131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:01]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef við eigum að vera sjálfum okkur samkvæm á þetta allt að vera gegnsætt. Ég krefst þess að ráðherra uppfylli það vilyrði sem hún gefur hér um að þetta sé allt saman gefið upp, allar forsendur sem verið er að vinna eftir, bæði hjá Landsneti og hjá dreifiveitum, sem og gjaldskrárnar. Annars er hér ekki um gegnsæja þjónustu að ræða.

Ég vil síðan spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að breyta hugtakinu „þéttbýli“. Nú er af hálfu félagsmálaráðuneytisins skilgreint þéttbýli þar sem eru 50 íbúar en hér er skilgreint þéttbýli með 200 íbúa. Þetta er bara skilgreiningaratriði í þessum ramma.

Þá vil ég og spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé eðlilegt, eins og ráðherra sagði hér í upphafi máls síns í dag, að fyrirtækin hafi tekið inn m.a. verðlagshækkanir. Hún nefndi að ástæðan fyrir 2–3% hækkun væri vegna þess að þau hefðu tekið inn almenna verðlagsþróun. Ég get ekki séð (Forseti hringir.) að neinum fyrirtækjum sé heimilt að taka inn almenna verðlagsþróun sisona án þess að rökstyðja það.