131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[18:13]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Það eru í sjálfu sér merkileg tíðindi, frú forseti, að hæstv. ráðherra lýsi því hér yfir að hún sjái fyrir sér að Landsvirkjun, ein eða sameinuð við önnur raforkufyrirtæki, verði gerð að hlutafélagi og seld síðan, í áföngum væntanlega, í framhaldi af því. Það var einmitt það sem við vorum að kalla eftir, hver er framtíðarsýn og hverjar eru hugsjónir stjórnvalda í þessum efnum, og það er þá komið fram. Við munum sjálfsagt ræða það betur hér síðar.

Ég vildi að lokum beina því til hæstv. ráðherra að algjörlega óviðunandi svör komu fram um málefni garðyrkjunnar og það uppnám sem virðist ríkja í þeirra búðum. Hæstv. landbúnaðarráðherra tók til fótanna út úr húsinu eftir að hafa farið í stutt andsvar um málið án þess að segja nokkuð sem hönd á festi um málefni garðyrkjunnar, og hæstv. iðnaðarráðherra hefur komið lauslega að því máli. Því vildi ég við lok þessarar umræðu fá á hreint hjá hæstv. ráðherra hvort vanda þeirra verði mætt og hvort þeim verði tryggt framhald á samningnum sem gerður var á sínum tíma.