131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til vatnalaga, heildarlöggjöf sem á að leysa af aðra löggjöf frá 1923 sem hefur reynst ágætlega og ekki hafa verið gerðar miklar breytingar á. Ég var ekki í þinginu í síðustu viku þegar upphaf þessarar umræðu fór fram en hef aðeins rennt yfir þá umræðu sem þar fór fram og mig langar til að nefna nokkur atriði sem ég hnýt um þegar ég les þetta frumvarp saman með gildandi vatnalögum.

Við erum m.a. að fækka greinum úr 154 greinum, eins og vatnalögin sem nú gilda eru, niður í 43. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að það sé ástæðulaust að vera með ýmis atriði inni í vatnalögum vegna þess að búið sé að taka þau atriði upp í öðrum lögum svo sem eins og verndunarþættina.

Engu að síður er það svo að ef þetta frumvarp yrði samþykkt eins og það liggur fyrir væru að detta út ákveðnir verndarþættir án þess að búið væri að taka þá inn í önnur lög. Þar vil ég benda á atriði eins og 83. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um óhreinkun vatna. Bent er á það í greinargerðinni að til séu frumvarpsdrög, minnir mig að standi hér, þar sem tekið sé á þessum þáttum. Þess vegna furða ég mig á því að verið sé að taka upp þetta frumvarp án þess að verndunarfrumvarpið sem er til í frumvarpsdrögum sé tekið upp samhliða.

Einnig langar mig að nefna annað atriði sem er vatnatilskipun ESB, sem er tilskipun sem okkur ber að taka upp, og ég spyr: Hvers vegna fylgir hún ekki með? Ég get ekki séð annað en að við þurfum að skoða hana þegar við fjöllum um málið í iðnaðarnefnd. Við þurfum einnig að fá skýringar á því hvers vegna EFTA-löndin, eins og kemur hér fram í greinargerðinni, hafa óskað eftir því að sú tilskipun verði ekki öll tekin upp hér á landi.

Það er reyndar aðeins skilgreining á því í greinargerðinni hvers vegna það er en ég held að við þurfum að skoða þetta mun betur og fá a.m.k. inn í nefndina þessi frumvarpsdrög sem liggja fyrir um verndunarþáttinn. Miðað við hvað þetta er stórt og viðamikið mál get ég ekki ímyndað mér að hæstv. ráðherra ætli að klára það á þessu þingi. Við hljótum að ætla að fara gaumgæfilega yfir þetta, bera það saman við önnur lög sem eru í gildi eða þá þætti sem eru ekki þegar komnir í lög, eins og t.d. 83. gr. í gildandi lögum, og vega og meta hvort við þurfum ekki að halda inni þeim greinum sem ekki eru komnar í önnur lög, hvort þær þurfa ekki að koma inn í vatnalögin þangað til þá umhverfisþátturinn verður kominn fram í þinginu og verði þá lögfestur um leið.

Ég get tekið undir það að við þurfum að gera þetta vandlega. Vatn er auðvitað mikil verðmæti sem við þurfum að skoða í þessu samhengi. Eins og komið hefur fram í umræðunni er þetta nokkuð sem mun leiða til átaka í heiminum og það er mjög stór hópur jarðarbúa sem ekki hefur aðgang að hreinu vatni. Við búum hins vegar við mikla gnótt af vatni og þurfum e.t.v. að huga að því hvernig við getum jafnvel miðlað af þeim gæðum okkar til þeirra sem ekki hafa.

Varðandi eignarréttarákvæðin er verið að fara frá þessari jákvæðu skilgreiningu og neikvæð skilgreining tekin upp. Auðvitað þarf að fara rækilega yfir þann þátt, þ.e. fara yfir skilgreininguna á hugtakinu eignarréttur eins og hann er tekinn upp í frumvarpinu. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra hafði farið vel yfir þær breytingar sem þetta frumvarp hefur í för með sér en ætla ekki að fara yfir það núna. Ég á sæti í iðnaðarnefnd og mun náttúrlega koma að málinu þar en vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki fulla ástæðu til þess að hafa ákvæði eins og 83. gr. í gildandi lögum í lögunum, a.m.k. þangað til svipað ákvæði er komið inn í önnur lög. Mælir eitthvað gegn því að slíkt ákvæði sé inni í þessum lögum þó svo að það sé tekið upp í verndarfrumvarpinu?

Virðulegi forseti. Ég held að ég taki ekki fleira fyrir við þessa 1. umr. Ég hef tök á því að koma að málinu þegar það kemur til nefndarinnar en vildi gjarnan fá svör við því hjá hæstv. ráðherra hvaða ástæða er fyrir því að EFTA-löndin hafa óskað eftir því að taka ekki alla tilskipunina upp hér á landi og síðan fá svar við þessu atriði sem ég nefndi áðan um 83. gr. Ég held að ég hafi þessa ræðu ekki lengri en áskil mér rétt til að taka til máls aftur ef ég tel ástæðu til þess eftir að hæstv. ráðherra hefur svarað.