131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Vextir og verðtrygging.

41. mál
[18:33]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Nú er aðeins farið að kvölda í þingsal. Ég sá ekki betur en hæstv. ráðherra bankamála gengi úr salnum þegar umræðan hófst. Það er kannski lítið við því að segja. Við erum farin að venjast því, þegar rætt er um þingmannafrumvörp frá stjórnarandstöðunni, að þá sjái yfirleitt í iljarnar á hæstv. ráðherrum.

Ég vil byrja á að þakka hv. flutningsmanni, Ögmundi Jónassyni, fyrir að vekja athygli á þessu máli með því að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Hér er lagt til að óheimilt verði að breyta til hækkunar vöxtum á lánum sem eru verðtryggð, síðar á lánstímanum.

Það er í raun ótrúlegt að á lánamarkaði skuli leyfast að bjóða einstaklingum upp á það, ef þeir ætla að taka lán til lengri tíma, að lánastofnun fái tvær tegundir af tryggingum fyrir því að lánið rýrni ekki að verðmæti á lánstímanum. Verðtryggingin er hugsuð til þess að tryggja lánastofnuninni að lánið haldi raungildi sínu þrátt fyrir verðbólgu og ekki skýrt í því sambandi hvað verðbólgan verður mikil. Í öllum tilvikum fylgi lánið eða eftirstöðvar þess verðbólgunni og rýrni ekki að raungildi hennar vegna.

Til viðbótar verðtryggingunni bera lánin síðan vexti sem maður hefði haldið að nægði að væru fastir þar sem verðtryggingin sér um að halda raungildi lánsins. En svo er ekki í flestum tilvikum. Lánastofnanir hafa áskilið sér rétt til að breyta þessum vöxtum einhliða síðar á lánstímanum, jafnvel þrátt fyrir að lánið hafi hækkað verulega að krónutölu vegna verðtryggingar.

Eins og fram hefur komið hjá hv. flutningsmanni frumvarpsins, Ögmundi Jónassyni, þá tíðkast það varla í siðmenntuðum löndum heimsins að halda á málum með þessum hætti. Ég blæs á þau rök sem heyrst hafa úr viðskiptaráðuneytinu að milli bankanna og einstaklinga sem eru lántakendur sé eðlilegt samningssamband og einstaklingarnir geti samið að vild um kjör á lánum sínum. Í þessu samtryggingar- og samráðsþjóðfélagi okkar er það alls ekki svo. Við höfum á undanförnum vikum séð tilburði hjá bönkunum til að stunda samkeppni um langtímalán til einstaklinga til húsnæðiskaupa. En lengst af hefur ástandið verið annað. Einstaklingum hafa staðið til boða svipuð kjör hjá bönkum, vilji þeir taka lán, og í fæstum tilvikum er viðskiptavinur bankans í stöðu til að setja fram samningskosti. Þeir sem halda öðru fram lifa í allt annarri veröld en þorri landsmanna. Aðgengi að lánsfé hefur batnað verulega en möguleikar til að semja um kjör á almennum bankalánum ekki.

Eðlilegt er að ef um óverðtryggð lán er að ræða þurfi bankar og aðrar lánastofnanir að tryggja hagsmuni sína og minnka áhættu með ákvæðum um heimild til að endurskoða vexti. En að það tíðkist einnig í verðtryggðum viðskiptum er að mínu viti siðleysi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að vextir og verðtrygging á verðtryggðum lánum séu samtals lægri en vextir óverðtryggðra lána. Auðvitað væri það eðlilegast, jafnvel þótt ekki væru inni ákvæði um breytilega vexti til viðbótar verðtryggingunni.

Í greinargerð segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Athuganir hafa verið gerðar á raunvaxtabyrði óverðtryggðra lána annars vegar og verðtryggðra lána hins vegar. Niðurstöðurnar hafa allar verið á einn veg. Raunvaxtabyrði verðtryggðra lána er minni en óverðtryggðra. Í skýrslu sem nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins birti í október árið 1998 segir m.a.: „Í fyrsta lagi veldur áhættuálag sem fjárfestir krefst vegna verðbólgu því að raunvextir óverðtryggðra skuldbindinga verða hærri en verðtryggðra. Verðtrygging veldur því að lánveitandinn losnar við verðbólguáhættu. Hér á landi sýnir reynslan að á þessum áratug hafa raunvextir verðtryggðra lána verið að meðaltali um 2% lægri en raunvextir óverðtryggðra útlána …“.“

Það vekur athygli mína að þarna er vitnað til sjö ára gamallar skýrslu. Ég veit ekki til að önnur skýrsla af þeirri gerð hafi verið gerð á síðasta áratug. Þessi skýrsla segir okkur því lítið um það hvernig þessum málum er háttað í dag. Ég hef undir höndum útreikninga sem bera saman kjörvexti óverðtryggðra skuldabréfa saman við vexti og verðtryggingu verðtryggðra lána síðustu tíu ár. Þeir byggjast á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands um kjörvexti banka og sparisjóða, ásamt opinberum tölum um verðbólgu frá einum tíma til annars. Þeir útreikningar sýna að á síðustu tíu árum hafa raunvextir, þ.e. vextir og verðbætur af verðtryggðum lánum, verið mun hærri en vextir óverðtryggðra lána. Þetta er algjörlega óskiljanlegt, að lánastofnanir leyfi sér að ákveða vexti sína þannig að lán sem bera mun minni áhættu beri meiri raunvaxtabyrði en þau sem áhættumeiri eru.

Bankarnir skáka væntanlega í því skjóli að erfitt er að bera þetta tvennt saman. Því er full ástæða til að fram fari á þessu óvilhöll úttekt sem taki af öll tvímæli um þessa þróun. Það er mér reyndar óskiljanlegt að í hinum óskaplega stöðugleika ríkisstjórnarinnar skuli menn sem lofa hann og prísa samt telja nauðsynlegt að verðtryggja alla skapaða hluti, ekki bara lán sem tekin eru hjá lánastofnunum heldur líka ýmis gjöld og skatta sem ríkið tekur af þegnum sínum eins og margoft kom í ljós í umræðum á Alþingi um gjaldskrárhækkanir ríkisins sem rigndi yfir okkur fyrir síðustu áramót.

Frumvarpið hér er lagt fram er til bóta fyrir almenna lántakendur sem hafa þurft að hlíta afarkostum lánastofnana um tvenns konar tryggingar á lánum sem verðtrygging tryggir að fullu. Það tekur hins vegar ekki á því hvort nauðsynlegt sé að verðtryggja lán og ekki heldur á þeim raunveruleika að verðtryggð lán geti á stundum borið hærri fjármagnskostnað en óverðtryggð. Þetta þarf að taka til skoðunar hið fyrsta og bregðast við þeirri óbilgirni sem þarna kemur fram.

Í lok máls míns minni ég á þingsályktunartillögu sem liggur fyrir á þessu þingi sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður að auk mín og tíu annarra þingmanna Samfylkingarinnar, um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum. Tillagan gerir ráð fyrir að Alþingi feli hæstv. viðskiptaráðherra að skipa nefnd sem leggi mat á afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum í áföngum. Ég vona að sú þingsályktunartillaga okkar fái þinglega meðferð en dagi ekki uppi eins og á undanförnum þingum. Það hlýtur að vera í lagi að skoða möguleika þess að afnema verðtrygginguna, alla vega eigum við ekki að byggja álit okkar og ákvarðanir í því máli á eldgömlum skýrslum sem ekkert gildi hafa í dag.

Vonandi hefur hæstv. viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir í sér þann manndóm, eða á ég að segja kvendóm, að setja slíka athugun af stað hið fyrsta. Við verðum að skoða í alvöru þann möguleika að leggja af verðtryggingu lána með öllu.