131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:06]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan teljum við ekki í iðnaðarráðuneytinu að við séum úrskurðaraðili í sambandi við þessi mál, enda var þarna fyrst og fremst um umræðugrundvöll að ræða hvað varðar þetta tilboð sem þarna var til umfjöllunar á milli Landsvirkjunar og fiskeldisfyrirtækja. En ég greindi frá því hver hefði orðið niðurstaða Orkustofnunar í sambandi við það mál.

Mér finnst bara ósanngjarnt að halda því hér fram að það sé einhver hringlandaháttur í sambandi við þetta mál hvað varðar gjaldskrár og annað slíkt. Það er alveg ljóst að það eru fyrirtækin sem setja fram gjaldskrá sína en Orkustofnun þarf hins vegar að samþykkja hana. Við gátum ekki vitað fyrir fram hvernig gjaldskrá fyrirtækjanna mundi líta út og þess vegna gátum við ekki fyrir fram fullyrt um það hvert verð orkufyrirtækjanna yrði og hvert verð á raforku yrði í landinu hjá fyrirtækjunum. Það var ekki hægt að gera þá kröfu til okkar. Það eina sem við gátum talað um var hversu mikill viðbótarkostnaður væri í kerfinu, hvernig skilin yrðu (Forseti hringir.) milli flutnings og dreifingar og hvernig álögur (Forseti hringir.) breyttust varðandi fyrirtækin í sambandi við flutninga.