131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:16]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður fagna hér viðveru hæstv. umhverfisráðherra sem af eðlilegum orsökum var ekki við fyrri hluta umræðunnar sem skýrist af því hvaða mál var sett á dagskrá þingsins.

Ég held að það alvarlegasta í því frumvarpi sem við sjáum nú sé tvennt. Annars vegar er breytingin á eignarréttarskilgreiningu í vatnalögunum. Ég rakti það nokkuð ítarlega síðast og notaði held ég meira en helming af ræðutíma mínum þá til að fara í gegnum það mál með vonandi einhverjum árangri sem ég kem að síðar og ætla ekki að verja þeim takmarkaða tíma sem ég á hér eftir til þess arna. Hitt held ég að sé að með þessum lögum, ef frumvarpið verður að lögum, gerist það í íslenskri löggjöf að grunnvatn, sem áður og eins og staðan er núna er í raun og veru utan við almenna löggjöf, verður fært undir valdsvið iðnaðarráðuneytisins og yfirmanns þess, þ.e. iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, skrifstofu iðnaðar- og viðskiptaráðherra. (Iðnrh.: Getur þingmaðurinn talað hærra?)

Forseti. Það er stundum þannig að óskað er eftir að maður tali hærra en það er engin hljóðmögnun hér í salnum og stundum vill maður bara tala á eðlilegum bæði hraða og magni. Ég beini því til forseta að láta athuga þetta, að okkur sem greinilega liggur lágt rómur, að við fáum bara að hafa okkar eðlilega hátt á því. En ég skal reyna að tala aðeins hærra fyrir þá sem eru að hlusta því að það er auðvitað virðingarvert að menn geri það.

Það er sem sé í fyrsta sinn verið að koma grunnvatninu fyrir í almennum lögum og þá er það sett til hæstv. iðnaðarráðherra og undir stjórnsýslu Orkustofnunar. Það er sérkennilegt og ég segi alveg hiklaust að það sé óeðlilegt að gera það. Þau apparöt sem hér er um að ræða eru stjórnsýslutæki atvinnumálaráðuneytis og það er síður en svo neitt ljótt við það að atvinnumálaráðuneyti séu til, en atvinnumálaráðuneyti fjalla auðvitað fyrst og fremst um atvinnumál. Þau búa við ákveðin hagsmunatengsl við þær atvinnugreinar sem þau eiga við og stjórnsýslustofnanirnar gera það einnig.

Orkustofnun gengur nú í gegnum breytingar sem vonandi eiga eftir að reynast henni jákvæðar en forsaga stofnunarinnar og hefðir þar eru auðvitað þannig að Orkustofnun hefur verið að eiga við orkumál og orkuvinnslu en ekki hugað að umhverfismálum, það hefur verið annarra að gera það, og Orkustofnun hefur ekki hugað að almennri auðlindanýtingu eða stjórnun á t.d. grunnvatninu. Það er eðlilegt að í Orkustofnun og iðnaðarráðuneytinu sé yfirstjórn orkumála, orkulinda, en ekki almennra náttúruauðæfa.

Þannig háttar til eftir að umhverfisráðuneytið varð til hér á landi í kringum 1990 að nú eru lífrænar auðlindir, ef við búum til það orð af því að hér er um að ræða jarðrænar auðlindir í frumvarpi á þinginu, undir umhverfisráðherra. Þær eru í stjórnsýslu Umhverfisstofnunar og á rannsóknarsviði Náttúrufræðistofnunar. Það er ekkert náttúrulögmál, það er ekki úr Mósebókunum, það var ekki samþykkt á Alþingi hinu forna að hinar jarðrænu auðlindir, sem svo eru kallaðar, væru undir iðnaðarráðherra. Þvert á móti er eðlilegt að það sé umhverfisráðuneytið og stofnanir þess, umhverfisstofnanir, sem fjalli einnig um hinar jarðrænu auðlindir og auðvitað alveg sérstaklega vatnið.

Má ég svo segja að það sem iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd, sem væntanlega fær þetta mál líka — ég geri fastlega ráð fyrir því að henni verði sent málið til umfjöllunar — þurfa að fara sérstaklega í gegnum og er ekki skýrt í greinargerðinni, og mætti reyndar gera og hefði átt að gera, er það hvaða reglur gilda í öðrum löndum. Og það sem þarf enn að gera í þessum tveimur nefndum er að fara í gegnum vatnatilskipun Evrópusambandsins sem er ekki heldur skýrð í greinargerðinni þó að á hana sé minnst með þeim hætti að við eigum ekki að taka mark á henni eða sem allra minnst.

Ég held að í nálægum löndum og í vatnatilskipun Evrópusambandsins sé lögð áhersla á að vatnið sé sameign þjóðarinnar, vatnið sé sameign manns og alls lífs og sé þannig komið fyrir og eigi að koma þannig fyrir í stjórnskipan landanna að forgangur að vatninu hljóti að vera hin eðlilega vatnsþörf mannsins og lífríkisins og í þriðja lagi komi síðan, þegar búið er að afgreiða þetta, en vatn er núna eitt af helstu átakaefnum um alla heimsbyggðina, að orkumálum og annarri nýtingu vatns í atvinnurekstri. Ég ætla ekki nema stuttlega að geta um vatnsfallslögin í Noregi sem snerta þetta líka. Þar hygg ég að þetta sé þannig um vatnsföllin að orka er þar ein nýtingarleiðin og margar aðrar til.

Rétt er að geta þess að í morgun á fundi í umhverfisnefnd kvartaði fulltrúi sveitarfélaganna sérstaklega undan því að ekki væru til vatnsverndarlög. Þau eru engin til og ekki er um þau neitt frumvarp og okkur er ætlað að fara í gegnum vatnalögin sem hér eru nefnd, sem eiga að vera á málefnasviði iðnaðarráðherra og Orkustofnunar, án þess að til séu hliðstæð vatnsverndarlög. Hin stjórnsýslulega hugsun virðist því vera í pati og uppnámi í þessum efnum hjá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Það er sem sé eðlilegt að vatn og hinar jarðrænu auðlindir allar saman séu á verksviði umhverfisráðuneytisins, eftirlit og framkvæmd laga sé þar, en síðan þegar búið er að skilgreina einhverjar af þessum auðlindum sem orkulindir eða sem viðfang atvinnulífsins þá komi til atvinnumálaráðuneytanna eins og á við um annan atvinnurekstur. Ég vil gjarnan, af því að umhverfisráðherra er staddur hér, fá skoðun ráðherrans á þessu máli.

Ég ætla að nota það sem ég á eftir af tíma mínum í fyrsta lagi í að þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir eins konar svör eða þátttöku í umræðu sem ég stofnaði til síðast. Það var að vísu í andsvari við annan þingmann og var svolítið ankannalegt fyrir mig að geta ekki átt orðastað við hæstv. iðnaðarráðherra um það. Hæstv. iðnaðarráðherra brást þannig við hugleiðingum mínum og staðhæfingum um eignarrétt að ég væri þar með að taka upp gamla þjóðnýtingarstefnu og ráðherrann virðist sem sé vera í þeim stellingum, sem eru nokkurra áratuga gamlar, að annars vegar sé þjóðnýting og hins vegar sé einkavæðing. Það sem ég var að tala um var auðvitað allt annað. Ég var að tala um skilgreiningu eignarréttar, sem m.a. má finna í ágætri skýrslu auðlindanefndar, að við þyrftum að skilgreina hann með öðrum hætti en nú er gert og koma sérstaklega fyrir skilgreiningu á þjóðareign, á sameign þjóðarinnar á tilteknum hlutum, þar á meðal vatni.

Í öðru lagi talaði hæstv. iðnaðarráðherra um að menn skiptust gagnvart vatni og öðrum auðlindum eftir því hvort þeir vildu nýtingu eða verndun. Það er líka nokkuð gróf nálgun og ég hef orðið var við það hjá hæstv. iðnaðarráðherra og fleirum af hennar tagi að þeir segja um nýtingu eða verndun að menn séu annaðhvort nýtingarsinnar eða verndunarsinnar, menn hafi annaðhvort á bak við sig skynsemina eða tilfinningarnar, menn hugsi annaðhvort um hið mannlega samfélag eða séu grátandi Birgittur Bardotur sem hugsi bara um dýr og blóm, plöntur og fjallagrös og fleira af því tagi, og annars vegar séu hin óvitandi borgarbörn og hins vegar séu hinir hraustu menn landsbyggðarinnar.

Þetta er ekki svona. Í nútímanum erum við ekki að fjalla um nýtingu eða verndun. Við erum að fjalla um stjórn auðlinda. Við erum að fjalla um það hvernig við ætlum að varðveita og vinna úr þeim arfi sem okkur hefur verið trúað fyrir með ýmsum hætti og það er það sem við verðum að hafa í huga, bæði í þessum vatnamálum og í hinum jarðrænu auðlindum. Það gengur ekki að kalla sig nýtingarsinna og vin mannlegs samfélags og gera síðan ráð fyrir því að allt sé öllum opið alltaf og alls staðar til einhvers konar nýtingar vegna þess að menn sjá fram á einhvern peningalegan hagnað af því. Við verðum að hugsa um ábyrgð hvers og eins í samfélagi okkar, hver gagnvart öðrum. Við verðum að hugsa um ábyrgð okkar Íslendinga gagnvart heimsbyggðinni um þau verðmæti sem okkur hefur verið falið að annast hér (Forseti hringir.) og við verðum að hugsa um ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum þegar við fjöllum um mál eins og þetta.