131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:15]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Í dag hefur farið fram nokkuð löng og ströng umræða um áhrifin af raforkulögunum nýju. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þá skýrslu sem hún flutti en eins og við vitum var tilgangur laganna að koma á samkeppni á raforkumarkaði og stuðla að opnum markaði með gegnsæja verðlagningu. Ég verð að segja eins og er, að eftir að hafa hlustað á skýrslu hæstv. ráðherra og þær umræður sem farið hafa fram í dag þá eru það hálfgerð öfugmæli að tala um að koma á samkeppni þegar litið er til fyrstu skrefanna sem orkufyrirtækin stíga í þessu máli.

Í umræðunni um raforkumálin var margoft tekið fram að þetta mundi ekki leiða til neinna hækkana og ekki þýða hækkun á orkuverði til neytenda. Hæstv. ráðherra valdi þá leið í skýrslu sinni að fara yfir gjaldskrárbreytingar orkufyrirtækjanna að mestu leyti, breytingar sem kynntar hafa verið opinberum eftirlitsaðilum, reikna ég með, sem liggja nú fyrir sem staðreyndir þessa máls.

Hæstv. ráðherra gerði að sérstöku umfjöllunarefni að raforkuverð til einstaklinga og fyrirtækja á Suðurnesjum — á hinu gamla orkuveitusvæði Hitaveitu Suðurnesja, sagði hæstv. ráðherra, sem þýðir Suðurnes — mundi hækka um 20% og það þyrfti ekki að koma nokkrum manni á óvart. Allir hefðu vitað það í raun og þetta væru engar fréttir sem við þyrftum að hafa áhyggjur af þar sem orkuverð á Suðurnesjum væri hvort eð er svo lágt eftir þá miklu hækkun.

Ég verð að segja, frú forseti, að þetta eru kaldar kveðjur til þeirra sem reka fyrirtæki á Suðurnesjum og til þeirra sem þar búa. Hæstv. ráðherra hefur ekki miklar áhyggjur af því þótt orkureikningur einstaklinga og fyrirtækja hækki um 20%. Sami ráðherra sagði síðar í sömu ræðu að svo virtist sem að rafhitunarkostnaður í dreifbýli mundi hækka um 20–40% og við það yrði ekki unað.

Berum aðeins saman það sem hæstv. ráðherra sagði um hækkanirnar á Suðurnesjum og síðan um hækkanir annars staðar á landinu. Ekki eru allir íbúar þessa lands jafnir í augum hæstv. ráðherra. Reyndar verð ég að segja eins og er, frú forseti, að ég er í sjálfu sér ekki mjög hissa á ummælum ráðherrans. Mér hefur sýnst sem störf þessa hæstv. ráðherra væru meira og minna kjördæmamiðuð.

Hvað sagði sami hæstv. ráðherra í umræðunni um raforkulögin á sínum tíma í mars í fyrra? Þá sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„Svo er spurningin: Mun þetta hækka orkuverð til heimila eða ekki? Ég fór yfir það líka fyrr í umræðunni hvernig það dæmi lítur út miðað við orkufyrirtækin í landinu. Það hefur verið farið í gríðarlega vinnu til þess að átta sig á því. Hjá Hitaveitu Suðurnesja sýnist mér þetta hækka verðið um 2,5% og það er fyrst og fremst vegna þess að þeir hafa notið algjörrar sérstöðu innan kerfisins með því að þurfa ekki að taka þátt í flutningskerfinu nema að mjög takmörkuðu leyti vegna eigin framleiðslu. Við erum ekki tilbúin að veita einu fyrirtæki einhver sérstök forréttindi og ég held að það standist ekki ákvæði EES-samningsins.

Það er svo sem ekki bara Hitaveita Suðurnesja sem notið hefur ákveðinna sérréttinda í þessum efnum, heldur má segja að það hafi líka átt við um Orkubú Vestfjarða og þar gæti verð hækkað um 1,5% miðað við þessar breytingar, hjá Norðurorku um 1,4%, Orkuveitu Reykjavíkur um 1%, en hins vegar lækkað um 2,6% hjá Rarik af því að Rarik hefur ekki notið sérstöðu, heldur hafa verið settar ákveðnar kvaðir á það fyrirtæki sem nú eru ekki heimilar og ekki ástæða til þess að viðhafa.“

Hæstv. ráðherra hélt áfram:

„Þetta er það sem við höfum fengið út úr okkar reikningsdæmi og ég hlýt að halda því fram að þetta séu ekki breytingar sem eru svo miklar að ástæða sé til að gera mikið veður út af þeim.“

Síðar sagði hæstv. ráðherra í andsvari, með leyfi forseta:

„Varðandi kostnaðinn hef ég ánægju af að lesa upp ákveðnar tölur sem hafa verið settar fram. Hvað varðar Hitaveitu Suðurnesja mun stækkun flutningskerfisins þýða að það er lækkun í dreifingu en hækkun í flutningi upp á 26. Þarna erum við að tala um aura á kwst. Síðan kemur greitt fyrir eigin vinnslu og það eru 17 aurar. Þegar á heildina er litið er hækkun upp á 2,5% hjá Hitaveitu Suðurnesja.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur er í stækkun flutningskerfisins samdráttur um 10 aura í dreifingunni en kostnaðarauki upp á 26 aura. Í heildina kemur það út sem 1% hækkun.

Hjá Rarik er þetta mínus 50 í dreifingu, plús 26 í flutningi sem gerir 2,6% lækkun.

Hjá Orkubúi Vestfjarða er dreifingin upp á 59 aura en flutningurinn er plús 26 aurar. Það gerir 1,5% hækkun og hjá Norðurorku er 1,4% hækkun, ég hef ekki tíma til að fara nánar út í það.“

Hæstv. ráðherra bætir síðan við í lok andsvars síns:

„Þetta eru því öll ósköpin, 1% og 2,5% hækkun þegar því hefur verið haldið fram að þarna væri um 20% hækkun að ræða.“

Er það undarlegt, frú forseti, þó að sá sem hér stendur sé hálfundrandi á að heyra ráðherrann standa í pontu í dag og segja að allir hafi vitað, eftir gríðarlega vinnu og mikla útreikninga, að verð mundi hækka um 20% hjá Hitaveitu Suðurnesja eftir að þessi lög tækju gildi?

Við hljótum að gera þá kröfu til hæstv. ráðherra sem lýsa því yfir að mikil vinna hafi farið í útreikninga, mikilli vinnu við að fara yfir áhrif laga, að þeir segi okkur satt þegar þeir koma í pontu. Við getum ekki þolað að ráðherra segi eitt þegar hann er að fá lögin samþykkt en eftir að þau eru samþykkt og í ljós kemur hver áhrif það hefur á raforkumarkaðinn þá segi hann eitthvað allt annað og staðfesti í raun þær spár sem uppi voru en hæstv. ráðherra blés á á þeim tíma sem þær tölur voru settar fram.

Það er óvefengjanleg staðreynd að sú kerfisbreyting sem hér var innleidd hækkar raforkuverð þorra landsmanna. Hæstv. ráðherra hefur svo sem ekki miklar áhyggjur af því þar sem það kemur íbúum í þéttbýli í kjördæmi ráðherrans til góða og hann ætlar að sjá til að þeim sem búa í dreifbýli í kjördæminu verði bættur skaðinn. Frú forseti, til fjandans með hina, hvort sem þeir búa á Suðurnesjum eða í Reykjavík. (Iðnrh.: Hvað segir Kristján Möller?)

Það er skelfilegt að sjá hvaða áhrif breytingar á gjaldskrá hafa á rekstur garðyrkjubænda og rekstur fiskeldisfyrirtækja. Þessir aðilar hafa verið með sérsamninga um rafmagnskaup, bæði vegna þess að þeir kaupa mikið rafmagn og nýta það betur en flestir aðrir. Full ástæða er til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að þessi fyrirtæki muni áfram geta keypt raforku á sérkjörum eða hvort þau muni öll þurfa að leggja upp laupana, þurfi að kaupa upp rafmagn á sama verði og bílaverkstæði í litlum bílskúr. Ekki fá þau sömu kjör og hæstv. ráðherra beitir sér fyrir að stóriðjan fái.

Ég vona jafnframt að hæstv. ráðherra segi okkur hvernig stendur á því að ráðherra segir okkur ekki satt þegar hún stendur hér í pontu.