131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:12]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég beindi meðal annarra þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra í dag hvernig hún sæi fyrir sér samruna fyrirtækja á orkumarkaði og síðar þá hvort það væri hluti af framtíðarsýn hennar og hugsjónum að hefjast handa við að selja þau. Hæstv. ráðherra hefur svarað því til að hún geti vel séð fyrir sér sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkuveitu Vestfjarða.

Því vil ég endurtaka síðari hluta spurningar minnar frá því fyrr í dag: Sér hún fyrir sér að hafin verði sala á þá sameinuðu fyrirtæki, eða ekki, þá í Landsvirkjun að öllu leyti eða hlut í fyrirtækinu á næstu missirum? Er það þáttur í framtíðarsýn ráðherrans í raforkumálunum að Landsvirkjun verði seld og þá kaup í fyrirtækinu jafnvel skilyrt við það að lífeyrissjóðirnir einir geti keypt eða hvernig því verði háttað? Hefur hæstv. ráðherra sett þetta niður fyrir sér og sér hún fyrir sér á næstu missirum að Landsvirkjun verði seld að hluta eða öllu leyti?