131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:06]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við tökum fyrir á ný frumvarp til vatnalaga sem er eitt þeirra viðamiklu mála sem koma til kasta Alþingis á þessu þingi. Annað mál sem er einnig viðamikið og þarf jafnítarlega umfjöllun og vatnalögin er lagafrumvarp sem við ræddum fyrir jólin um auðlindir í jörðu. Þriðja frumvarpið sem ég vil nefna og er kannski hluti af þeim lagabálki sem hér um ræðir er væntanlegt vatnsverndarfrumvarp sem boðað er í því frumvarpi sem við ræðum nú.

Ég mótmælti því í fyrri ræðu minni í þessari umræðu, hæstv. forseti, að málin væru ekki lögð fram saman þannig að þingheimur hefði tækifæri til að fjalla um þau í einu lagi því svo tengd væru þau. Þá gagnrýndi ég sömuleiðis í fyrstu ræðu minni að hæstv. umhverfisráðherra skyldi ekki vera til staðar þegar við ræddum þetta mál en nú fagna ég því að hæstv. umhverfisráðherra skuli vera komin og ég treysti því að hæstv. ráðherra taki virkan þátt í umræðunni og geri þingheimi ljóst hvers vegna vatnsverndarfrumvarp er ekki lagt fram til hliðar við það frumvarp sem hér liggur.

Það er alveg ljóst að tilskipun Evrópusambandsins, svokölluð vatnatilskipun sem getið er í greinargerð með frumvarpinu, kemur til með að hafa töluverð áhrif á lagasetningu og meðferð þeirrar dýrmætu auðlindar okkar á Íslandi sem okkur hefur verið falin í svo ríkum mæli. Það er því alveg nauðsynlegt að þingheimur viti hvert stefnir í þeim efnum áður en málið er afgreitt í nefnd. Það er nauðsynlegt að málin fylgist að. Það verður að tryggja að bæði frumvörpin komi til kasta hv. umhverfisnefndar þingsins svo ekki sé hægt að túlka það sem svo að einkarétturinn eða nýtingarrétturinn á vatninu sé skilgreindur eingöngu sem málefni sem eigi að heyra undir iðnaðarnefnd. Ég held því að hæstv. umhverfisráðherra hljóti að láta heyra frá sér í umræðunni, hver sjónarmið hennar að þessu leyti séu og e.t.v. hvenær væntanlegt vatnsverndarfrumvarp verði lagt fram.

Hæstv. forseti. Í umræðunni fyrir helgina var gagnrýnt að ekki væri gerð grein fyrir ákveðnum þáttum í vatnatilskipuninni og í því sem er í farvatninu í greinargerð með frumvarpinu. Þar voru nefndir þættir eins og umhverfisréttur og tengsl þessa máls við umhverfisrétt, vatnsveitur sveitarfélaga og holræsi og sömuleiðis var nefnd almenn náttúruvernd sem lýtur að vatnsverndarmálum.

Þegar auðlindanýting er skoðuð þarf að huga að tvennu: Annars vegar rétti manna til nýtingarinnar, leyfisveitingum og því praktíska ferli sem fer í gang og sömuleiðis að skyldum okkar gagnvart náttúruverndarlögum. Nýtingarréttinn getum við aldrei skoðað sem afmarkað eða einangrað fyrirbæri. Við þurfum að skoða hann í samhengi við þau markmið sem við höfum sett okkur varðandi náttúruvernd. Greinargerðin með frumvarpinu gefur ekki til kynna að slíkt hafi verið gert í ríkisstjórn áður en lagafrumvarpinu var hleypt áfram. Það er alveg ljóst að nýtingarsjónarmiðin eru afar einhliða og ganga í raun út frá því að náttúruverndarlögin þurfi ekki að hafa veruleg áhrif.

Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að framganga hæstv. iðnaðarráðherra í þeim efnum væri sambærileg við framgönguna í frumvarpinu um auðlindir í jörðu þar sem við, hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gagnrýndum að verndarþátturinn og umhverfisþátturinn væru ekki teknir inn í það frumvarp. Ég skil því ekki af hverju hæstv. ráðherra leyfir sér að brenna sig á sama soðinu í þessu frumvarpi sem er náskylt eða af svipuðum toga þar sem leiðsögnin úr umræðunni fyrr í vetur hefði getað orðið til þess að gerð yrði bragarbót á.

Sömuleiðis má nefna í þessu sambandi örlög rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um vatnsföll og jarðvarma. Við höfum gagnrýnt að þar virðist hæstv. iðnaðarráðherra ætla að líta á rammaáætlunina og þá miklu vinnu sem að baki henni liggur eingöngu sem plagg sem eigi að hafa til hliðsjónar við nýtingu og minna sé gert úr verndarþættinum. Í því skyni að breyta þeirri áætlun höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram þingsályktunartillögu í þessum sölum um að forræði rammaáætlunarinnar verði tekið úr höndum hæstv. iðnaðarráðherra og sett í hendur umhverfisráðherra því okkur finnst vera nóg um ásælni iðnaðarráðuneytisins í þann málaflokk sem skarast svo áberandi á milli nýtingar annars vegar og verndar hins vegar.

Ég hef sömuleiðis leyft mér að gagnrýna hæstv. umhverfisráðherra úr þessum stóli fyrir að hafa það helst til málanna að leggja í þessum efnum að nýting og vernd hljóti að geta farið saman. Ég tel því afar mikilvægt að þær fullyrðingar hæstv. umhverfisráðherra verði skýrðar nánar út í umræðunni og beinlínis spurt á hvern hátt hæstv. ráðherra umhverfismála sjái nýtingarþáttinn og verndarþáttinn fara saman hönd í hönd þegar vatnsnýting og vatnsvernd eru annars vegar. Það er grundvallaratriði málsins. Hvernig ætlar núverandi ríkisstjórn að vefa saman þessa tvo veigamiklu þætti? Það hefur henni ekki tekist hingað til. Henni hefur satt best að segja tekist afar óhönduglega í þeim efnum hingað til. Hér hafa staðið háværar deilur aftur og aftur um nýtingarstefnu núverandi ríkisstjórnar sem er gersamlega að því er virðist sneydd allri tilfinningu fyrir veigamiklu vægi verndarþáttarins. En nú fáum við tækifæri til þess að ræða þessi mál ofan í kjölinn við þá tvo ráðherra sem hér eru staddir og fara með þessa málaflokka og er von til þess að hæstv. ríkisstjórn geti skýrt stefnu sína í þessum málum umfram það sem hún hefur getað gert hingað til.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði í ræðu sinni þegar hún fylgdi málinu úr hlaði — í seinni ræðu sinni sagði hún reyndar að hún teldi ekki tilefni til að gera jafnmikið mál úr þessu og við þingmenn sem hér höfum talað höfum gert — að um einfaldan nýtingarþátt væri að ræða og hún vildi ekki gera svo mikið úr þessu tali um verndarþáttinn eða skörun við umhverfisnefndina, málefni umhverfisráðuneytis og stofnana umhverfisráðuneytisins. Ég taldi hæstv. iðnaðarráðherra hafa reynt að koma sér hjá því að svara þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hana. (Iðnrh.: Ég fékk ekki að tala.) Hæstv. ráðherra kallar fram í að hún hafi ekki fengið að tala. Vissulega er rétt að umræðunni var frestað eins og menn muna eftir talsverð átök í þessum stóli, en gott að vita til þess að hæstv. ráðherra hafi punktað hjá sér þær fyrirspurnir sem lagðar voru fyrir hana í þeim ræðum sem fluttar voru og ég geri ráð fyrir að hún komi í ræðustól á eftir og svari þeim spurningum.

Ein þeirra spurninga sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra varðaði útskýringu á markmiðsgrein frumvarpsins en markmið laganna á samkvæmt henni að vera með beinni tilvitnun í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Í þessu sambandi langar mig að vita hvernig hæstv. iðnaðarráðherra skilgreinir þessa lýsingu, sérstaklega vantar í greinargerð með frumvarpinu hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar varðandi sjálfbæra nýtingu vatns og ekki óeðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra taki sömu spurningu til sín, þ.e. á hvern hátt sér hæstv. umhverfisráðherra að vatnsnýting verði sjálfbær, hvaða skilning leggur hún í það hugtak, sjálfbær vatnsnýting, og á hvern hátt hyggjast þessir tveir hæstv. ráðherrar tryggja að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar fái einhverju ráðið um vatnsnýtingu á Íslandi í framtíðinni?

Hæstv. forseti. Verið er að breyta lögum frá 1923, vatnalögum sem hafa staðið fyrir sínu í gegnum tíðina. Ég er ekki að mótmæla því að þeim verði breytt en ég hvet til þess að það verði gert að vel yfirlögðu ráði og að umhverfisnefnd Alþingis fái að fjalla um málið ásamt þeim nefndum þingsins sem málið heyrir undir.