131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vextir og verðtrygging.

41. mál
[18:25]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Frumvarpið hefur áður verið flutt á Alþingi en var ekki afgreitt úr nefnd.

Frumvarpið gengur út á að bæta við 1. mgr. 14. gr. laganna um vexti og verðtryggingu nýjum málslið sem orðist svo, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að breyta til hækkunar vöxtum á lánum sem eru verðtryggð.“

Þessu frumvarpi er ætlað að tryggja hagsmuni lántakenda með því að koma í veg fyrir að vextir verðtryggðra lána verði hækkaðir á lánstíma, samkvæmt einhliða ákvörðun lánveitanda eins og almennt tíðkast á íslenskum lánamarkaði. Gert er ráð fyrir að hægt sé að semja um lækkun vaxta en lagalegar skorður á hinn bóginn reistar við því að vextir verði hækkaðir.

Þetta frumvarp var boðað fyrir alllöngu síðan og nokkru áður en það leit dagsins ljós á Alþingi skrifaði ég blaðagrein, í ágúst árið 2001, undir fyrirsögninni „Fjármagnseigendur með belti og axlabönd“, nokkuð sem hæstv. bankamálaráðherra hreifst mjög af og vísaði oft til án þess þó að nokkuð væri aðhafst í málinu.

Lánveitendur hafa ýmis ráð til að tryggja fjármagn sitt og eru aðallega farnar tvær leiðir. Annars vegar að hafa breytilega vexti á lánunum þannig að hækki verðbólga á lánstímanum þá hefur lánveitandinn tök á því að hækka vextina og mæta þannig verðbólgunni. Hin leiðin er verðtrygging, að verðtryggja lánið eins og hér hefur reyndar tíðkast allar götur frá 1979. Verðtryggingin var notuð sparlega framan af en varð síðan hið almenna form. Verðtrygging hefur verið meira notuð hér á landi en víðast hvar annars staðar en þó hefur henni verið beitt í Argentínu, Brasilíu, Chile, Ísrael og víðar. Reyndar var það svo í Bretlandi um tíma að verðtrygging var notuð á ýmsum sviðum til þess að reyna að ná vaxtakostnaði niður og af löndum þar sem skuldabréf hafa verið verðtryggð má nefna Bretland, Svíþjóð, Frakkland, Ástralíu, Kanada og Bandaríkin þannig að verðtrygging hefur vissulega víða verið notuð.

Árið 1998 var gerð könnun á því á vegum viðskiptaráðuneytisins hver munur væri á raunvöxtum verðtryggðra lána annars vegar og óverðtryggðra hins vegar. Könnunin leiddi í ljós að að jafnaði hefðu raunvextir verið 2% lægri á verðtryggðum lánum en óverðtryggðum. Þess vegna hafa ýmsir viljað fara varlega í að heimta einhliða bann gegn verðtryggingunni vegna þess að það gæti þá orðið til þess að raunvextirnir hækkuðu. Hins vegar kemur það fram í skýrslunni jafnframt að eftir því sem verðlag verður stöðugra til lengri tíma dragi úr þessum mun á verðtryggðum lánum og óverðtryggðum hins vegar. Þetta er náttúrlega það sem hefur verið að gerast hér á landi í seinni tíð, allar götur frá því í byrjun 10. áratugarins, að við höfum búið við mun tryggara eða meiri stöðugleika en á áratugunum tveimur þar á undan og varð þess valdandi að verðtryggingin var tekin upp.

Verðtrygging er slæm að ýmsu leyti vegna þess að hún virkar í raun aftur í tímann. Það er í raun verið að hækka lán og taka ákvörðun sem vísar aftur í tímann. Skuldarinn er ekki aðeins í hættu vegna verðbólguþróunar heldur stendur honum einnig ógn af duttlungum lánardrottins síns sem hefur það í hendi sér að hækka skuldbindingar hans.

Þess vegna er þetta sett fram. Jafnframt er vakin athygli á því í greinargerð sem fylgir frumvarpinu að æskilegt sé að taka verðtryggingarmálin til rækilegrar skoðunar og ekki síst í ljósi þess að munurinn á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána hefur farið síminnkandi, eins og ég nefndi áður.

Hér segir í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er að taka verðtryggingu lána til endurskoðunar með hagsmuni lántakenda ekki síður en lánveitenda í huga en svo virðist sem hagur fjármagnseigenda sé jafnan hærra metinn þegar þessi mál hafa komið til álita. Þeirri forgangsröðun þarf að breyta.“

Mál þessi eru að sönnu flókin og ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Verðtryggð lán hafa að jafnaði lægri raunvexti en óverðtryggð lán en síðan er á hitt að líta, að þau hlaða meira á sig. Verðtryggðu lánin hlaða meira á sig þannig að þegar upp er staðið greiðir lánatakandinn meira fyrir verðtryggða lánið en hitt sem er óverðtryggt. Á móti kemur að með því móti að verðtryggja lánið og halda vöxtunum lægri er honum hugsanlega gert kleift að takast á við skuldbindingar sínar. Þannig er svolítið mótsagnakennd staða uppi.

Ég mælist til þess að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins og við fáum það síðan aftur í þingsalinn og getum afgreitt það, vonandi sem landslög.