131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:29]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hæstv. ráðherra er að tala um 2,5% hækkun er hæstv. ráðherra ekki að tala um þá hækkun sem íbúar koma til með að bera heldur einhverja aðra hækkun sem enginn skilur. Það sem máli skiptir fyrir íbúa á Suðurnesjum er að raforkuverð vegna þessara nýju raforkulaga hækkar um 20%. Það er sú nöturlega staðreynd sem fyrirtæki og einstaklingar þar standa frammi fyrir.

Varðandi sérkjörin sem hæstv. ráðherra talar um til Hitaveitu Suðurnesja þá vill þannig til að Hitaveita Suðurnesja keypti um 60–70% af rafmagni sínu af Landsvirkjun fyrir tveimur árum eða svo. Inni í því verði sem Hitaveitan greiddi fyrir rafmagn frá Landsvirkjun voru að sjálfsögðu inni jöfnunaraðgerðir eins og í öllum öðrum heildsölutöxtum frá Landsvirkjun.

Kannski er það séraðstaða hjá Hitaveitu Suðurnesja að hafa þurft, til að fá leyfi til að virkja í Svartsengi á þeim tíma sem nægur markaður var fyrir það rafmagn á Suðurnesjum, að selja nýja rafmagnið til stóriðju á allt öðru verði en hitaveitan var skyldug til að kaupa rafmagn á af Landsvirkjun á móti. Í raun fluttist ekkert rafmagn frá Suðurnesjum til neinnar stóriðju og ekkert rafmagn frá Landsvirkjun til Suðurnesja. Þetta var allt framleitt á staðnum. Eftir sem áður var Hitaveita Suðurnesja skikkuð til að selja til stóriðju á mjög lágu verði og kaupa af Landsvirkjun á mjög háu verði. Það eru sérkjörin sem Hitaveita Suðurnesja hefur haft í gegnum tíðina.

Varðandi fiskeldið og garðyrkjubændur þá mun ég að sjálfsögðu bíða eftir því að ráðherra fari yfir það í seinni ræðu sinni. Ég vonast til að hæstv. ráðherra geri það þá á íslensku svo að allir skilji og taki sérstaklega fram að hún sé þá að tala um krónur sem allir skilja, heilkrónur en ekki hálfkrónur. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að það var aumt að hlusta á hæstv. ráðherra tala um að 2,5% væru ekki sama og 2,5% og 20% ekki sama og 20%. Ég skil það ekki.