að hafa áhrif á kjör einstakra fyrirtækja hvað varðar raforkuverð. Það eina sem stjórnmálamenn geta þá gert til að styðja slík fyrirtæki er að sjá til að styrkir eða annað slíkt komi þá úr ríkissjóði.

Ég held að því fyrr sem menn átta sig á þessu því betra verði það. Ég tel að margir af þeim aðilum sem hv. þingmaður nefndi, fiskeldisfyrirtæki og jafnvel aðrir sem standa nú frammi fyrir því að ekki mun til boða jafngott verð og áður, muni hafa samband við þingmenn og óska eftir stuðningi. Það þýðir bara að þeir munu biðja um peninga úr ríkissjóði.

Hitt er svo umhugsunarefni að hvað þetta varðar á að vera komin á samkeppni í greininni. En mér skilst að menn fái bara engin tilboð af neinu tagi, menn verði bara að horfast í augu við að fara inn á einhverja gjaldskrá sem er miklu hærri en kjörin sem þeir höfðu áður og ef þeir biðji um tilboð þá komi bara ekki neitt.