131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:36]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það hafa orðið ákveðin tíðindi hér í umræðunni. Það hefur komið fram að þetta hafi verið fyrirsjáanleg hækkun en það hefur hæstv. ráðherra sagt í andsvörum við formann míns ágæta flokks, Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, og það eru ákveðnar fréttir. Maður fer að hugsa sem svo: Hvað er að gerast pólitískt séð í Framsóknarflokknum? Er þetta hluti af nútímavæðingu flokksins, að hækka allt á landsbyggðinni, koma í veg fyrir að fólk geti t.d. nýtt sjávarauðlindina? Það er verið að hækka húshitunarkostnað. Er þetta sú framtíðarsýn sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sér og vill stuðla að á landsbyggðinni? (Gripið fram í: Tali hver fyrir sig.) Ég geri það. Þetta er eins og ég og margir aðrir sjá flokkinn nú orðið.

Það er mjög aumt að flokkur sem gefur sig út fyrir að vera landsbyggðarflokkur skuli ganga svona fram fyrir skjöldu og höggva í landsbyggðina með þessum hætti. Það er gusað yfir landsbyggðina og það kemur fram hjá ráðherranum að hækkunin hafi verið fyrirsjáanleg, tuga prósenta hækkun. Og nú kemur fram í umræðunni að eitthvað eigi að taka á þessu, það eigi að lækka þetta eitthvað.

En að öllum líkindum mun Framsóknarflokkurinn skella á landsbyggðina, á þá sem hita hús sín með raforku, á annan tug prósenta hækkun á rafmagnskostnaði. Það er mjög alvarlegt og ég tel að ungur og efnilegur þingmaður eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson eigi einmitt að hugsa um hvert flokkurinn er að stefna. Er þetta nútímavæðing Framsóknarflokksins? (Gripið fram í: Þetta er alveg hárrétt hjá honum.)

Auðvitað er mikið áhyggjuefni að Framsóknarflokkurinn skuli vera að leggja í þessa vegferð. Og hvað gerist síðan? Jú, ráðherrann sem var staddur hér fyrr í dag, hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson, (Gripið fram í.) heldur því fram að þeir sem eru að tala um verk Framsóknarflokksins séu að tala landsbyggðina niður. Við erum bara að ræða um gerðir og stjórnarathafnir Framsóknarflokksins í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þá erum við að tala landsbyggðina niður. Það er eins og við í stjórnarandstöðu eigum að þegja um verk þeirra, annars séum við að tala landsbyggðina niður. Þetta er alveg ótrúlegur málflutningur.

Ég hef átt viðræður við sveitarstjórnarmenn víða á landinu og sumir eru jafnvel flokksbræður þessara ágætu manna sem ég hef nefnt á nafn í ræðu minni. Þeir furða sig á verkum flokksins. (Gripið fram í: Hverjir eru það?) Það er með ólíkindum hvert flokkurinn stefnir — í vegferð sinni gegn landsbyggðinni. Við sjáum að rafmagnið þýtur upp, fiskeldisfyrirtækin og garðyrkjufyrirtækin standa frammi fyrir því að geta ekki greitt rafmagnsreikningana. Og það eru ekki bara þingmenn stjórnarandstöðunnar sem benda á að á þessu verði að taka, t.d. má lesa í viðtali við hv. þm. Drífu Hjartardóttur í Bændablaðinu að hún hafi áhyggjur af þessum málum. Þó svo að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hafi litlar áhyggjur þá hafa þingmenn í stjórnarliðinu vissar áhyggjur af nútímavæðingu Framsóknarflokksins þar sem atvinnulífi á landsbyggðinni er gert mjög erfitt fyrir. Þetta er visst áhyggjuefni.

En ég ætla að ljúka máli mínu á því sem nú er verið að ræða; að það verði engin hækkun í kerfinu. En staðreyndin er sú að það verður hækkun í kerfinu vegna þess að annars þyrfti ekki að sækja auknar niðurgreiðslur til ríkisins. Það er mergurinn málsins. Kerfið er einfaldlega að verða kostnaðarsamara, því þegar verið er að tala um 140 milljónir (Forseti hringir.) þá sér hvert mannsbarn að það stemmir ekki.