131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:26]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi alveg sérstaklega hvað það var sem ég fór rangt með. Ég sat í upphafi fundar og hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra, þar sem hún sagði að verð mundi hækka um 20% á Suðurnesjum en það kæmi engum á óvart. Ég skrifaði þetta niður eftir hæstv. ráðherra og svo minni ég á það sem ég var að lesa upp úr andsvörum hennar frá því fyrir tæpu ári þar sem ráðherra segir varðandi hækkun á gjaldskrá raforkufyrirtækja: „Þetta eru því öll ósköpin, 1% og 2,5% hækkun þegar því hefur verið haldið fram að þarna væri um 20% hækkun að ræða.“ (Gripið fram í.)

Á málflutningurinn kannski að verða svipaður, hv. þingmaður Birkir Jón Jónsson, og í Íraksmálinu? Á að reyna að reyna að þæfa þetta í einhvers konar málvitleysu? Þetta stendur alveg hreint og skýrt. Hæstv. ráðherra stóð hér í mars 2004 og blés á spár um 20% hækkun á raforkuverði til raforkukaupenda á Suðurnesjum en stendur svo hér tæpu ári síðar og segir að þetta hafi allir vitað og verðhækkanirnar þurfi ekki að koma nokkrum manni á óvart.

Hæstv. ráðherra velur þá leið að kenna fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja um, að það hækki arð sinn af sölu rafmagns til íbúa á Suðurnesjum. Ég kann ekki að fara með þær tölur en mun kanna það þegar heim er komið. Ég á bágt með að trúa því að fyrirtæki eins og Hitaveita Suðurnesja, sem búið er að byggja upp á Suðurnesjum á undanförnum árum og hefur boðið upp á lægsta orkuverð á landinu, hefur haft það að markmiði, sé að nýta tækifærið til að hækka verð á íbúa og fyrirtæki á Suðurnesjum.

Hæstv. ráðherra svaraði mér ekki varðandi afsláttarkjör til fiskeldis og garðyrkjubænda. Ég óska sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra nýti smáhluta af andsvari sínu á eftir til að svara þeirri spurningu. Munu fiskeldisfyrirtæki og garðyrkjufyrirtæki fá rafmagn á sérkjörum á þessu ári eins og verið hefur á undanförnum árum?