131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:09]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tel það stórmál hvernig þetta er unnið frá degi til dags nú í janúar. Auðvitað er það Alþingi til skammar að þetta skuli vera að gerast á þennan hátt sem það er að gerast, þ.e. kerfisbreytingin tekur gildi 1. janúar sl. og á þeim 27 dögum sem liðnir eru hefur ýmislegt verið að fara á haus eða hvolf í þessum málum vegna þess að ekki var búið að vinna undirbúningsvinnuna. Það var m.a. fyrir það hvað málið kom seint til Alþingis og að menn voru að vinna það hér alveg í spreng fram að jólum.

Ég tel stórmál, virðulegi forseti, þessa markmiðssetningu Orkuveitu Reykjavíkur með að setja þetta á 3,60 og að það skuli vera viðurkennt. Það er reyndar ekki búið, Orkustofnun hefur tvo mánuði til að fara yfir þetta. Mér finnst það mjög skrýtið, eins og ég hef áður sagt, að Orkuveita Reykjavíkur geti leitt þetta svona en Rarik sem er vítt og breitt um allt landið og ætti að mínu mati að hafa meiri dreifingarkostnað reiknar hann lægri. Þess vegna er spurningin þessi: Er eðlilega að málum staðið? Ég segi nei, virðulegi forseti.