131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:06]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þm. Jóhann Ársælsson séum sammála um að jákvætt sé að gagnsæi verði í hinum nýsettu raforkulögum. Staðreyndin er að í hinu gamla kerfi voru innbyggðar niðurgreiðslur til einstakra aðila sem almennir notendur greiddu síðan. Það er úrlausnarefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag, að einstakar atvinnugreinar eins og fiskeldi og garðyrkja hafa notið lágs raforkuverðs í gegnum slíka innbyggða niðurgreiðslu.

Það er hárrétt sem hv. þm. sagði áðan, að þá er það eingöngu pólitísk ákvörðun og pólitísk niðurstaða hvort við viljum stuðla að því að þau fyrirtæki haldi áfram starfsemi sinni. Það er pólitísk niðurstaða hve miklum fjármunum við verjum til að viðhalda byggð í landinu. Það er alltaf umdeilanlegt en ég er þeim megin í stjórnmálunum að ég vil að við viðhöldum byggð í landinu.

Fiskeldisfyrirtæki eins og Silfurstjarnan á Kópaskeri skilar íslensku samfélagi útflutningstekjum. Starfsmenn þar og til að mynda þjónusta við það fyrirtæki skilar íslensku þjóðarbúi miklum fjármunum. Það er ekki spurning að þessi atvinnuvegir, garðyrkjan og fiskeldið, skila þjóðarbúinu miklum arði fyrir utan það að styrkja byggð í mörgum byggðarlögum sem hafa háð varnarbaráttu á umliðnum árum. En vonandi munum við, framsæknir alþingismenn, snúa þeirri þróun við.