131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Atvinnuréttindi útlendinga.

47. mál
[18:42]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef kosið að tala fyrir báðum þessum frumvörpum í einu lagi. Þau eru það skyld. Þessi mál er að finna á þingskjölum 47 og 48. Þau varða annars vegar breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002 og hins vegar breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002.

Málin voru bæði lögð fram á Alþingi á síðasta löggjafarþingi, 130. löggjafarþingi. Hv. þm. Atli Gíslason fór þá fyrir frumvörpunum. En þar sem hann á ekki sæti á þingi núna, enda var hann varaþingmaður fyrir mig á þeim tíma, hef ég tekið að mér að flytja þessi frumvörp ásamt öðrum háttvirtum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég ætla að hefja mál mitt með því að líta í greinargerð fyrir málið um atvinnuréttindi útlendinga. Það mál varðar atriði sem að mati flutningsmanna veruleg þörf er á að gera bragarbót á og þótt fyrr hefði verið. Þessum frumvörpum er báðum ætlað að taka á alvarlegustu göllunum á núgildandi lögum um útlendinga og réttindi þeirra.

Í núgildandi lögum er tímabundið atvinnuleyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Já, atvinnuleyfið er veitt atvinnurekanda. Að mati þeirra sem flytja þessi frumvörp er þar um að ræða einhvers konar vistarband útlendings í anda átthagafjötra fyrri alda. Okkur þykir það alls ekki samrýmast mannréttindahugsun eða hagsmunum nútímans. Í krafti atvinnuleyfisins er atvinnurekanda veitt staða húsbónda gagnvart hjúum Komi til starfsloka útlendings með tímabundið atvinnuleyfi vofir ekkert yfir honum annað en brottvísun af landinu.

Það er reynsla stéttarfélaga að útlendingar í þessari stöðu neyðist oftar en ekki til að sætta sig við alvarleg brot á kjarasamningum og ráðningarsamningum, bæði hvað laun varðar og önnur starfskjör. Það er vitað að þeir leita sjaldan til stéttarfélaga og vilja sem minnst gera úr mismununinni hafi stéttarfélagið frumkvæði að því að kanna launakjör þeirra og stöðu að öðru leyti. Fréttir af þessu tagi heyrum við orðið í útvarpi og sjónvarpi með reglulegu millibili, með þeirri breytingu sem er að verða á íslenskum atvinnumarkaði, þar sem útlendingum fjölgar svo um munar, heyrum við sögur af þessu tagi æ oftar.

Með frumvarpinu er tímabundið atvinnuleyfi skilgreint á nýjan leik þannig að það er miðað við að tímabundið atvinnuleyfi sé veitt útlendingnum sjálfum en ekki atvinnurekandanum og að leyfið sé miðað við ráðningu til starfa í tiltekinni starfsgrein en ekki í tiltekið starf eins og nú tíðkast. Um þetta atriði fjallar a-liður 2. gr. þessa frumvarps, þ.e. hér er um að ræða 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna.

Með b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að útlendingur með tímabundið atvinnuleyfi geti ráðið sig til starfa hjá nýjum atvinnurekanda komi til starfsloka hjá þeim fyrri burtséð frá ástæðum starfsloka. Þessi breyting tryggir réttarstöðu útlendings gagnvart atvinnurekanda sem hann hefur upphaflega ráðist til starfa hjá.

Þá er lögð til breyting á 2. mgr. 11. gr. sem hefur þann tilgang að taka á vandamálum sem komið hafa upp í tengslum við það þegar útlendingar hafa komið til landsins og fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sambúðar eða samvistar við íslenskan ríkisborgara. Það gefur augaleið eða er svo sem ljóst að hér er fyrst og fremst um konur að ræða og við viljum vekja sérstaka athygli á því að það er mjög brýnt að þetta atriði nái fram að ganga og að breyting sú sem hér er lögð til verði að veruleika. Þessi breyting mundi veita heimild til að víkja frá skilyrðum um tímalengd hjúskapar, sambúðar eða samvistar ef til skilnaðar kemur og ef rekja má skilnaðinn til ofbeldis maka útlendingsins.

Hæstv. forseti. Allt of mörg dæmi eru um að erlendar konur hafi sætt ofbeldi í hjónabandi. Komi til skilnaðar eru þeim flestar bjargir bannaðar og dæmi eru um að makar þeirra hafi jafnvel notfært sér þessa stöðu kvennanna með því að gera þeim ljóst að sambúðarslit leiði sjálfkrafa til brottvísunar úr landi. Má því segja að konunum sé þannig haldið í gíslingu, haldið nauðugum í viðkomandi hjónabandi eða sambúð. Margar þessara kvenna hafa ekki að neinu að hverfa í heimalandi sínu þar sem þær hafa við flutning til Íslands oft og tíðum brennt allar brýr að baki sér. Þessar aðstæður eru óviðunandi og fullkomlega ómannúðlegar, sérstaklega þegar horft er til þess að umræddar konur búa við ofbeldi maka sinna. Þess má einnig geta að allt að 14% kvenna sem leita til Samtaka um kvennaathvarf og Stígamóta eru af erlendu bergi brotnar, en þær munu samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar trúlega vera — þess er getið hér í greinargerð — 3,75% af öllum konum búsettum á Íslandi. Leiða má getum að því að fleiri þeirra hafi þörf fyrir aðstoð en leiti hennar. Það má segja að vanþekking þessara kvenna á réttarstöðunni sé líka alvarlegt vandamál og þær leita hennar oft og tíðum ekki vegna þess að þær óttast að þeim verði vísað úr landi við það eitt að gefa sig fram. Sjálfsagt og eðlilegt er að veita konum sem þannig er ástatt um dvalarleyfi og síðar búsetuleyfi á Íslandi og það er líka sjálfsagt og eðlilegt að tryggja framfærslu þeirra, sjúkratryggingu og húsnæði með félagslegum atbeina eða öðrum fullnægjandi hætti. Þannig er jafnrétti fyrir lögum, vernd gegn mismunun og félagslegt öryggi tryggt í anda alþjóðasamnings nr. 10/1979, um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Þá vík ég að breytingum er varða lögin um útlendinga. Það sem ég hér hef rakið varðaði lögin um atvinnuréttindi útlendinga. Það atriði sem ég fjallaði síðast um, þ.e. vandamálin sem komið hafa upp í tengslum við það þegar útlendingar hafa komið og fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og vilja síðan skilja við maka sinn vegna ofbeldis, kallar á breytingu á 15. gr. laganna um útlendinga þannig að ég mun ekki endurtaka það sem ég hef sagt áður um það atriði. En það vill svo til að það atriði er í báðum lögunum og þarf þess vegna að breyta báðum lögunum til þess að fullnægjandi sé.

En önnur tvö atriði, má segja, eru í þessu frumvarpi okkar á þingskjali 48 og þau lúta að útlendingum eða varða öllu heldur niðja útlendings sem hefur flust til landsins og mun ég vitna í greinargerðina eins og hún kemur fyrir á þingskjali 48.

Útlendingar gegna veigamiklu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem hefur ríka þörf fyrir starfskrafta þeirra eins og kunnugt er og æ ríkari eftir því sem tímar líða. Gegna þeir að mörgu leyti lykilhlutverki í fiskvinnslu, á sjúkrahúsum og í ýmsum þjónustustofnunum. Þá hafa útlendingar auðgað menningarlíf okkar og skapað fjölbreytni, kannski þá fjölbreytni sem öllum þjóðum er nauðsynleg, og hefur víða um land mátt merkja þennan fjölbreytileika með t.d. menningarhátíðum sem haldnar eru orðið í landsfjórðungunum má segja. Þrátt fyrir að útlendingar skipti miklu máli fyrir efnahag og menningu þjóðarinnar er það mat okkar sem flytjum þessi frumvörp að þeir séu ekki virtir að verðleikum í íslenskri löggjöf. Má jafnvel halda því fram að þeim sé tekið sem óvelkomnum gestum og að þeim séu að hluta til búin dvalarskilyrði á Íslandi sem standast varla mannréttindi. Frumvarpi þessu er ætlað að taka á alvarlegum ágöllum og gerir það ráð fyrir að breyting verði á 13. gr. núgildandi laga um útlendinga, en í henni er kveðið á um heimild til að veita aðstandendum útlendings sem stundar vinnu á Íslandi dvalarleyfi. Aðstandendur í skilningi ákvæðisins eru maki, sambúðarmaki, samvistarmaki, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali og á þeirra framfæri. Lögin áskilja að framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt. Þegar niðji útlendings nær 18 ára aldri verður hann hins vegar að uppfylla sjálfur skilyrðin um að framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt til að fá dvalarleyfi en ella að flytja af landi brott. Ungmennið verðum með öðrum orðum að stunda vinnu eða sýna fram á með bankainnstæðum að 12 mánaða framfærsla sé tryggð til að fá dvalarleyfi. Hæstv. forseti. Það segir sig sjálft að fæst þessara ungmenna hafa slík fjárráð og séu ungmennin í skóla liggur ekki annað fyrir þeim en að hætta skólagöngu og jafnvel að flytja af landi brott frá sínum nánustu aðstandendum. Þeim er með öðrum orðum mismunað með óboðlegum hætti. Sama gildir ef um búsetuleyfi er að ræða.

Annar blettur á löggjöfinni er lítt sveigjanleg afstaða til þess hvernig má sýna fram á að framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt. Gildir það bæði um niðja sem aðra aðstandendur útlendings sem fengið hefur dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi. Dæmi eru um að útlendingar hafi veigrað sér við að leita félagslegrar aðstoðar og jafnvel upplýsinga þótt þeir hafi verið í brýnni þörf og jafnvel talið að með því að móttaka húsaleigubætur og fleiri opinberar greiðslur ættu þeir á hættu að verða vísað úr landi. Eðli máls samkvæmt ætti staðfest yfirlýsing útlendingsins, foreldris eða framfæranda, að nægja gagnvart niðjum og öðrum nánum aðstandendum í skilningi 13. gr. laganna. Og jafnsjálfsagt er að lögin heimili það þegar sérstaklega stendur á að framfærslan sé tryggð með félagslegri aðstoð eða öðrum fullnægjandi hætti. Til þess að leiðrétta þetta leggjum við til breytingu í 2. gr. þessa frumvarps, breytingu við 15. grein laganna um útlendinga.

Með frumvarpi þessu, virðulegi forseti, fylgir sem fylgiskjal bréf frá Stígamótum, Kvennaathvarfinu, Félagsþjónustunni í Reykjavík, Rauða krossi Íslands og Alþjóðahúsinu sem afhent var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hinn 4. febrúar 2004. Í bréfinu er fjallað um réttarstöðu erlendra kvenna hér á landi, einkum vandamál sem tekin eru upp í frumvarpi þessu, en einnig um skort á upplýsingum til þessara kvenna um réttarstöðu þeirra. Það má segja að þar sem bréfið fylgir sem fylgiskjal í báðum frumvörpunum þá nægi mér að vísa til þess um frekari rökstuðning fyrir þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í þessum frumvörpum en þær varða, eins og ég sagði áður, verulega réttarbót fyrir útlendinga á Íslandi.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar til umfjöllunar.